UFC bardagasamtökin hafa verið iðin við að setja saman bardaga á dögunum og förum við hér yfir það helsta. Þó nokkrir bardagar hafa verið staðfestir á bardagakvöld í Oklahoma og á Nýja-Sjálandi.
UFC heldur bardagakvöld í Oklahoma þann 25. júní. UFC hefur ekki staðfest aðalbardaga kvöldsins en hefur þegar staðfest sex bardaga á kvöldið.
Gamla brýnið B.J. Penn ætlar enn einu sinni að reyna að rifja upp gamla takta en hann mætir Dennis Siver í fjaðurvigt. Bardaga Penn og Siver var tvisvar frestað í fyrra áður en hann var sleginn af borðinu en þetta er bardagi sem Penn getur unnið annað en viðureign hans gegn Yair Rodriguez.
Johny Hendricks átti góða frumraun í millivigtinni á dögunum þegar hann sigraði Hector Lombard. Hann mætir nú Tim Boetsch en Boetsch er afar líkamlega sterkur og barðist áður í léttþungavigt. Það verður áhugavert að sjá hvernig fyrrum veltivigtarmanninum Hendricks vegnar gegn Boetsch á heimavelli í Oklahoma.
Fyrsti strávigtarmeistarinn í sögu UFC, Carla Esparza, mætir Maryna Moroz en Esparza tapaði síðast fyrir Röndu Markos í febrúar. Þetta verður ekki eini strávigtarbardagi kvöldsins en Felice Herrig mætir Justine Kish sama kvöld. Þá mun Svíinn Ilir Latifi mæta Antonio ‘Lil Nog’ Nogueira í léttþungavigt.
UFC er með bardagakvöld í Auckland í Nýja-Sjálandi þann 11. júní. Þetta er í annað sinn sem UFC heimsækir Nýja-Sjáland en UFC hélt bardagakvöld þar í júní 2014.
Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Mark Hunt og Derrick Lewis í þungavigt. Lewis hefur unnið sex bardaga í röð í þungavigt UFC en fær hér sinn erfiðasta andstæðing á ferlinum.
Derek Brunson og Dan Kelly mætast svo í millivigt. Báðir hafa þeir mætt gömlum goðsögnum með ólíkum niðurstöðum að undanförnu. Brunson tapaði fyrir Anderson Silva á UFC 208 eftir klofna dómaraákvörðun en ekki voru allir sammála úrslitum bardagans. Dan Kelly vann hins vegar Rashad Evans á UFC 209 fyrr í mánuðinum en Kelly er 6-1 í UFC.
Tveir áhugaverðir bardagar í fluguvigtinni fara fram í Nýja-Sjálandi. Joseph Benavidez mætir Ben Nguyen en Benavidez er í erfiðri stöðu sem sá næstbesti í fluguvigtinni en hann hefur tapað tvívegis fyrir meistaranum Demetrious Johnson. John Moraga mætir svo Ashkan Mokhtarian einnig í fluguvigt.