spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÞríleikur Cerrone og Henderson

Þríleikur Cerrone og Henderson

Tveir af þeim bestu í léttvigtinni mætast í mikilvægum bardaga í Boston á sunnudaginn kemur. MMA kúrekinn Donald Cerrone og Ben Henderson börðust tvisvar í WEC og mætast nú í þriðja sinn.

Áður en þeir urðu stór nöfn í íþróttinni börðust þeir í frábærum bardögum. Fjórum árum og þrjátíu bardögum síðar mætast þeir aftur rétt áður en Conor McGregor berst við, þarna…hinn gaurinn.

Cerrone og Henderson mættust fyrst í WEC 43 þann 10. október árið 2009. Upphaflega átti Cerrone að mæta þáverandi meistara, Jamie Varner, þetta kvöld. Það átti að vera annar bardaginn á milli þeirra eftir umdeildan sigur Varner í fyrsta bardaga þeirra í WEC 38. Þar sem Varner gat ekki varið titil sinn var bardagi Cerrone og Henderson um „interim“ titilinn í léttvigt. Bardaginn var jafn og spennandi og var valinn af Sherdog og Sports Illustrated sem bardagi ársins þetta árið.

Bardagann má sjá í heilu lagi hér að neðan:

https://www.youtube.com/watch?v=yDrK39RirBk

Eftir sigur Henderson barðist hann við Jamie Varner til að skera úr um hver yrði réttmætur meistari. Henderson kláraði Varner með „guillotine“ hengingu í þriðju lotu og varð óumdeildur meistari í léttvigt. Næst á dagskrá var annar bardagi á móti Cerrone sem hafði í millitíðinni afgreitt James Krause með „rear-naked choke“ í fyrstu lotu.

Bardaginn fór fram á WEC 48 kvöldinu þann 24. apríl árið 2010. Kvöldið var fyrsta og eina „pay per view“ kvöldið í sögu WEC en aðalbardagi kvöldsins var bardagi José Aldo og Urijah Faber sem var beðið með mikilli eftirvæntingu. Áður en þeir stigu í búrið þurfti hins vegar að útkljá málin í léttvigt.

Fyrsti bardaginn var fimm lotu stríð en þessi var öðruvísi. Henderson náði Cerrone í gólfið og raðaði inn höggum. Cerrone reyndi að sleppa en en lenti í „guillotine“ frá meistaranum sem gerði út um bardagann á innan við tveimur mínútum.

cerrone taps

Hefðu Henderson og Cerrone mæst aftur ári síðar í WEC hefði Henderson verið talinn mikið sigurstranglegri. Í dag eru veðbankarnir með þá nokkuð jafna þó svo að Henderson sé talinn aðeins líklegri til sigurs. Nokkrir áhrifaþættir spila inn í. Cerrone er á mikilli sigursiglingu og hefur aldrei litið betur út. Hann hefur unnið sex bardaga í röð, meðal annars gegn fyrrverandi Bellator meistara, Eddie Alvarez, sem einmitt var upprunanlegi andstæðingur Henderson. Það vinnur hins vegar á móti Cerrone að hann barðist heilar þrjár lotur fyrir aðeins tveimur vikum síðan. Það getur því reynt á líkama hans að þurfa að létta sig tvisvar á svo skömmum tíma en hann virðist þó ekki hafa áhyggjur af því. Henderson er aftur á móti í lægð en hann var rotaður í fyrstu lotu af Rafael dos Anjos í hans í síðasta bardaga svo ekki sé minnst á tapið fyrir Anthony Pettis árið 2013.

Henderson og Cerrone eru báðir árásagjarnir bardagamenn sem tryggja nánast skemmtilegan bardaga. Forsagan og dramatíkin í kringum aðstæður beggja bætir á spennuna. Báðir eru á besta aldri (31 árs) og vilja halda stöðu sinni í þyngdarflokknum. Með sigri verður Cerrone svo gott sem búinn að tryggja sér bardaga gegn meistaranum. Sigri Henderson hins vegar verður hann aftur kominn í toppbaráttuna.

Tekst Henderson að sigra Cerrone í þriðja sinn eða nær Cerrone loksins að sigra Henderson? Það kemur í ljós á sunnudaginn en bardaginn er næstsíðasti bardagi kvöldsins á UFC Fight Night bardagakvöldinu í Boston á sunnudaginn. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

WEC 43: Cerrone vs. Henderson

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular