Vitor Belfort sigraði þriðja bardaga sinn í röð með haussparki um helgina og hefur nú sigrað fimm bardaga í röð í millivigtinni. Hann hefur litið hrikalega vel út í þessum bardögum og klárað þá alla í fyrstu lotu.
Svo virðist sem Belfort sé búinn að finna aftur kraftinn og hraðann sem einkenndi hann þegar hann steig fyrst fram á sjónarsviðið. Það er þó ekki hægt að segja að þessi hraði og kraftur sé einungis til kominn vegna góðrar þjálfunar þar sem Belfort hefur nú verið að taka stera löglega í nokkurn tíma.
Vitor Belfort er, ásamt mörgum eldri bardagamönnum, í Testasterone Replacement Therapy eða TRT. Belfort er með læknisvottorð upp á að testasterón magn hans sé of lágt og því fær hann að dæla í sig testasteróni til að ná upp sama magni og tvítugur karlmaður. Það gefur því góðri lukku að stýra að maður sem er 36 ára gamall og með mikla reynslu og þekkingu á íþróttinni fái allt í einu testósterón magn tvítugs íþróttamanns.
Ástæðan fyrir því að þessir bardagamenn þurfa TRT er að testasterón magn líkamans þeirra er of lágt. Það getur verið vegna vanvirkni í hormónakerfi líkamans. Sú vanvirkni í MMA köppum er í 99% tilvika tilkomin vegna misnotkunar á sterum en það er afar ólíklegt að íþróttamaður í fremstu röð sé allt í einu með vanvirkt hormónakerfi sem leiðir af sér minni testasterón framleiðslu. Til að taka þetta saman eru þetta íþróttamenn sem hafa verið að nota stera í gegnum sinn feril sem gerir það að verkum að líkaminn framleiðir minna testósterón sjálfur. Íþróttamennirnir fara til læknis sem sér að testasterón magn þeirra er óeðlilega lágt svo þeir fá TRT meðferð löglega – sem sagt löglegir sterar.
TRT er gríðarlega umdeilt í MMA enda er þetta klárlega að spila inn í hjá Belfort og fleirum. Gæti Belfort, 36 ára gamall, verið að rota menn með þessum ógnarhraða og krafti sem hann hefur sýnt undanfarið án TRT? Belfort hefur barist síðustu þrjá bardaga sína í Brasilíu og því alls óvíst hvort hann myndi fá leyfi frá t.d. NSAC (Nevada State Athletic Commission) ef hann myndi berjast í Las Vegas.
Belfort féll á lyfjaprófi árið 2006 eftir bardaga í Las Vegas. Yfirmaður NSAC, Keith Kizer, hefur sagt að Belfort myndi ekki fá leyfi til að berjast í Las Vegas út af orðspori sínu vegna steranotkunar. Ætlar UFC þá að halda honum í Brasilíu (þar sem hann er gríðarlega vinsæll) og leyfa honum að berjast þar á TRT? Það er ólíklegt að UFC vilji hafa meistara sem getur ekki barist í Las Vegas, mekku UFC þar sem höfuðstöðvar UFC eru.
Líklegast berst Belfort næst í titilbardaga í millivigt og verður gaman að sjá hvar sá bardagi mun vera háður. Þessari TRT vitleysu er hvergi nærri lokið en aðrir bardagamenn sem eru í TRT meðferð eru: Dan Henderson, Chael Sonnen, Frank Mir, Forrest Griffin og Todd Duffee svo dæmi séu tekin.
Sem aðdáandi þá er ekki leiðinlegt að sjá Belfort rota menn með þvílíkum krafti og hraða en það er ekki sanngjarnt að menn fái að taka stera inn löglega eftir að hafa misnotað þá áður.
Todd Duffe 27 ára gamall á TRT og miðað við hvernig hann er vaxin er hann ekki með lága testasterone framleiðslu nema útaf of miklum sterum.
Fáranlegt.