spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUpphitun fyrir bardaga Gunnars og Santiago Ponzinibbio

Upphitun fyrir bardaga Gunnars og Santiago Ponzinibbio

Gunnar Nelson mætir Santiago Ponzinibbio á UFC bardagakvöldinu í Glasgow í kvöld. Þetta er aðalbardagi kvöldsins en hér förum við ítarlega yfir bardagamennina tvo.

Santiago Ponzinibbio

Santiago Ponzinibbio (24-3)

Santiago Ponzinibbio er þrítugur Argentínumaður með ágætlega mikla reynslu. Hann er með sex sigra og tvö töp í UFC en hefur unnið fjóra bardaga í röð og hefur aldrei verið betri. Ponzinibbio kom inn í UFC eftir 2. seríu TUF Brazil. Þar komst hann alla leið í úrslit en gat ekki keppt í úrslitunum þar sem hann braut á sér höndina í undanúrslitunum. Í þáttunum sýndi hann mikið hjarta og sigurvilja og gafst ekki upp þrátt fyrir erfiðleika. Hann skipar nú 14. sæti styrkleikalista UFC í veltivigtinni og er staðráðinn í að komast ofar.

Ponzinibbio byrjaði að æfa og berjast í Argentínu en sá fljótt að hann þyrfti að fara annað til að fá komast lengra. Hann flutti því til Brasilíu með ekkert plan og þekkti engan. Hann lét það ganga og seldi samlokur á ströndinni til að afla tekna á meðan hann æfði. Hann barðist 12 bardaga í Brasilíu áður en hann komst í UFC en Argentínumenn eru ekki beint vinsælir í Brasilíu. Það var alltaf baulað á hann er hann barðist í Brasilíu en hann lét það ekki hafa mikil áhrif á sig. Við erum því ekki að fara að sjá tár á hvarmi þó baulað verði á hann í Glasgow í kvöld.

Ponzinibbio er sterkastur standandi en er engu að síður svart belti í brasilísku jiu-jitsu. Hann hefur bætt felluvörnina sína gríðarlega á undanförnum árum og mun reyna á hana í kvöld. Í hans fyrsta bardaga í UFC var hann nokkrum sinnum tekinn niður af Ryan LaFlare. Ponzinibbio eyddi dágóðum tíma undir LaFlare og tapaði eftir dómaraákvörðun. Síðan þá hefur enginn getað tekið hann niður og stjórnað honum í gólfinu. Court McGee og Zak Cummings eru báðir sterkir glímumenn en þeir gátu ekki tekið Ponzinibbio niður og haldið honum þar.

Standandi er Ponzinibbio með frekar venjulegar fléttur en góða pressu. Hann pressar andstæðinginn til baka með góðri stungu en þegar andstæðingurinn er kominn nálægt búrinu, fyrir aftan svörtu línuna í búrinu, raðar hann inn fléttunum.

Umtalaðar svörtu línurnar í búrinu.

Þegar andstæðingurinn er kominn fyrir aftan svörtu línurnar er hann með talsvert minna pláss til að hreyfa sig og bakka. Það gæti verið sérstaklega hættulegur staður fyrir Gunnar enda treystir hann á góða fótavinnu, inn og út, sem vörn gegn höggum í stað þess að vera með hendurnar hátt uppi.

Þessi pressa gæti valdið Gunnari vandræðum en Ponzinibbio þarf líka að vera þolinmóður og taka sér sinn tíma. Þetta er fimm lotu bardagi og gæti hann viljað saxa Gunnar niður hægt og rólega.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga fyrir bardagann

Mörg högg á mínútu: Santiago Ponzinibbio lendir 4,08 höggum á mínútu að meðaltali. Það er tvöfalt meira en Gunnar gerir og gæti það skorað fyrir hann lotur ef bardaginn helst standandi og fer allar fimm loturnar.

American Top Team: Hjá American Top Team æfa margir af færustu bardagamönnum heims og eru þjálfararnir þar afar reynslumiklir og þekkja sitt fag vel. Þeir hafa skoðað vel hvers konar bardagamaður Gunnar er og vita hvers konar fellur hann notar. Þeir hafa væntanlega farið vel yfir það með Ponzinibbio. Þjálfarinn Mike Brown og aðrir þjálfarar telja sig sjá marga veikleika hjá Gunnari. Hafa þessir reynslumiklu menn rétt fyrir sér?

Aldrei verið kláraður með uppgjafartaki: Santiago Ponzinibbio er seigur í gólfinu og hefur aldrei tapað eftir uppgjafartak í MMA.

12 rothögg: Ponzinibbio er með 12 sigra eftir rothögg. Hann er mjög höggþungur og getur hann alltaf hitt í hökuna á Gunnari. Ponzinibbio er til í að skiptast á höggum við andstæðinginn og tilbúinn að taka eitt högg til að gefa tvö. Það viljum við ekki sjá hjá Gunnari.

Leið til sigurs: Ponzinibbio þarf fyrst og fremst að halda bardaganum standandi og ef hann er tekinn niður að koma sér strax aftur upp. Standandi þarf hann að vera þolinmóður en ekki leyfa Gunnari að stjórna ferðinni og hraðanum í bardaganum. Eins og við höfum áður talað um er Gunnar lítið í að verjast lágspörkum og gæti það verið góð leið fyrir Ponzinibbio til að hægja á Gunnari. Þegar Gunnar verður hægari verður talsvert auðveldara fyrir Ponzinibbio að loka fjarlægðinni með pressu og raða inn höggum – annað hvort til að skora stig eða til að rota Gunnar.

Gunnar Nelson
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Gunnar Nelson (16-2-1)

Gunnar Nelson hefur unnið tvo bardaga í röð afar sannfærandi eftir tapið gegn Demian Maia. Gunnar er 7-2 í UFC en sex af þeim sigrum hafa komið eftir uppgjafartök. Það fer ekki á milli mála að Gunnar er gríðarlega sterkur í gólfinu en í síðustu tveimur bardögum sínum hefur hann litið afar vel út standandi.

Gunnar er afar vinsæll bardagamaður og fékk frábærar móttökur í vigtuninni í gær. Áhorfendur verða á hans bandi og er Gunnar sigurstranglegri hjá veðbönkum. Takist Gunnari að sigra í kvöld gæti hann fengið stóran bardaga næst.

Í undanförnum bardögum hefur Gunnar náð flestum af þeim fellum sem hann hefur reynt að ná. Gegn Ponzinibbio þarf hann sennilega að flétta fellunum saman (e. chain wrestling), þ.e. að skipta úr einni fellu og yfir í aðra. Eins og áður hefur komið fram er Ponzinibbio með mjög góða felluvörn og er góður að standa upp um leið og mjaðmirnar hans snerta gólfið. Þá er hann afar góður að standa upp þegar hann er nálægt búrinu og væri sennilega betra fyrir Gunnar að ná fellunum út á miðju gólfi.

Gunnar er líka mjög góður að ná fellum með skrokklás (e. bodylock) í clinchinu en þjálfarar Ponzinibbio eru sennilega vel undirbúnir fyrir það. Ponzinibbio gætti átt erfitt með að verjast fellunum ef Gunnar heldur fellunum fjölbreyttum og felur þær vel með höggum.

Standandi er Gunnar hárnákvæmur en um 56% högga hans eru að hitta. Það er ein hæsta prósentan í UFC en á móti kemur er Gunnar með fá högg á mínútu. Þessi leiftursnöggu og nákvæmu högga hafa verið að virka gríðarlega vel í síðustu bardögum og kemur hraði högganna andstæðingunum oft í opna skjöldu. Hann á þó alltaf hættu á að tapa lotum ef bardaginn helst standandi þar sem andstæðingarnir gera oft meira en Gunnar þó höggin hans Gunnars geri oft meiri skaða.

Þegar Gunnar er ferskur og hraður er hann afar erfiður viðureignar. Ef bardaginn dregst á langinn (eins og gegn Rick Story) verður hann opnari fyrir höggum þegar fótavinnan og hraðinn er minni. Við vitum þó að Gunnar er allt annar bardagamaður í dag en hann var gegn Rick Story og er þol Gunnars talsvert betra en það var þá.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga fyrir bardagann:

Munur á að vera svart belti og heimsklassa svart belti: Þó Ponzinibbio sé svart belti í brasilísku jiu-jitsu er Gunnar talsvert betri í gólfinu. Ponzinibbio gæti samt varist mjög vel á gólfinu og ekki gengið í gildrurnar sem Gunnar setur upp.

Ekki bakka í beinni línu: Það sem Gunnar þarf einnig að passsa sig á er að bakka ekki í beinni línu þegar Ponzinibbio pressar fram. Ef hann gerir það mun hann enda upp við búrið þar sem Ponzinibbio er hættulegastur. Gunnar má ekki leyfa Ponzinibbio að króa sig af.

Gunnar hefur aldrei verið jafn góður: Gunnar heldur áfram að bæta sig og er alltaf að verða betri og betri. Hann hefur sagt að hann sé núna útsjónarsamari í búrinu og er þegar kominn með helling reynslu á stóra sviðinu. Er hann að fara alla leið?

Frábær undirbúningur ekki alltaf nóg: Alan Jouban undirbjó sig eins og hann best gat og átti frábærar og vel skipulagðar æfingabúðir með frábærum þjálfurum. Það reyndist hins vegar ekki vera nóg þegar á hólminn var komið.

Hvað er plan B? Það verður áhugavert að sjá hvað Gunnar gerir ef honum tekst ekki að ná Ponzinibbio niður eða slá hann niður. Hvernig mun hann aðlagast í bardaganum ef planið er ekki að ganga upp?

Leið til sigurs: Gunnar er betri í gólfinu og þar getur hann unnið nánast alla. Hann hefur undanfarið sýnt höggþunga sinn og er hann nú farinn að kýla menn niður áður en hann klárar þá þar. Hvort sem hann kýlir Ponzinibbio niður eða nær honum niður með fellu verður gólfið alltaf líklegur áfangastaður ef Gunnar á að sigra.

Spá: Gunnar heldur áfram að bæta sig og heldur áfram að kýla andstæðingana niður. Gunnar á eftir að eiga í erfiðleikum með að ná Ponzinibbio niður en nær svo að kýla hann niður snemma í 3. lotu. Þar tekur hann sér sinn tíma og klárar með klassísku „rear naked choke“.

Bardaginn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldins hefst kl 19 á íslenskum tíma.

Aðalhluti bardagakvöldsins hefst svo kl 19 en Gunnar Nelson er í síðasta bardaga kvöldsins og ætti því að byrja milli 21 og 21:30. Það fer eftir því hversu snemma bardagarnir á undan klárast en UFC reiknar yfirleitt með um það bil 30 mínútum í hvern bardaga.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular