Thursday, April 25, 2024
HomeErlentTryggir Demian Maia sér titilbardaga í kvöld?

Tryggir Demian Maia sér titilbardaga í kvöld?

Demian Maia
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Demian Maia mætir Matt Brown í kvöld á UFC 198 bardagakvöldinu í Brasilíu. Með sigri í kvöld er óhætt að segja að Maia verði kominn ansi nálægt titilbardaga.

Lengi hafa menn sagt að Maia sé á niðurleið enda maðurinn orðinn 38 ára gamall. Maia hefur hins vegar sannað að svo sé ekki og unnið fjóra bardaga í röð í erfiðri veltivigtinni.

Maia er líka einn af þeim sem reiðir sig ekki mikið á líkamlega getu svo sem hraða, kraft og styrk heldur er hann einn tæknilegasti bardagamaðurinn í UFC. Honum hefur tekist með árunum að læra að nýta sér kunnáttu sína í brasilísku jiu-jitsu til að yfirbuga sér mun yngri menn.

Það er oft sagt að form sé tímabundið en klassi varir að eilífu. Það á vel við Maia enda sýnir hann alltaf andstæðingum sínum mikla virðingu hvort sem það er í sigri eða tapi. Hann ber af sér mikinn klassa og er ekki annað hægt en að halda með honum.

Núna er Maia líklegast einum sigri frá titilbardaga í einum erfiðasta flokki UFC. Sigri Maia Brown verður erfitt að neita honum um titilbardaga.

Það gæti þó allt velt á röð atburða. Stephen Thompson og Rory MacDonald mætast í frábærum bardaga í júní og mun sigurvegarinn þar klárlega vera nálægt titilbardaga (og þá sérstaklega Thompson). Meistarinn Robbie Lawler mun svo að öllum líkindum verja beltið sitt í ágúst gegn Tyron Woodley á UFC 201.

Fyrir Maia gæti biðin eftir titilbardaga orðið löng sigri hann í kvöld. Ef Robbie Lawler vinnur Tyron Woodley í ágúst mun hann sennilega verja beltið sitt næst í desember (um það bil). Stephen Thompson átti frábæra frammistöðu síðast og takist honum að sigra MacDonald munu eflaust fleiri bardagaaðdáendur vilja sjá hann gegn Lawler heldur en Maia.

Takist Woodley hið óvænta og sigri Lawler mun sá síðarnefndi væntanlega fá endurat (e. rematch) í von um að ná í beltið sitt aftur. Þá yrði biðin enn lengri fyrir Maia, Thompson eða MacDonald.

Til að Maia geti farið að hugsa um titilbardagann þarf hann fyrst að vinna Matt Brown í kvöld. Á pappírum ætti þetta að verða nokkuð öruggur sigur fyrir Maia. Brasilíumaðurinn er einn besti gólfglímumaður sögunnar og Brown er með níu töp eftir uppgjafartök.

Brown hefur hins vegar bætt sig í gólfinu og flest af þessum töpum komu á fyrri hluta ferilsins. Sagan segir einnig að Matt Brown hafi fengið lista yfir mögulega næstu andstæðinga. Brown valdi Demian Maia. Í Brasilíu. Á risastórum leikvangi. Það er hálfgerð klikkun.

Brown valdi andstæðing sem er sennilega einn sá versti sem hann hefði getað valið tæknilega séð. En kannski er Brown með ás í erminni? Kannski nær hann að halda þessu standandi? Þar ætti Brown að vera með yfirburði en við skulum ekki gleyma því að fáum hefur tekist að forðast gólfið með Maia.

Bardaginn er síðasti bardaginn áður en aðalhluti bardagakvöldsins hefst. Bardagaaðdáendur hér heima ættu að geta horft á bardagann á Fight Pass rás UFC og mun bardaginn hefjast í kringum 1:30.

Gunnar Nelson Demian Maia
Klassi. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular