spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUFC 166: Cain Velasquez vs. Junior dos Santos

UFC 166: Cain Velasquez vs. Junior dos Santos

ufc166_600x250

UFC 166 fer fram næsta laugardagskvöld og verður eitt stærsta bardagakvöld ársins. Barist verður um titilinn í þungavigt í Toyota Center, Houston, Texas. Cain Velasquez og Junior dos Santos berjast í þriðja sinn í bardaga sem á að skera úr um í eitt skipti fyrir öll hver sé réttmætur meistari. Auk þess er kvöldið hlaðið góðum bardögum. Strikeforce þungavigtar Grand Prix meistarinn Daniel Cormier berst við Roy Nelson og fyrrverandi Strikeforce meistarinn Gilbert Melendez berst við fyrsta sigurvegara The Ultimate Fighter seríunnar, Diego Sanchez. Ekki gleyma svo gullmola snemma um kvöldið, bardaga á milli fyrrverandi Bellator meistara Hector Lombard og fyrrverandi Strikeforce meistara Nate Marquart. Þetta verður eftirminnilegt kvöld, ekki missa af því!

Fyrsti bardagi kvöldsins byrjar kl. 22.15. Förum yfir þetta.

Cain Velasquez (12-1) vs. Junior dos Santos (16-2) – þungavigt

Það leikur enginn vafi á því að Cain Velasquez og Junior dos Santos eru tveir bestu MMA bardagamenn í heimi í þungavigt. Ferill beggja í UFC er 10 sigrar og 1 tap en þeir hafa bara tapað fyrir hvor öðrum. Eitt af því sem gerir þessa menn svo heillandi er að þeir koma frá löndum þar sem ríkir mikil hefð fyrir bardögum og þjóðarstoltið er sterkara en gengur og gerist. Cain Velasquez kemur frá Mexíkó þar sem Aztec stríðsmanna eðlið er ríkt í mönnum og hnefaleikar eru svo gott sem þjóðaríþrótt. Meistarar á borð við Julio Cesar Chavez og Marco Antonio Barrera eru þjóðhetjur og Velasquez er í raun fyrsta mexíkanska MMA hetjan í því samhengi. Junior dos Santos er frá Brazilíu þar sem ríkir einnig mikil bardagahefð en þó á annan hátt. MMA á að miklu leyti rætur sínar að rekja til landsins og er orðin vinsælli þar en í næstum öllum öðrum löndum. Í dag eru tveir ríkjandi meistarar í UFC frá Brazilíu, Jose Aldo og Renan Barão. Brössunum þætti ekki leiðinlegt að bæta við þeim þriðja.

Stílar þessara tveggja eru mjög ólíkir. Í grunninn er þetta þessi klassíski „striker vs. grappler“ bardagi og báðir eru með skýra styrkleika. Báðir eru með svart belti í jiu-jitsu en Velasquez er mun betri glímumaður sem hann hefur sýnt í bardögum við stóra menn á borð við Cheick Kongo og Ben Rothwell. Hann hefur oft klárað bardaga með höggum en hann þarf fléttu af höggum til að gera út af við andstæðinga sína. Á hinum endanum er dos Santos sem er einn höggþyngsti bardagamaður í heimi. Hann getur slökkt á andstæðingum sínum með einu höggi sem hann hefur sannað á móti mönnum eins og Fabricio Werdum, Gilbert Yvel, Gabriel Gonzaga og auðvitað Cain Velasquez.

Í fyrsta bardaga þeirra, sem fór fram 12. nóvember 2011 tók það dos Santos aðeins rúma mínútu að rota Velasquez. Hann hitti Velasquez með þungri hægri hendi sem lenti fyrir aftan vinstra eyrað. Höggið vankaði hann og felldi en dos Santos fylgdi eftir og kláraði bardagann. Eftir bardagann kom í ljós að Velasquez hefði verið meiddur á hné sem hafði gert það að verkum að hann gat ekki hreyft sig eins og lagt var upp með. Hvort það olli tapinu er erfitt að segja og ósanngjarnt gagnvart dos Santos en Velasquez fékk þó annað tækifæri til að sanna sig.

Þann 29. desember í fyrra börðust þeir aftur og niðurstaðan var allt önnur. Velasquez var hreyfanlegri, árásagjarnari og stjórnaði bardaganum allan tímann. Hann hitti dos Santos snemma með þungri hægri, eins og hann væri að hefna fyrir hægri höndina sem setti hann í gólfið í fyrsta bardaganum. Eftir það virtist dos Santos bara skugginn af sjálfum sér en hann tórði þó allar fimm loturnar. Eftir 25 mínútna barsmíðar var andlit hans eins og kjötbúðingur með papriku en andlega var ekki brotinn. Líkt og Velasquez í fyrri bardaganum var dos Santos með ástæðu (afsökun) fyrir tapinu. Hann sagðist hafa ofþjálfað sig og segist því hafa verið orkusnauður auk þess sem hann var að ganga í gegnum skilnað. Það er vonlaust að vita hvort eitthvað sé til í því en það gerir þennan þriðja bardaga enn áhugaverðari.

Fimm mánuðum síðar börðust báðir menn aftur sama kvöld á móti öðrum andstæðingum í UFC 160. Velasquez rotaði þá Antonio „Bigfoot“ Silva og dos Santos rotaði harðhausinn Mark Hunt með miklum tilþrifum. Eftir það var ekki annað í stöðunni en að láta þá berjast í þriðja skiptið.

Þessi þriðji bardagi á að skera úr um hver er bestur í heimi. Það versta við þennan bardaga er að hann er mögulega sá síðasti á milli þeirra, sérstaklega ef hann verður eins og annar bardaginn. Það besta er að vitum að báðir geta unnið og nánast allt getur gerst!

Daniel Cormier (12-0) vs. Roy Nelson (19-8) – þungavigt

Daniel Cormier og Roy Nelson eiga ýmislegt sameiginlegt. Báðir hafa verið mikið vanmetnir á þeirra ferli enda virka þeir báðir feitir og ekki líklegir til að endast þrjár lotur, hvað þá að sigra þá bestu í heimi. Cormier kom inn sem varamaður í Strikeforce þungviktarmótið árið 2011, rotaði Antonio „Bigfoot“ Silva og vann Josh Barnett á stigum í úrslitunum. Hann hefur barist aðeins einu sinni í UFC, vann þá Frank Mir á stigum í frekar leiðinlegum bardaga en stjórnaði þó bardaganum allan tímann. Ferill Nelson er sveiflukenndari en hann hefur barist við fleiri stór nöfn síðan hann vann The Ultimate Fighter seríuna árið 2009.

Cormier er ennþá ósigraður. Hans helsti styrkleiki er glíma en hann getur líka rotað. Svipaða sögu má segja af Nelson, þ.e. hann er mjög góður glímumaður, með svart belti í jiu-jitsu (Cormier er með brúnt) og getur rotað. Höggþungi Nelson er sennilega meiri en búast má við að Cormier sé fjölhæfari standandi og betri glímumaður, en það á eftir að koma í ljós. Báðir eru hrikalega harðir svo búast má við að þessi bardagi fari alla leið. Það er ákveðinn “X faktor” í þessu að báðir menn virðast vera að létta sig. Cormier er að undirbúa stökk niður í létt þungavigt á meðan Nelson er sennilega bara að reyna að bæta úthald, snerpu og almennt heilbrigði, veitir ekki af.

Gilbert Melendez (21-3) vs. Diego Sanchez (24-5) – léttvigt

Gilbert Melendez kom í UFC  snemma á þessu ári sem síðasti Strikeforce léttvigtarmeistarinn. Hann hafði varið titilinn fjórum sinnum en eina tap hans í Strikeforce var árið 2008 en þá tapaði hann á stigum fyrir Josh Thomson. Hina átta bardagana í Strikeforce vann hann, meðal annars tvo á móti Thomson þó svo að sá síðasti hafi verið tæpur og klofinn dómaraúrskurður. Þess má geta að Thomson er næsti andstæðingur núverandi UFC meistara Anthony Pettis. Sigri bæði Melendez og Thomson andstæðinga sína má jafnvel búast við fjórða bardaganum á milli þeirra tveggja. Bardagi Melendez á móti Diego Sanchez er hans annar í UFC. Í þeim fyrsta skoraði hann á þáverandi léttvigtarmeistara Ben Henderson í apríl síðastliðinn. Bardaginn var jafn og þrátt fyrir tap á stigum (klofinn úrskurður aftur) voru margir á því að Melendez hefði unnið. Það ætti því ekki að vera langt í að hann berjist aftur um titil ef hann sigrar Sanchez og kannski einn í viðbót. Við skulum þó ekki gleyma T.J. Grant á hliðarlínunni en hann fær sennilega að berjast um titilinn fljótlega.

Diego Sanchez varð snemma stórstjarna í UFC eftir að hann sigraði fyrstu seríu af The Ultimate Fighter árið 2005 enda bæði litríkur persónuleiki og öflugur bardagamaður. Hann hefur átt mjög góðan feril en af 18 bardögum í UFC hefur hann unnið 13. Hann hefur einu sinni barist um titil, á móti B.J. Penn árið 2009, en tapaði illa. Hann hefur í gegnum tíðina sigrað stór nöfn eins og Kenny Florian, Nick Diaz, Clay Guida og Martin Kampmann. Sanchez virðist vera að nálgast endalok ferilsins þrátt fyrir að vera aðeins 31 árs gamall. Hann er alltaf skemmtilegur á að horfa. Bardagar hans enda oft í blóðugu stríði, sem skýrir slitið, en hann er ennþá hæfileikaríkur, árásagjarn og með svart belti í jiu-jitsu sem gerir hann hættulegan.  Þetta verður erfiður bardagi fyrir Sanchenz en nái hann að sigra myndi það endurlífga feril hans og framlengja. Þessi bardagi er því gríðarlega mikilvægur fyrir báða menn.

Gabriel Gonzaga (15-7) vs. Shawn Jordan (15-4) – þungavigt

Hér er á ferðinni þungavigtarbardagi sem gæti orðið flugeldasýning snemma en þó er hætta á að það hægist mikið á dragist bardaginn á langinn. Báðir eru höggþungir og góðir glímumenn líkt og Nelson og Cormier að ofan. Eins og þeir er annar betri í jiu-jitsu en Gonzaga er 4. gráðu svartbeltingur frá Brazilíu á meðan Jordan er háskóla glímukappi frá Bandaríkjunum og spilaði ruðning að auki. Jordan er á góðri siglingu en í síðustu tveimur bardögum hefur hann sigrað Pat Barry og Mike Russow, báða með rothöggi.

Gonzaga er hefur verið talsvert lengur í UFC en hann var þó leystur frá sambandinu árið 2010 eftir tvö töp í röð á móti Junior dos Santos og Brendan Schaub. Eftir endurkomuna í UFC hefur Gonzaga lagt meiri áherslu á uppgjafarglímuna og klárað bæði Ednaldo Oliveira og Ben Rothwell með uppgjöf. Hann tapaði svo umdeilt fyrir Travis Browne. Umdeilt af því að Browne vann með olnbogum í hnakkann sem voru á mörkum þess að vera löglegir. Eftir það rotaði Gonzaga Dave Herman í fyrstu lotu í júlí síðastliðinn. Þessi bardagi ætti að segja okkur talsvert um hvar þessir menn eru staddir í þungavigtardeildinni. Sigurvegarinn fær sennilega stórt nafn næst og því er til mikils að vinna.

John Dodson (14-6) vs. Darrell Montague (13-2) – fluguvigt

Þessi bardagi er  frumraun Darrell Montague í UFC en hann fær ekki öfundsverðan andstæðing. John Dodson er einn sá besti í heimi í sínum þyngdarflokki og hugsanlega sá hraðasti á eftir meistaranum, Demetrious „Mighty Mouse“ Johnson. Dodson tapaði fyrir Johnson í sínum síðasta bardaga en stóð sig vel og veitti honum harða keppni. Þar áður vann hann alla sína bardaga í UFC (þrjá), þar með talið á móti T.J. Dillashaw í úrslitum The Ultimate Fighter. Montague er nokkuð reyndur glímumaður. Hann hefur unnið síðustu fjóra bardaga sína en hann tapaði síðast árið 2011, þá á móti Ian McCall. Það verður hins vegar erfitt fyrir hann að ná Dodson í gólfið og enn erfiðara að hitta hann með þungu höggi.

Aðrir bardagar kvöldsins eru:

Tim Boetsch (16-6) vs. C.B. Dollaway (13-4) – millivigt

C.B. „The Doberman“ Dollaway leysir Luke Rockhold af og fær tækifæri til að vinna þrjá bardaga í röð og bæta stóru nafni á ferilskrána. Dollaway verður seint talinn í hópi með þeim allra bestu en hann hefur þó unnið sjö bardaga í UFC. Í hans síðustu tveimur bardögum sigraði hann Jason „Mayhem“ Miller og Daniel Sarafian, báða á stigum. Dollaway er nokkuð alhliða góður glímumaður en fær mjög erfiðan andstæðing þetta kvöld. Tim „The Barbarian“ Boetsch var kominn í góða stöðu eftir fjóra sigra í röð, þar með talið á móti Yushin Okami og Hector Lombard. Boetsch er líka glímukappi en er best þekktur fyrir hörku. Hann var að tapa illa á móti Okami þegar hann beit á jaxlinn í síðustu lotunni og rotaði Japanann óvænt. Það er alltaf spurning hversu langt þú kemst á hörkunni en Boetsch hefur komist lengra en flestir áttu von á. Hann hefur núna tapað tveimur bardögum í röð, á móti Costa Philippou og Mark Muñoz og þarf nauðsynlega á sigri að halda.

Nate Marquardt (32-12) vs. Hector Lombard (32-4) – veltivigt

Hér er á ferðinni einn mest spennandi bardagi kvöldsins. Að mínu mati hefði hann átt að vera talsvert ofar á listanum en það skiptir kannski ekki öllu máli. Marquardt og Lombard eru tveir af reyndustu bardagamönnum kvöldsins eins og sjá má á ferilskránni þeirra. Marquardt vakti athygli á sér þegar hann varð Pancrase meistari í þrígang. Hann hefur verið í UFC síðan 2005 með stuttri viðkomu í Strikeforce þar sem hann vann titil á móti Tyron Woodley. Hann skoraði á Anderson Silva árið 2007 og tapaði en hefur á ferlinum barist við mörg af stærstu nöfnum heims. Hann hefur nú tapað tveimur bardögum í röð en fær hér stórt tækifæri á móti fyrrverandi Bellator meistara Hector Lombard. Á meðan Marquart er alhliða góður, er sérgrein Lombard júdó en hann á að baki glæsilegan feril í greininni. Hann er þekktur fyrir góða felluvörn og mikla höggþyngd sem gerir hann mjög hættulegan andstæðing fyrir Marquardt. Báðir eru með svart belti í jiu-jitsu. Margir bjuggust við meiru af Lombard þegar hann kom inn í UFC en hann hefur unnið einn bardaga (Rousimar Palhares) og tapað tveimur (Tim Boetsch og Yushin Okami). Í þessum bardaga er Lombard að létta sig niður um þyngdarflokk en Marquardt gerði einmitt slíkt hið sama fyrir tveimur árum. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta fer.

Sarah Kaufman (16-2) vs. Jessica Eye (10-1) – bantamvigt

Þetta er eini kvennabardagi kvöldsins. Reynsluboltinn og fyrrverandi Strikeforce meistari Sarah Kaufman býður Jessica Eye velkomna í UFC. Líkt og Montague hér að ofan fer Eye beint í djúpu laugina og mætir einni bestu bardagakonu heims. Þetta er tvíeggja sverð. Tap í fyrsta bardaganum gæti verið mjög slæmt fyrir sjálfstraustið og ferilinn en sigur myndi skjóta henni hratt upp metorðalistann. Fyrir Kaufman er ekkert annað en sigur í boði ef  hún vill halda stöðu sinni í deildinni.

George Sotiropoulos (14-5) vs. KJ Noons (11-6) – léttvigt

Þessi bardagi gæti þýtt atvinnuleysi fyrir þann sem tapar. Fyrir þremur árum var Sotiropoulos í annarri stöðu. Hann hafði unnið fyrstu sjö bardagana sína í UFC og stefndi óðum á titilinn. Í dag er hann 36 ára gamall og hefur tapað síðustu þremur bardögum sínum. Það sem verra er að í síðasta bardaga sínum á móti Ross Pearson leit hann mjög illa út en hann hefur nú verið rotaður tvisvar í röð. Noons er ekki í mikið betri stöðu. Hann hefur tapað fimm af síðustu sex bardögum svo það er nánast öruggt að hann verði rekinn tapi hann einum í viðbót. Þessir kappar eru oftast í líflegum bardögum. Það má búast við að Sotiropoulos reyni að ná bardaganum í gólfin en Noons mun reyna að halda Ástralanum frá sér og útboxa hann.

Ókeypis bardagar á Facebook:

TJ Waldburger vs. Adlan Amagov – veltivigt

Tony Ferguson vs. Mike Rio  – léttvigt

Jeremy Larsen vs. Andre Fili – fjaðurvigt

Dustin Pague vs. Kyoji Horiguchi – bantamvigt

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular