Friday, April 26, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu bardagarnir í nóvember 2020

10 áhugaverðustu bardagarnir í nóvember 2020

Október mánuður var frábær í MMA heiminum en nóvember er ekki alveg eins spennandi. Það eru nokkrir titilbardagar á dagskrá en við höfum séð það betra.

UFC er með bardagakvöld allar helgar í nóvember eins og vanalega og Bellator verður með þrjú bardagakvöld.

10. Darrion Caldwell gegn A.J. McKee (Bellator 253, 19. nóvember)

Fyrri undanúrslitabardaginn í fjaðurvigtarmóti Bellator. A.J. McKee hefur farið hamförum í Bellator en hann hefur tekið alla atvinnubardaga sína þar og unnið þá alla (16-0). Þessi 25 ára bardagamaður hefur verið stimplaður sem framtíðarstjarna og mun tryggja sér titilbardaga með sigri. Hann fær sitt erfiðasta próf til þessa þegar hann mætir fyrrum bantamvigtarmeistaranum Darrion Caldwell.

Spá: McKee vinnur eftir klofna dómaraákvörðun.

9. Mike Perry gegn Tim Means (UFC 255, 21. nóvember)

Hinn umdeildi Mike Perry átti upphaflega að mæta Robbie Lawler en sá síðarnefndi meiddist og getur því ekki barist. Í hans stað kemur Tim Means sem er sjaldan í leiðinlegum bardögum. Hérna verður leðri sveiflað og verður þetta eflaust skemmtilegur bardagi.

Spá: Mike Perry smellhittir í 1. lotu og rotar Means.

8. Ian Heinisch gegn Brendan Allen (UFC Fight Night: Santos vs. Teixeira, 7. nóvember)

Ian Heinisch hefur verið misjafn í UFC en hann verður í það minnsta stærsta prófið fyrir Brendan Allen til þessa. Allen er einn af þeim mest spennandi í millivigtinni þessa dagana. Hann er bara 24 ára gamall og hefur unnið alla þrjá bardaga sína í UFC eftir að hafa komið úr Contender Series.

Spá: Allen vinnur eftir dómaraákvörðun í einhliða bardaga.

7. Curtis Blaydes gegn Derrick Lewis (UFC Fight Night: Blaydes vs. Lewis, 28. nóvember)

Þessi er ekki endanlega staðfestur af UFC en verður að öllum líkindum aðalbardaginn þann 28. nóvember. Blaydes hefur unnið fjóra bardaga í röð enda virðist hann bara tapa fyrir Francis Ngannou. Honum hefur gengið vel undanfarin ár og verður þetta þriðji aðalbardagi hans í röð þrátt fyrir að hann sé ekki ofarlega á vinsældarlista Dana White. Lewis hefur unnið þrjá bardaga í röð og er alltaf vinsæll en hérna fær hann andstæðing sem er ekki að fara að standa lengi með honum.

Spá: Blaydes notar fellurnar til að stjórna Derrick Lewis. Blaydes vinnur eftir dómaraákvörðun.

6. Brandon Moreno gegn Brandon Royval (UFC 255, 21. nóvember)

Fluguvigtin er galopin með nýjum meistara og þessi gæti orðið virkilega skemmtilegur. Moreno er hrikalega skemmtilegur og verið með þeim betri í fluguvigtinni síðustu ár. Royval hefur komið mjög sterkur inn á þessu ári og klárað tvo sterka keppendur (Tim Elliot og Kai Kara-France) nokkuð óvænt. Sigurvegarinn hér verður kominn í kjörstöðu í fluguvigtinni.

Spá: Royval hefur komið virkilega á óvart með sterkri innkomu. Hann heldur því áfram með því að klára Moreno með uppgjafartaki í 2. lotu.

5. Patricio Freire gegn Pedro Carvalho (Bellator 252, 12. nóvember)

Beðið hefur verið eftir þessum bardaga lengi. Þetta er bardagi í 8-manna úrslitum í fjaðurvigtarmóti Bellator en þar sem Freire er ríkjandi meistari verður beltið undir. Íslandsvinurinn Pedro Carvalho hefur unnið alla fjóra bardaga sína í Bellator og fær hér risa tækifæri. Með sigri kemst hann í undanúrslit fjaðurvigtarmótsins og tekur um leið titilinn af Freire.

Spá: Freire reynist of sterkur og sigrar Pedro með uppgjafartaki í 3. lotu.

4. Islam Makhachev gegn Rafael dos Anjos (UFC Fight Night: Makhachev vs. dos Anjos, 14. nóvember)

Þessi bardagi átti auðvitað að vera á UFC 254 núna í september en bardaganum var frestað þar sem dos Anjos fékk Covid. Í staðinn verður þetta aðalbardaginn sem þýðir fimm lotur. Það mun reyna vel á Makhachev gegn reynslubolta eins og dos Anjos. Makhachev hefur unnið sex bardaga í röð og verður þetta hans stærsti bardagi til þessa. Dos Anjos er orðinn 36 ára gamall og hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum.

Spá: Makachev stjórnar RDA með fellum og vinnur eftir dómaraákvörðun.

3. Valentina Shevchenko gegn Jennifer Maia (UFC 255, 21. nóvember)

Þetta er titilbardagi í fluguvigt kvenna en þar er Shevchenko mörgum skrefum framar en samkeppnin. Jennifer Maia er 3-2 á ferli sínum í UFC og hefur mistekist að ná vigt tvisvar. Maia laumaði sér í titilbardaga með sigri á Joanne Calderwood en sú síðarnefnda hafði þegar tryggt sér titilbardaga.

Spá: Shevchenko er sú laaaangbesta í flokknum og er miklu betri en Maia. Shevchenko sigrar eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu.

2. Thiago Santos gegn Glover Teixeira (UFC Fight Night: Santos vs. Teixeira, 7. nóvember)

Þessi er nokkuð mikilvægur í léttþungavigtinni en staðan er reyndar orðin önnur eftir að Israel Adesanya fékk titilbardagann. Sigurvegarinn hér ætti að fá næsta titilbardaga en biðin gæti orðið lengri en eðlilegt þykir. Þessi bardagi átti upphaflega að vera á dagskrá í september og síðan október en bardaginn hefur frestast tvisvar þar sem báðir fengu kórónaveiruna.

Spá: Thiago Santos kemur með góða endurkomu og klárar þann gamla með rothöggi í 1. lotu.

1. Deiveson Figueiredo gegn Alex Perez (UFC 255, 21. nóvember)

Þetta er titilbardagi í fluguvigt karla en áskorandinn hér á raunverulegan séns á sigri. Upphaflega átti Cody Garbrandt að mæta Figueiredo en eftir að hann meiddist kom Perez í hans stað. Perez hefur litið mjög vel út í síðustu þremur bardögum sínum og gæti vel strítt meistaranum Figueiredo. Meistarinn var ekki í neinum vandræðum með Joseph Benavidez (tvisvar) og fær nú ferskan áskoranda sem er hungraður.

Spá: Þetta verður hörku bardagi en Figueiredo nær að sigra eftir dómaraákvörðun.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular