Gunnar Nelson kláraði Albert Tumenov með „rear naked choke“ í 2. lotu. Frábær sigur hjá okkar manni!
Gunnar var hreyfanlegur standandi frá upphafi bardagans og leyfði Tumenov ekki að króa sig af við búrið. Um miðja 1. lotu náði Gunnar góðri fellu og komst fljótt í „mount“. Hann lét nokkra vel valda olnboga dynja á Tumenov sem reyndi að sleppa. Gunnar sat þungur ofan á honum þar til um 45 sekúndur voru eftir af lotunni og byrjaði þá að nota höggin meira. Við það gat Tumenov loksins sprengt sig út (eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir) og stóðu þeir upp eftir það.
Í 2. lotu skiptust þeir á höggum þar til Gunnar náði aftur fellu. Í þetta sinn dvaldi hann í „side control“ um skamma stund áður en hann fór leiftursnöggt yfir í „mount“. Frábær tækni!
Nú var Tumenov ekkert að fara að sleppa. Tumenov reyndi aftur að sprengja sig lausan en Gunnar var tilbúinn og tók bakið – frábær gagnárás. Marga grunaði að þetta væri upphafið að endinum og reyndist það vera svo. Gunnar læsti hengingunni og kláraði hann af bakinu eins og honum einum er lagið!
Gunnar sigrar eftir „rear naked choke“ eftir 3:15 í 2. lotu.
Þetta var fimmti sigur Gunnars í UFC eftir hengingu og sá sjötti í UFC. Hann er því 6-2 í veltivigt UFC og er hvergi af baki dottinn þrátt fyrir ummæli margra erlendra sérfræðinga.
Í viðtalinu eftir bardagann tileinkaði Gunnar mömmu sinni sigurinn enda er mæðradagur í dag.