Friday, April 19, 2024
HomeErlentUFC bardagamenn í vafasömum félagsskap

UFC bardagamenn í vafasömum félagsskap

Stöku sinnum höfum við séð myndir af þekktum UFC bardagamönnum með vafasömum einstaklingum. Þetta eru menn sem eru sakaðir um stríðsglæpi og ótal mannréttindabrot en hvers vegna eru bardagamenn í slagtogi við slíka menn?

Þeir Frank Mir, Chris Weidman og Fabricio Werdum hafa allir sést með hinum umdeilda Ramzan Kadyrov. Mir, Weidman og Werdum voru gestir Kadyrov á Akhmat FC bardagakvöldinu í Tjetseníu þar sem þeir sátu með Kadyrov. En hver er þessi Ramzan Kadyrov?

Svarið er ekki einfalt. Ramzan Kadyrov er æðsti ráðamaður Tjetseníu, einræðisherra, ásakaður um stríðsglæpi, bardagaáhugamaður og ákafur unnandi Instagram. Þá á hann í nánum samskiptum við Vladimir Putin sem setur hann í mikilvæga stöðu í rússneskum stjórnmálum. Hann er ötull stuðningsmaður Putin.

Í tímaritinu The New York Times var farið vandlega yfir Kadyrov og m.a. hans þátt í morði á leiðtoga andspyrnuhreyfingar gegn Rússlandi, Boris Nemtsov.

Kadyrov stjórnar Tjetseníu með harðri hendi. Hans orð eru lög og regla og þá fær hann vænar fjárhæðir í vasann frá rússnesku stjórninni. Í staðinn er Kadyrov tryggur hermaður Putin.

Blaðamenn og aðgerðarsinnar sem draga aðgerðir Kadyrov í efa hafa fallið frá á undarlegan hátt og þá hafa andstæðingar Kadyrov verið myrtir í Moskvu og Dubai. Fyrrum lífvörður hans talaði um misþyrmingar Kadyrov opinberlega og var skotinn til bana í Vín 2009.

Kadyrov er líka mikill partýpinni og dansaði í umdeildu brúðkaupi vinar síns með gylltar skammbyssur í buxnastrengnum. Þá hefur hann lýst því yfir í beinni útsendingu í Tjetseníu að karlmenn ættu að banna eiginkonum sínum að nota WhatsApp spjallforritið þar sem það sé vettvangur fyrir kvennaslúður. Þeir ættu að „læsa þær inni, ekki hleypa þeim út og þá gætu þær ekki slúðrað neitt“ samkvæmt Kadyrov.

kadyrov
Mynd af Instagram reikningi Kadyrov.

Þeir Weidman, Mir og Werdum virðast hafa skemmt sér konunglega með Kadyrov. Gera má ráð fyrir að þeir hafi fengið væna fúlgu fjár til að vera viðstaddir Akhmat FC bardagakvöldið. Ekki er vitað hversu háa upphæð þeir fengu en vitað er að Jon Jones átti að fá 100.000 dollara fyrir að mæta á bardagakvöldið. Jones hafnaði boðinu.

Weidman, Mir og Werdum eru ekki þeir einu sem hafa verið í slagtogi við vafasama menn. Þegar Frankie Edgar mætti Chad Mendes fyrr í mánuðinum var Khalid Bin Hamad al Khalifa, prinsinn í Barein, við hlið hans.

prinsinn í barein
Prinsinn (til hægri) og Ricardo Almeida til vinstri.

Edgar er hluti af MMA liðinu KHK MMA sem er í eigu al Khalifa. Aðrir meðlimir liðsins eru m.a. Khabib Nurmagomedov og Íslandsvinurinn James Gallagher. Þá er John Kavanagh, yfirþjálfari Gunnars og Conor McGregor, viðloðinn liðið. Prinsinn al Khalifa er stór aðili í konungsfjölskyldunni sem hefur fangelsað, misþyrmt og myrt mótmælendur í fjölda ára.

Prinsinn og Ramzan Kadyrov eru báðir miklir MMA áhugamenn. Kadyrov hefur lagt mikið fé í MMA og þá sérstaklega í grasrótarstarfsemi MMA klúbba í landinu.

Konungsfjölskyldur á Arabíuskaganum hafa lengi verið helteknar af MMA. Í Jórdaníu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafa milljónir dollara farið í uppgang brasilísks jiu-jitsu þar í landi og í heimsklassa BJJ þjálfara handa konungsfólkinu sjálfu. Abu Dhabi Combat Club, ADCC, er sterkasta uppgjafarglímumót heims og var stofnað árið 1998 af Sheikh Tahnoon bin Zayed al Nayhan. Hann á einnig 10% hlut í Zuffa, LLC sem eiga UFC.

Það er hæpið að eigendur UFC og bardagamenn þeirra séu mikið að spá í málefnum á Arabíuskaganum og þeirri staðreynd að 97 mótmælendur hafa verið myrtir í Barein á undanförnum árum.

En hvers vegna eru bardagamennirnir að hanga með þessum umdeildu mönnum? Frá sjónarhorni bardagamann er auðvelt að skilja ástæðuna. Það er erfitt að segja nei við tugi þúsunda dollara fyrir það eitt að horfa á bardaga, mæta í partý og sýna nokkur trikk.

Ólíkt leikurum eins og Hillary Swank og Jean-Claude van Damme sem var borgað fyrir að mæta í afmæli Kadyrov árið 2001 hafa MMA bardagamenn stuttan tíma til að afla tekna. Bæði Mir og Werdum eru að nálgast endalok ferilsins og er því líklegra að tækifærum þeirra til að afla tekna fari fækkandi fremur en fjölgandi.

Það er kannski erfitt að dæma bardagamennina. Þeir hafa fjölskyldur sem þeir þurfa að sjá fyrir og þó þeir séu MMA bardagamenn í heimsklassa eru þeir ekki með tekjur á borð við Hollywood stjörnur. Werdum fékk tífalt meira borgað fyrir að hanga með Kadyrov eina helgi í stað þess að lýsa UFC í spænsku útsendingunni eins og hann gerir reglulega. Þeir hefðu kannski átt að gúggla betur áður en þeir tóku gylliboðinu frá einræðisherra í Tjetseníu.

Heimildir:

Why Are UFC Champions Hanging Out With An Accused Russian War Criminal?

How Violent Royal Families Buy Their Way Into The UFC

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular