MMA aðdáendur hafa verið hálf þunglyndir undanfarið vegna frétta af lyfjanotkun Anderson Silva og Hector Lombard. Meiðsli Chris Weidman hafa stráð salti í sárin og því er ánægjulegt að fá jákvæðar fréttir en í vikunni voru tilkynntir þrír mjög spennandi bardagar.
Við erum ekki að tala um Li Jingliang gegn Roger Zapata heldur eru þetta allt spennandi bardagar með stórum nöfnum.
Ronaldo Souza gegn Yoel Romero
Ronaldo ‘Jacare’ Souza og Yoel Romero áttu upphaflega að berjast á UFC 184 kvöldinu en það varð að aflýsa bardaganum þegar sá fyrrnefndi fékk skyndilega lungnabólgu. Þetta er mjög spennandi bardagi með ólíkum stílum. Yoel Romero er einn besti ólympíski glímukappinn í UFC og Ronaldo ‘Jacare’ Souza er einn sá besti í jiu-jitsu.
Frankie Edgar gegn Urijah Faber
Þann 16. maí mætast svo tveir fyrrverandi meistarar úr léttari flokkunum. Þetta er bardagi sem margir hafa beðið lengi eftir að sjá. Báðir þessir kappar virðast sigra alla nema ríkjandi meistara en nú verður eitthvað að gefa eftir. Það er sérstaklega ánægjulegt að þetta verður fimm lotu bardagi enda aðalbardagi kvöldins. Bardaginn fer fram í fjaðurvigt en undanfarið hefur Urijah Faber barist í bantamvigt og mun því þyngja sig upp um einn þyngdarflokk. Bardaginn fer fram í Filippseyjum á fyrsta UFC bardagakvöldinu sem þar verður haldið.
Ryan Bader gegn Daniel Cormier
Eftir tap Alexander Gustafsson gegn Anthony Johnson bjuggust margir við að Daniel Cormier yrði næsti andstæðingur Svíans. Það verður hins vegar ekki niðurstaðan þar sem Ryan Bader verður næstur í röðinni fyrir Daniel Cormier þann 6. júní. Bardaginn verður aðalbardagi kvöldsins. Daniel Cormier er líklegri til að vinna bardagann en stílar þessa tveggja mann er ekki svo ósvipaður svo það verður áhugavert að sjá hvað gerist.