Á miðvikudaginn síðastliðinn lést Hugh Hefner, stofnandi Playboy tímaritsins. Af því tilefni rifjum við upp þegar Strikeforce hélt bardagakvöld á Playboy setrinu fræga.
Mörg bardagasamtök hafa reynt að hugsa út fyrir kassann þegar kemur að viðburðum sínum. Sú var raunin þegar Strikeforce bardagasamtökin héldu tvö bardagakvöld á Playboy setrinu fræga.
Fyrsta Strikeforce kvöldið fór fram þann 29. september 2007 eða fyrir sléttum áratugi síðan. Þá var Strikeforce að taka sín fyrstu skref og voru margir upprennandi bardagamenn á kvöldinu.
Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Bobby Southwourth og Bill Mahood en sá fyrrnefndi er helst þekktastur fyrir að vera í 1. seríu The Ultimate Fighter. Gilbert Melendez, Joe Riggs og Josh Thomson börðust einnig á kvöldinu.
Miðarnir á bardagakvöldið kostuðu um 1000 dollara (um það bil 106 þúsund ISK) en rúmlega 3500 áhorfendur voru á setrinu til að fylgjast með bardögunum. Sjálfur Hugh Hefner var á svæðinu ásamt kanínum sínum. Seinni viðburðurinn fór fram ári síðar en þá börðust menn á borð við Josh Thomson, Brandon Thatch og Joe Riggs.
Bæði bardagakvöldin voru ansi skemmtileg enda margir bardagamenn sem börðust þar sem áttu síðar eftir að gera góða hluti í Strikeforce og UFC.
Önnur bardagasamtök hafa ekki reynt að feta í fótspor Strikeforce og haldið viðburði á búgarðinum. Strikeforce stækkaði mikið á árunum eftir Playboy bardagakvöldin áður en þau voru keypt af UFC og lögð niður árið 2013.
https://www.youtube.com/watch?time_continue=1&v=zBBPhuy2Ngw