Gunnar Nelson kláraði Alan Jouban eftir 46 sekúndur í 2. lotu í London. Frábær sigur hjá Gunnari!
Gunnar byrjaði strax að stjórna miðju búrsins og lét Jouban bakka allan tímann. Gunnar fékk nokkur lágspörk í sig en var nálægt því að grípa tvö þeirra. Gunnar sótti í fellu upp við búrið en Jouban varðist vel.
Gunnar náði honum svo niður í annarri tilraun og komst fljótt í „side control“. Jouban reyndi að hreyfa sig en Gunnar komst svo í „mount“ en náði ekki mörgum olnbogum inn. Gunnar hótaði „arm-triangle“ um tíma en brúnbeltingurinn Jouban fór mjög varlega og varðist vel. Jouban ætlaði greinilega ekki að gefa á sér bakið og kláraði Gunnar lotuna ofan á í „mount“. Gunnar náði tveimur olnbogum í Jouban í lok lotunnar en náði annars ekki að meiða mikið.
Í 2. lotu hélt Gunnar pressunni áfram og smellhitti með svakalegri beinni hægri snemma í lotunni sem vankaði Jouban verulega. Gunnar fylgdi því eftir með hásparki, dróg svo Jouban niður og kláraði hann með „guillotine“ eftir 46 sekúndur í 2. lotu. Mögnuð frammistaða hjá okkar manni!