Friday, June 14, 2024
spot_img
HomeForsíðaUFC Fight Night 29: Maia vs. Shields

UFC Fight Night 29: Maia vs. Shields

UFC_Fight_Night_29_Maia_vs._Shields_PosterUFC Fight Night 29 fer fram í kvöld. Kvöldið er kannski ekki það mest spennandi við fyrstu sýn en við nánari athugun ætti þetta að verða þrælskemmtilegt kvöld! Þarna eru margir mjög spennandi bardagamenn eins og Demian Maia, Erick Silva, Rousimar Palhares og Thiago Silva. Þess má til gamans geta að á aðalkortinu eru 4 bardagamenn sem hafa fallið á lyfjaprófi í UFC, en það eru þeir Jake Shields, Thiago Silva, Joey Beltran og Rousimar Palhares. Keppnin fer fram í Barueri í Brasilíu og er fyrsti bardagi kvöldsins kl 21:00.

Demian Maia (18-4) vs. Jake Shields (28-6-1 (1)) – veltivigt

Aðal bardagi kvöldsins er milli tveggja ADCC verðlaunahafa, Demian Maia og Jake Shields. Maia sigraði ADCC árið 2007 og var í 2. sæti árið 2005 auk þess að vera margfaldur heimsmeistari í BJJ. Jake Shields var í 3. sæti á ADCC árið 2005 auk þess að hafa verið All-American meistari í bandarísku háskólaglímunni 2 ár í röð. Báðir eru því margfaldir meistarar í glímuíþróttum og því ætti þetta að vera skemmtilegur bardaga fyrir glímuáhugamenn.

Demian Maia hefur heldur betur lífgað upp á ferilinn sinn í UFC eftir að hann færði sig niður í veltivigt. Hann hefur sigrað alla 3 bardaga sína í veltivigt afar sannfærandi og eru margir farnir að spá því að hann geti barist um titilinn í veltivigtinni bráðlega. Gengi Maia í millivigtinni var þó ekkert slor, þar sigraði hann 9 bardaga og tapaði 4 en eitt af þessum töpum var titilbardagi gegn Anderson Silva. Demian Maia tók tímabil þar sem hann einbeitti sér mikið af kickboxi og notaði það nánast eingöngu í bardögum við Chris Weidman og Mark Munoz. Eftir að hann færði sig niður í veltivigt hefur hann snúið sér að því sem hann gerir best, að taka menn niður og ná þeim í uppgjafartak. Hann hefur heldur betur fengið endurnýjun lífdaga og er nú með 3 sigra í röð á afar sterkum andstæðingum. Reyndar kom sigurinn á Dong Hyun Kim eftir að Kim meiddist eftir fellu frá Maia, en telst engu að síður sem sigur á pappírum.

Maia talaði um í viðtali nýlega að hann ætlaði sér bara að einbeita sér að glímunni í bardögum sínum. Ef hann væri tvítugur þá myndi hann jafnvel taka kickbox æfingabúðir í Hollandi en þar sem hann er orðinn 35 ára ætlar hann að halda áfram að beita glímutækninni mest, enda gerir hann það betur en nánast allir í veltivigtinni. Upphaflega átti Maia að mæta Josh Koscheck en Josh meiddist og tók Jake Shields því hans stað. Með sigri gæti Maia fengið titilbardaga gegn Georges St. Pierre en asni margir eru spenntir fyrir að sjá hvernig veltivigtarmeistarinn höndli “guardið” hjá Maia.

Jake Shields hefur að margra mati valdið vonbrigðum eftir að hann kom í UFC úr Strikeforce. Í Strikeforce var hann millivigtarmeistarinn og hafði sigrað 14 bardaga í röð. Fyrsti bardagi hans í UFC var sigur á Martin Kampmann en sigurinn þótti alls ekki sannfærandi. Þrátt fyrir það fékk Jake titilbardaga gegn Georges St. Pierre í kjölfarið. Jake tapaði titilbardaganum og var því næst rotaður af Jake Ellenberger á aðeins 50 sekúndum. Ekki beint draumabyrjun hjá fyrrum Strikeforce millivigtarmeistaranum og ekki skánaði ástandið er hann féll á lyfjaprófi eftir sigur á Ed Herman. Jake sigraði þó sinn síðasta bardaga gegn Tyron Woodley nokkuð óvænt og er þrátt fyrir allt með 3 sigra og 2 töp í UFC (sigurinn á Ed Herman var dæmdur ógildur þar sem hann féll á lyfjaprófi eftir bardagann). UFC hefur verið ófeimið við að láta menn með óspennandi stíl fara undanfarið eins og Okami og Jon Fitch og því gæti Jake Shields fengið sparkið ef hann tapar þessum bardaga.

Það verður að teljast ansi sérstakt að í aðalbardaga kvöldsins mætast bardagamenn þar sem annar gæti fengið titilbardaga með sigri á meðan hinn gæti verið rekinn úr UFC með tapi. Þrátt fyrir það verður þetta jafn bardagi milli tveggja frábærra glímumanna. Oft þegar 2 frábærir glímumenn mætast verður bardaginn stundum lélegur kickbox bardagi þar sem hvorugur hefur áhuga á að mæta hinum í gólfglímunni. Fyrir okkur áhorfendurnar þá vona ég að slíkt verði ekki á miðvikudagskvöldið.

Erick Silva (15-3 (1)) vs. Dong Hyun Kim (17-2-1 (1)) – veltivigt

Þetta er bardagi sem margir bardagaáhugamenn eru hvað spenntastir fyrir á þessu kvöldi. Erick Silva er gífurlega spennandi bardagamaður með mikinn sprengikraft og virkilega gott “striking”. Dong Hyun Kim er aftur á móti með afar kæfandi glímustíl sem erfitt er að sleppa undan. Þetta er klassískur “striker vs. grappler” bardagi.

Þó að margir flokki Erick Silva sem „striker” þá er hann engu að síður með svarta beltið í bæði júdó og BJJ. Erick er einn mest spennandi veltivigtarmaðurinn í UFC í dag. Eina tapið hans í UFC var mjög spennandi bardagi gegn Jon Fitch þar sem var nálægt því að klára Fitch. Fitch sigraði að lokum eftir dómaraákvörðun í frábærum bardaga sem sýndi að Erick gæti farið langt í UFC ef hann heldur áfram að bæta sig. Reyndar er Erick með annað tap á ferlinum í UFC en dómarinn Mario Yamasaki taldi að Erick hefði rotað Carlo Prater með því að slá í hnakkann, en slíkt er bannað í MMA. Endursýningar sýndu hins vegar að ákvörðun dómarans var fáranleg þar sem aðeins eitt högg fór í hnakkann á Prater. Flestir MMA aðdáendur eru sammála um að þetta ætti ekki að flokkast sem tap. Silva sigraði síðast Jason High með „reverse triangle armbar ” eftir rúmlega mínútu í 1. lotu og hefur nú klárað 4 af 5 UFC bardögum sínum.

Dong Hyun Kim kom inn í UFC með hvelli er hann sigraði Jason Tan með tæknilegu rothöggi. Síðan þá hafa allir sigrar hans komið eftir dómaraákvörðun og kæfandi glímustíll hans ekki hrifið alla. Kim er virkilega góður glímumaður og er einnig með mjög gott judó. Samkvæmt UFC síðunni var Kim í júdó háskóla áður en hann varð atvinnumaður í MMA. Hann er með gríðarlega góða felluvörn og hefur varist 81% fellna andstæðinga sinna. Kim sigraði síðast Siyar Bahadurzada eftir dómaraákvörðun þar sem hann gjörsamlega lék sér að Siyar á gólfinu. Þrátt fyrir að halda “mount” stöðu á Siyar í nánast heila lotu náði hann ekki að klára andstæðing sinn þrátt fyrir alla sína yfirburði.

Allir bardagar Erick Silva í UFC hafa verið virkilega skemmtilegir hingað til og vonandi verður þessi bardagi ekki undantekning á því. Erick Silva hefur byrjað alla bardaga sína frábærlega og því á Dong-Hyun Kim meiri möguleika á sigri eftir því sem líður lengra á bardagann.

Thiago Silva (15-3 (2)) vs. Matt Hamill (11-4) – léttþungavigt

Bardagi milli tveggja bardagamanna sem virðast vera á niðurleið á sínum ferli.

Thiago Silva má teljast heppinn að halda starfi sínu í UFC eftir að hafa tvisvar fallið á lyfjaprófi á tveimur árum. Hann rotaði síðast Rafael Cavalcante í júní á þessu ári og var það fyrsti sigur hans síðan 2009. Síðan þá hefur hann reyndar sigrað Brandon Vera og Stanislav Nedkov en báðir sigrarnir voru dæmdir ógildir eftir að hann féll á lyfjaprófum. Thiago ólst upp í mikilli fátækt á sínum yngri árum og þurfti oft að velja milli þess að geta borgað æfingargjöld eða keypt mat. Hann er svart belti í BJJ en snéri sér að MMA til að geta skapað sér betra líf. Thiago náði ekki vigt (var 208 pund) og mun því missa 25% af launum sínum fyrir þennan bardaga.

Matt Hammill hætti í MMA í kjölfarið á tapi gegn Alexander Gustafsson í ágúst 2011. Þessi heyrnarlausi glímumaður snéri þó aftur í MMA (án þess að nokkur maður hafi saknað hans í UFC..) í september 2012 er hann sigraði Roger Hollett í drepleiðinlegum bardaga. Hann fær nú annað tækifæri til að sýna að hann eigi að halda áfram í MMA.

Fabio Maldonado (19-6) vs. Joey Beltran (14-8 (1)) – létt þungavigt

Þessi bardagi gæti orðið algjört “slugfest”! Báðir bardagamenn eru þekktir fyrir að sveifla leðri og gefast ekki upp þrátt fyrir að vera nánast rotaðir. Þeir eru þó ekkert hæfileikaríkustu bardagamennirnir en yfirleitt eru bardagar þeirra góð skemmtun.

Fabio hefur unnið 3 bardaga og tapað þremur í UFC. Hann er líklegast öruggur um starf í UFC þó hann tapi þessum bardaga þar sem bardagar hans eru yfirleitt góð skemmtun auk þess sem hann tók bardaga gegn Glover Teixeira með stuttum fyrirvara.

Jeoy Beltran þarf aftur á móti sigur ef hann vill halda áfram að berjast í UFC. Hann hefur ekki unnið UFC bardaga síðan 2011 en sigraði reyndar Igor Pokrajac en féll svo á lyfjaprófi og því var sigurinn dæmdur ógildur. Ef hann tapar þessum bardaga fær hann nánast örugglega sparkið úr UFC nema bardaginn verði besti bardagi ársins.

Rousimar Palhares (14-5) vs. Mike Pierce (17-5) – veltivigt

Þessi bardagi er mjög áhugaverður! Palhares berst nú í fyrsta sinn í veltivigt eftir 2 töp í röð í millivigtinni. Tölfræðin sýnir að það að færa sig um þyngdarflokk hefur ekki reynst skipta miklu máli fyrir feril bardagamanna í flestum tilvikum en það verður áhugavert að sjá hvernig Palhares höndlar breytinguna. Palhares er fótalása sérfræðingur og hefur unnið 4 bardaga í UFC á fótalásum. Hægt er að lesa meira um Palhares hér: https://mmafrettir.is/rousimar-palhares-threytir-frumraun-sina-i-veltivigt-i-kvold/

Mike Pierce er einn vanmetnasti bardagamaðurinn í UFC. Hann er með 10 sigra og aðeins 3 töp í UFC. Þessi töp komu allt gegn mönnum sem hafa barist um titilinn eins og Jon Fitch, Johny Hendricks og Josh Koscheck. Þrátt fyrir 4 sigra í röð fær hann lítið umtal en það gæti breyst sigri hann Palhares sannfærandi.

Raphael Assunção (20-4) vs. T.J. Dillashaw (8-1) – bantamvigt

Þetta er enn einn spennandi bardaginn á þessu kvöldi! Að mínu mati ætti þessi bardagi að vera mun ofar í röðinni á þessu kvöldi þar sem sigurvegarinn hér verður kominn ansi nálægt því að fá titilbardaga.

Síðan Raphael færði sig niður í bantamvigt úr fjaðurvigt hefur hann verið óstöðvandi og sigrað alla bardaga sína sannfærandi. Hann er með gott BJJ en hefur nýlega stórbætt sig í Muay Thai. Það er augljóst að bantamvigt hentar honum mun betur en hann hefur litið frábærlega í öllum bardögum sínum þar.

T.J. Dillashaw er einn af fjölmörgum frábærum bardagamönnum frá Team Alpha Male. Team Alpha Male hefur ekki tapað bardaga í UFC síðan Duane Ludwig varð yfirþjálfari þar. Dillashaw kom í UFC í gegnum TUF þar sem hann tapaði úrslitabardaganum gegn John Dodson. Dillashaw hefur verið mjög stutt í MMA en hann tók sína fyrstu bardaga árið 2010. Hann átti þó ágætis gengi að fagna í bandarísku háskólaglímunni. Í TUF var hann bara enn einn glímumaðurinn sem kunni smá að boxa en hann hefur stórbætt sig síðan hann tapaði úrslitabardagnum í TUF. Tapið í úrslitunum kveikti neista sem er orðinn að báli í Dillashaw. Hann hefur einnig sigrað 4 bardaga í röð í bantamvigtinni en þetta stefnir í gríðarlega jafnan og spennandi bardaga.

Aðrir bardagar kvöldsins eru:

Ildemar Alcantara vs. Igor Araujo – veltivigt

Yan Cabral vs. David Mitchell – veltivigt

Iliarde Santos vs. Chris Cariaso – fluguvigt

Allan Patrick vs. Garett Whiteley – léttvigt

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular