Thursday, April 25, 2024
HomeErlentUFC 189: Jeremy Stephens gegn Dennis Bermudez

UFC 189: Jeremy Stephens gegn Dennis Bermudez

bermudez-stephensNú eru bara þrír dagar í UFC 189 og við ætlum að halda áfram að hita upp fyrir bardaga kvöldsins. Næst er komið að síðasta bardaganum á undan titilbardögunum tveimur.

Jeremy  Stephens (23-11) gegn Dennis Bermudez (14-4)

Bardagi Stephens og Bermudez verður sá þriðji á aðalhluta bardagakvöldsins og verður því næsti bardagi á eftir viðureign Gunnars Nelson og Brandon Thatch.

Jeremy Stephens á 20 bardaga að baki í UFC og keppti lengst af í léttvigt en hélt niður í fjaðurvigt árið 2013 eftir þrjú töp í röð. Þar náði hann strax þremur sigrum í röð. Það skilaði honum aðalbardaga kvöldsins í júní 2014 en hann tapaði þeim bardaga og þeim næsta á stigum. Töpin komu vissulega gegn gríðarsterkum andstæðingum, Cub Swanson og Charles Oliveira, en Stephens þarf verulega á sigri að halda. Stephens hefur aðallega treyst á hendurnar hingað til en Bermudez er einn besti glímumaður deildarinnar og hefur aldrei verið rotaður. Flestir spá Stephens því vandræðum.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

  • 21. bardagi hans í UFC, mikill reynslubolti
  • Mjög höggþungur en 15 af 23 sigrum hafa komið með rothöggi/tæknilegu rothöggi
  • Fimm sinnum fengið bónus eftir bardaga (þrisvar fyrir rothögg kvöldsins og tvisvar fyrir bardaga kvöldsins)
  • Gæti tapað þriðja bardaga í röð í annað sinn á UFC ferlinum

Dennis Bermudez er ekki bara einn allra besti glímumaður fjaðurvigtar heldur almennt í UFC. Hann tapaði úrslitabardaga TUF gegn Diego Brandao árið 2011 en eftir það hóf hann sjö bardaga sigurgöngu – nokkuð sem er fáheyrt í UFC. Á þeim tíma sigraði hann öfluga andstæðinga eins og Max Holloway og Clay Guida og fékk fjóra frammistöðubónusa. Ricardo Lamas stöðvaði Bermudez svo síðastliðinn nóvember með hengingu í fyrstu lotu. Bermudez fékk litla athygli þrátt fyrir þessa löngu sigurgöngu og reynir líklega að sýna að hann sé efni í eina af aðalstjörnunum í fjaðurvigt á laugardagskvöldið.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

  • Virðist betri í hvert sinn sem hann berst.
  • Veikur fyrir uppgjafartökum en öll töpin hans eru eftir uppgjafartök
  • Fimm frammistöðubónusar eftir bardaga

Spá MMA Frétta: Það er von á fjörugum bardaga en Dennis Bermudez sigrar Stephens með yfirburðum í glímutækni og styrk. Hann ætti ekki að þurfa að hræðast að standa með Stephens því boxtækni Bermudez hefur farið mikið fram og þrátt fyrir mikinn vöðvamassa er hann með gott þol. Hann ætti því að geta barist við Stephens hvar sem honum finnst þægilegast.

Helsti veikleiki Bermudez eru uppgjafartök. Stephens verður líklega settur á bakið og gæti viljað reyna á veikleika Bermudez. Hann er þó ekki líklegur til að vera mjög mikil ógn þar sem hann hefur aðeins þrjá sigra eftir uppgjafartak og er með fjólublátt belti í jiu-jitsu.

Sjá einnig:

UFC 189: Gunnar Nelson gegn Brandon Thatch

UFC 189: Thomas Almeida gegn Brad Pickett

UFC 189: Upphitunarbardagar kvöldsins

Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular