spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUSADA er að missa trúverðugleika sinn

USADA er að missa trúverðugleika sinn

USADA sér um lyfjamál UFC og hefur gert í nokkur ár. USADA á að vera óháður aðili og gæta gagnsæis en nokkur atvik á þessu ári gera það að verkum að nokkrar spurningar hafa vaknað um starfsemi þeirra.

UFC ákvað skyndilega að færa UFC 232 bardagakvöldið frá Las Vegas til Los Angeles með sex daga fyrirvara. Óvenjulegar niðurstöður úr lyfjaprófi Jon Jones settu strik í reikninginn og er breytingin einungis gerð svo Jon Jones geti barist. UFC er ekkert að hugsa um aðdáendur sína sem ferðast langar leiðir til að mæta á bardagakvöldið eða alla hina bardagamennina sem eiga að berjast á laugardaginn.

Lyfjapróf sem Jon Jones tók í byrjun desemeber sýndi óvenjulegar niðurstöður. Anabólíski sterinn turinabol fannst í lyfjaprófinu en það er sama efni og fannst í lyfjaprófinu í júlí 2017 þegar Jon Jones féll. UFC og Jeff Novitzky (yfirmaður heilsu- og lyfjamála UFC) gáfu það út að magnið sem fannst hafi verið svo lítið að Jones gæti barist. Nevada hafði bara ekki nægan tíma til að rannsaka og því var bardagakvöldið fært frá Las Vegas til Kaliforníu þar sem íþróttasambandið þar hafði verið með mál Jones á sínu borði frá því í júlí 2017.

Þessar fréttir fóru eðlilega ekki vel í MMA aðdáendur og vakna upp spurningar um USADA prógrammið. USADA og UFC hafa verið í samstarfi frá því í júlí 2015 en USADA sér um öll lyfjamál UFC. USADA safnar saman sýnum, sendir í rannsókn og tekur ákvarðanir á hvernig skal refsa einstaklingum ef þeir falla á lyfjaprófi.

Í upphafi samstarfsins vöknuðu spurningar um hvort USADA myndi hafa fullt vald til að taka stórar ákvarðanir og hvort 100% gagnsæis myndi gæta. Þeim spurningum var auðveldlega svarað þegar Jon Jones féll á lyfjaprófi örfáum dögum fyrir risabardaga sinn gegn Daniel Cormier á UFC 200. Jones átti að vera í aðalbardaga kvöldsins gegn Daniel Cormier á stærsta bardagakvöldi ársins en þar sem Jones féll á lyfjaprófi var hætt við bardagann. Risastór ákvörðun sem kostaði UFC milljónir dollara en sýndi að prógrammið virkaði.

Á þessu ári hefur USADA hins vegar misst ákveðinn trúverðugleika og sérstaklega á síðustu dögum. Það eiga margir erfitt með að trúa því að Jones hafi verið svo óheppinn að taka einhvern stera í júlí 2017 og í desember 2018 sé sterinn bara ennþá í kerfi Jon Jones.

Í lyfjaprófinu í júlí 2017 var magnið af turinabol ekki mikið. Samkvæmt skýrslu málsins var efnið á milli 20 og 80 píkógrömm (pg/ml). Í lyfjaprófinu núna í desember var turinabol magnið 60 pg/ml. Virðist vera svipað magn núna og í júlí 2017 en ef magnið er svona svipað, af hverju átti Jones að fá fjögurra ára bann síðast en fær að keppa núna um helgina?

Þetta 15 mánaða bann sem Jones fékk í haust vakti líka upp grunsemdir. Eins og áður hefur komið fram átti Jones að fá fjögurra ára bann þar sem þetta var hans annað brot á lyfjareglum USADA en slapp með aðeins 15 mánuði. Bannið var stytt þar sem Jones var samvinnufús og var tilbúinn að veita upplýsingar um aðra íþróttamenn sem væru mögulega að svindla. Þar fannst mörgum Jones vera að slepp full auðveldlega með skrekkinn, enn einu sinni. USADA fékk gerðardómstól til að kveða upp dóm sinn en USADA stimpillinn er á þessu öllu saman. Með þessum fregnum misstu margir bardagamenn trúna á USADA.

Svo á USADA líka eftir að gefa skýr svör fyrir því hvers vegna þetta magn fannst á lyfjaprófinu núna í desember en ekki á hinum 9 lyfjaprófunum sem Jones gekkst undir á þessu ári?

Fyrrum UFC bardagamaðurinn Tom Lawlor lét í sér heyra en hann fékk tveggja ára bann fyrir fall á lyfjaprófi árið 2016. Þar voru 17 pg/ml af ostarine í lyfjaprófi hans sem er minna magn en Jones var með núna. USADA sagði þá það sama og þeir hafa áður sagt að það sé „zero tolerance“ fyrir ýmis konar lyfjamisferli. En ef það er þessi „zero tolerance“ stefna, hvers vegna er Jon Jones að sleppa núna?

Frank Mir hafði líka ýmsar spurningar um þetta mál. Mir féll á lyfjaprófi 2016 fyrir turinabol en þá var það sagt vera „nokkuð öruggt að efnið hafi verið innbyrt á síðust mánuðum“. Núna segist USADA ekki vita hvenær Jones á að hafa tekið turinabol.

Brock Lesnar hefur líka sett sinn svip á USADA. Þegar hann snéri aftur á UFC 200 fékk hann að sleppa við fjögurra mánaða tímabilið þar sem hann er undir eftirliti USADA eins og allir bardagamenn sem ætla að snúa aftur þurfa að gera. En þar sem hann skrifaði undir samning við UFC aðeins mánuði fyrir bardagakvöldið fékk hann þessa undanþágu. USADA veitti honum undanþágu líkt og um nýliða væri að ræða sem væri að stökkva inn með skömmum fyrirvara eins og margoft er gert. Lesnar féll svo auðvitað á lyfjaprófi og kom það í ljós eftir bardagann.

Gagnabanki USADA er aðgengilegur öllum og er hægt að sjá hve oft Jon Jones, Brock Lesnar, Gunnar Nelson og allir bardagamenn UFC hafa verið teknir í lyfjapróf af USADA. Í desember breyttist fjöldinn hjá Lesnar úr sex lyfjaprófum í fimm. Óvænt breyting og leit út fyrir að eitt lyfjapróf hefði einfaldlega horfið úr gagnabankanum. USADA sendi frá sér yfirlýsingu og sagði að aðeins væri um að ræða tæknilega örðugleika á heimasíðunni sem búið væri að laga núna. Yfir 2.400 lyfjapróf á árinu 2018 og Brock Lesnar er sá eini sem varð fyrir þessum tæknilega örðugleika á heimasíðunni.

Það gæti verið að útskýringar USADA séu góðar og gildar og allt sé á yfirborðinu eins og maður vonar. Ekki er ég einhver sérfræðingur í lyfjaprófum, lífefnafræði eða einhverju sem tengist sterum. Kannski fáum við að vita meira þegar á líður og fá svör við öllum okkar spurningum. En stóra málið er að margir bardagamenn og aðdáendur eru hægt og rólega að missa trúna á þessi USADA kerfi. Og það er eiginlega allt út af Jonathan Dwight Jones.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular