Wednesday, April 17, 2024
HomeErlentSpámaður helgarinnar: Snorri Barón (UFC 198)

Spámaður helgarinnar: Snorri Barón (UFC 198)

Snorri ásamt Royce Gracie.
Snorri ásamt Royce Gracie.

UFC 198 er risa bardagakvöld og eins og vanalega fyrir þessi stærstu bardagakvöld fáum við skemmtilega aðila til að spá í spilin.

Snorri Barón er framkvæmdastjóri og aðaleigandi auglýsingastofunnar Maura. Hann hefur verið áhugamaður um bardagaíþróttir frá blautu barnsbeini, hefur prófað að æfa bæði box og brasilískt jiu-jitsu en afrek hans á sviði þeirra íþrótta eru hvorki til hreykinga né eftirbreytni. Hæfileikar hans liggja á öðrum sviðum. Gefum honum orðið.

Veltivigt: Warlley Alves gegn Bryan Barbarena

Áhugaverður bardagi hér á ferð. Warlley er bardagamaður á uppleið. Hann sigraði seríu þrjú af Ultimate Fighter Brazil og er ósigraður enn. Hann er sparkboxari að upplagi en er með gríðarlega góða gólfglímu líka. Því til stuðnings má nefna að 7 af 11 bardögum hans hafa endað með uppgjafataki. Bryan Barbarena skaust óvænt upp á sjónarsviðið þegar hann gerði sér lítið fyrir og sigraði kurteisa og ofurhressa dúllubossarassgatið hann Sage Northcut með hengingu eftir að Sage hafði reynt misheppnað mökkasnalegt handahlaupsspark. Bam Bam eins og hann er kallaður er harður af sér og gefst ekki auðveldlega upp, Warlley er hins vegar einfaldlega of erfiður andstæðingur. Bardaginn fer alla leið, en það mun enginn vafi liggja á því að Warlley er sigurvegarinn.

ShogunAnderson

Léttþungavigt: Mauricio ‘Shogun’ Rua gegn Corey Anderson

Sú var tíðin að Shogun Rua rotaði alla þá sem á vegi hans urðu. Afskaplega farsæll bardagakappi en sól hans hefur fölnað umtalsvert síðastliðin ár. Hann hefur verið rotaður illa nokkrum sinnum og virðist ekki vera nema skugginn af sjálfum sér. Corey Anderson er baráttujaxl. Hann er yngri og ferskari en Shogun. Nautsterkur og mótíveraður. Hann er hins vegar ekkert mikið í því að klára bardagana sína og þess vegna spái ég að þessi bardagi fari allar loturnar en dómarar munu vera sammála um öruggan sigur Corey Anderson.

ufc 198 cyborg

Hentivigt: Cris ‘Cyborg’ Justino gegn Leslie Smith

Langþráð frumraun Cris Cyborg í UFC. Margir búnir að bíða lengi eftir þessu og þar á meðal ég. Cyborg er afar áhugaverð týpa og hef ég fylgst með henni um talsvert langt skeið. Hún á klárlega heima í UFC og hún verður fyrr en síðar komin með beltið í sínum þyngdarflokki. Áhugavert hefur verið að fylgjast með undangengna daga. Niðurskurðurinn hjá Cyborg er búinn að vera svakalega harður og mögulega verður hún ekki eins og hún á að sér að vera fyrir vikið. Það mun samt ekki koma að sök. Ég hefði kosið að það hefði verið ögn meiri prófíll á andstæðingnum en Leslie Smith er lambið sem fært verður til slátrunar þarna og það er nákvæmlega það sem mun gerast. Cyborg mun ekki stíga feilspor í bardaganum, mun stjórna honum frá upphafi til enda og vinnur þetta með TKO í fyrstu lotu.

Jacare-vs-Belfort-Poster

Millivigt: Ronaldo ‘Jacare’ Souza gegn Vitor Belfort

Þetta þykir mér áhugaverður bardagi. Báðir þessir drengir búnir að vera lengi í bransanum, báðir að berjast í heimalandinu og báðir færir um hið óvænta. Ég geri ráð fyrir að minn maður Vitor eigi eftir að gefa allt í botn. Hann er orðinn 39 ára og fer nú senn að koma að því að hann hengi upp hanskana. Það væri sannarlega ljóðrænt ef hann kæmi til með að sýna sínar bestu hliðar á bardagakvöldi í Brasilíu og ég er nokkuð viss um að hann komi til með að gera það.

Ég hef haldið mikið upp á Vitor Belfort í gegnum tíðina og mér þætti gaman að sjá hvort það sé ennþá eitthvað eftir af þessum náttúrulega sprengikrafti sem einkenndi hann fyrr á ferlinum í honum. Þarna er ég ekki að tala um stöffið sem hann setti í rasskinnina á sér, heldur þennan náttúrulega styrk sem hann fékk í vöggugjöf. Jacare tapaði seinasta bardaga mjög naumt fyrir Yoel Romero og voru margir ósammála dómurunum sem dæmdu honum ósigur þar. Hann hefur því til mikils að vinna og því gæti fylgt óþægilegt álag. Ég spái að þessi bardagi verði veisla. Vitor mun beita öflugu sparkboxi og klára Jacare með öflugu ground & pound í gólfinu í þriðju lotu. Dómarinn mun þurfa að stöðva bardagann þar.

Werdum-Miocic

Titilbardagi í þungavigt: Fabricio Werdum gegn Stipe Miocic

Sko, Miocic er grjótharður nagli, en hann á ekki séns í þessum bardaga vil ég meina. Eftir að hafa séð Werdum tuska Cain Velasquez um búrið þvert og endilangt í þrjár lotur og klára hann svo með uppgjafartaki þá sannfærðist ég endanlega um hann sem einn magnaðasta köggulinn í þungavigtinni. Werdum hefur mikla getu bæði á fótum og í gólfinu og ætti að hafa yfirburði yfir Miocic á öllum stigum bardagans. Miocic er baráttuhundur og mun áreiðanlega eiga einhverja spretti en það þarf meira til en nokkra spretti. Hann mun lifa af fyrstu lotuna en Fabricio klárar hann í annarri lotu með hengingu.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular