spot_img
Sunday, November 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2018

Eftir mjög rólegan mars mánuð færist hiti í leikinn í apríl. Það verður allt gjörsamlega vitlaust en fyrir utan þá tíu sem eru taldir upp hér er heill hellingur af góðu efni sem ekki komst á listann.

10. UFC 223, 7. apríl – Ray Borg gegn Brandon Moreno (fluguvigt)

Hér er á ferðinni þrælspennandi bardagi á milli tveggja ungra graðfola í fluguvigt. Báðir þessir kappar eiga framtíðina fyrir sér en báðir töpuðu sínum síðasta bardaga og annar mun þurfa að sætta sig við bakslag í apríl. Moreno hefur verið vanmetinn nokkrum sinnum og komið á óvart. Verður það nóg til að verjast sterkum glímustíl Borg?

Spá: Nei, Borg sigrar á stigum.

9. UFC Fight Night 128, 21. apríl – Aljamain Sterling gegn Brett Johns (bantamvigt)

Brett Johns er að verða einn mest spennandi nýliðinn í UFC. Hann er ósigraður í 15 bardögum og hefur unnið fyrstu þrjá bardaga hans í UFC með glæsibrag. Nú fær hann hins vegar mjög erfitt verkefni gegn lærisveini Matt Serra og Ray Longo, Aljamain Sterling.

Spá: Þetta verður spennandi en það verður Sterling sem sigrar þennan á stigum.

 

8. Bellator 198, 28. apríl – Fedor Emelianenko gegn Frank Mir (þungavigt)

Þessar kempur þarf varla að kynna en þeir hafa aldrei áður mæst í búrinu. Báðir eru fyrir löngu komnir yfir sitt besta svo það er ómöglegt að vita hvað þeir eiga eftir. Mir er þó „aðeins“ 38 ára gamall en hann hefur ekki barist í tvö ár á meðan Fedor er 41 árs. Emelianenko barðist síðasta sumar en var þá rotaður af Matt Mitrione.

Spá: Mir tekur Rússann í gólfið og klárar með uppgjafartaki í fyrstu lotu.


7. UFC on Fox 29, 14. apríl – Carlos Condit gegn Matt Brown (veltivigt)

Hér mætast tvær goðsagnir í skemmtilegum bardaga sem þó mun ekki hafa of mikla þýðingu í þyngdarflokknum. Báðir þessir kappar eru stríðsmenn sem gefa ekki tommu eftir svo útkoman ætti að verða hin besta skemmtun.

Spá: Condit sigrar á stigum.


6. UFC 223, 7. apríl – Michael Chiesa gegn Anthony Pettis (léttvigt)

Um þrjú ár eru síðan Anthony Pettis tapaði titilinum fyrir Rafael dos Anjos og síðan þá hefur allt gengið meira og minna á afturfótunum. Ferill Michael Chiesa hefur gengið nokkuð betur undanfarið en bakslögin hafa verðið minni, eins og tap gegn Joe Lauzon vegna skurðar og umdeilt tap gegn Kevin Lee þar sem dómarinn var of fljótur á sér. Nú er að duga eða drepast fyrir Pettis en á sama tíma er þetta gott tækifæri fyrir Chiesa að næla sér í stórt höfuðleður.

Spá: Chiesa verður sterkari í glímunni og sigrar að lokum á stigum.

5. UFC 223, 7. apríl – Al Iaquinta gegn Paul Felder (léttvigt)

Það er adar ánægjulegt að fá Al Iaquinta aftur í búrið en vonandi verður það reglulegur viðburður næstu misserin. Um ár er síðan Iaquinta rotaði Diego Sanchez svo spurning er hvort um ryð verði til staðar. Paul Felder er sjálfur frábær standandi og mjög áreiðanlegur bardagamaður. Þetta ætti því að verða standandi stríð og þrælskemmtilegur bardagi.

Spá: Paul Felder sigrar nokkuð jafnan bardaga á stigum.

4. UFC on Fox 29, 14. apríl – Dustin Poirier gegn Justin Gaethje (léttvigt)

Bardagar með Justin Gaethje virðast alltaf vera ávísun á eitthvað rosalegt – sérstaklega þegar hann fær góða dansfélaga. Hér mætir hann Dustin Poirier sem er langt frá því að vera leiðinlegur bardagamaður. Þetta verður alveg örugglega hraður og harður bardagi þar sem báðir þurfa að éta stór högg áður en ballið er búið.

Spá: Það verður blóð en að lokum verður það demanturinn Dustin Poirier sem rotar Gaethje í annarri lotu.

3. UFC Fight Night 128, 21. apríl – Edson Barboza gegn Kevin Lee (léttvigt)

Edson Barboza er hrikalega skemmtilegur bardagamaður en nú snýr hann aftur eftir sitt versta tap í búrinu. Andstæðingurinn, Kevin Lee, þurfti sömuleiðis að þola erfitt tap í hans síðasta bardagana en aðeins annar þeirra mun ná að rétta úr kútnum. Þetta er mjög spennandi og mikilvægur bardagi í léttvigt.

Spá: Kevin Lee forðast stóru höggin, notar glímuna og sigrar með „rear-naked choke“ í annarri lotu.

2. UFC 223, 7. apríl – Rose Namajunas gegn Joanna Jędrzejczyk (strávigt kvenna)

Fyrsta viðureign Namajunas og Jędrzejczyk voru ein óvæntustu úrslit síðasta árs. Nú mætast þær strax aftur svo við fáum að sjá hvort þetta var heppni eða ekki. Áður en Jędrzejczyk mætti Namajunas þótti hún nánast ósigrandi standandi og helstu möguleikar Namajunas þóttu vera á gólfinu. Nú verður áhugavert að sjá hvort við fáum endutekningu eða eitthvað allt annað.

Spá: Hér getur allt gerst. Segjum að Namajunas roti Jędrzejczyk í þriðju lotu að þessu sinni.

 

1. UFC 223, 7. apríl – Tony Ferguson gegn Khabib Nurmagomedov (léttvigt)

Loksins er komið að þessum stórkostlega bardaga. Skulum þó ekki fagna of snemma enda ennþá sex dagar þar til þeir stíga í búrið og berjast en margt getur gerst á sex dögum. Ferill beggja þessara manna er hreint ótrúlegur en stílarnir eru hins vegar mjög ólíkir. Við vitum að Nurmagomedov mun pressa og reyna að koma bardaganum sem fyrst í gólfið. Spurningin er hvort það gangi eftir og hvort Ferguson geti eitthvað varist rússneska skrímslinu á gólfinu. Þetta er í fjórða skipti sem reynt er að láta þessa tvo berjast, nú hlýtur það að takast.

Spá: Khabib verður með enn eina glímusýninguna og klárar bardagann með höggum á gólfinu í fjórðu lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular