0

Þegar John Hathaway mætti Rick Story

john_hathaway_and_rick_story_856

John Hathaway er næsti andstæðingur Gunnars Nelson en sá bardagi fer fram 11. júlí næstkomandi í Las Vegas. Síðasti bardagi Gunnars var gegn Rick Story í október á síðasta ári en það var bardagi sem Gunnar tapaði á stigum eftir fimm erfiðar lotur. Fimm árum áður mættust þessir tveir andstæðingar Gunnars í UFC.

Einn plús einn gefur sjaldan tvo í MMA og þó svo að A sigri B og B sigri C segir það ekkert til um hvort A sigri C. Það er samt áhugavert að skoða hvernig John Hathaway sigraði manninn sem sigraði okkar mann. Köfum dýpra.

Bardaginn fór fram á UFC 99 þann 13. júní árið 2009. Aðalbardagi kvöldsins var spennandi viðureign á milli Rich Franklin og Wanderlei Silva en á kvöldinu börðust einnig Cain Velasquez og Mirko ‘Cro Cop’ Filipović, en því miður ekki við hvorn annan. Bardagi Rick Story og John Hathaway var sá fyrsti á kvöldinu og því voru ekki margir sem sáu hann í sjónvarpi. John Hathaway (þá 11-0) hafði barist einu sinni áður í UFC en hann sigraði Tom Egan með tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu á UFC 93. Rick Story (þá 7-3) var að berjast sinn fyrsta bardaga í UFC en hann hafði unnið sex bardaga í röð í öðrum bardagasamböndum fyrir bardagann, þar með talið gegn Jake Ellenberger.

Bardaginn

Fyrsta lota: Hathaway setur tóninn strax í upphafi með „clinch“ og fellu upp við búrið. Úr verða miklar stöðubreytingar þar sem Hathaway kemst í „mount“. Story nær viðsnúningi en Hathaway nær að ógna með „kimura“ af bakinu. Slítandi lota en Hathaway tók hana nokkuð skýrt.

Önnur lota: Lotan byrjar standandi þar sem báðir menn ná inn góðum höggum og spörkum. Hathaway nær fellu en Story ógnar með „guillotine“ hengingu í tvígang. Hathaway nær að halda topp stöðu lengi eða þar til dómari lætur þá standa upp. Story endar lotuna ofan á en Hathaway tók lotuna þar sem hann var með stjórnina mestan hluta tímans.

Þriðja lota: Hathaway nær fellu en Story ógnar með mjög góðum „kimura“ lás og var nokkuð nálægt því að klára bardagann. Story nær topp stöðu en Hathaway ógnar með „triangle“ hengingu. Story nær góðum höggum á gólfinu, stjórnar Hathaway og tekur lotuna mjög skýrt.

Niðurstaða: John Hathaway virtist sigra tvær lotur af þremur í frábærum bardaga. John Hathaway var dæmdur sigurinn en ekki fékkst gefið upp hvernig stigin skiptust niður. Báðir bardagamenn voru ungir á þessum tíma og nokkuð reynslulitlir en sýndu báðir hjarta og mikla hæfileika. Með árunum þróaði Rick Story mun betri felluvörn og John Hathaway er orðinn betri standandi. Þessi bardagi einn og sér segir kannski lítið um möguleika John Hathaway á móti Gunnari Nelson en það verður áhugavert að sjá hvaða leikáætlun hann beitir. Oftast styðst hann mikið við sterkan glímustíl og fellur en líklega reynir að hann að halda bardaganum standandi, enda hærri og faðmlengri. Það verður því undir Gunnari komið að koma inn betri höggum eða taka stærri manninn niður í gólfið. Spennan er að magnast.

john_hathaway wins

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.