Friday, March 29, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2018

Það er HM í fótbolta en ekki gleyma litlu íþróttinni okkar sem yljar okkur seint um kvöld alllan ársins hring. Júlí mánuður er troðinn af MMA góðgæti en við fáum fimm UFC kvöld og tvö Bellator kvöld.

10. TUF 27 Finale, 6. júlí – Brad Tavares gegn Israel Adesanya (millivigt)

Israel Adesanya er nýjasta vonarstjarnan í UFC. Hann minnir á köflum á Jon Jones og gæti klárlega náð langt. Stóra spurningin er hvort þessi bardagi gegn Brad Tavares sé að eiga sér stað of fljótt. Adesanya er ungur og óreyndur en Tavares er topp tíu andstæðingur sem hefur unnið fjóra erfiða andstæðinga í röð. Höfum í huga að Tavares er víst tæpur vegna meiðsla og Thiago Santos bíður á hliðarlínunni ef þörf krefur. Adesanya er hugrakkur maður.

Spá: Tavares tekur nýstirnið í kennslustund, TKO, önnur lota.

9. UFC on Fox 30, 28. júlí – Joanna Jędrzejczyk gegn Tecia Torres (strávigt kvenna)

Joanna Jędrzejczyk er á erfiðum stað á ferlinum eftir tvö töp gegn Rose Namajunas. Sumir héldu að hún myndi láta reyna á fluguvigt en það verður greinilega að bíða. Jędrzejczyk hefði sennilega haft gott af góðum endurkomu bardaga (líkt og Aldo fyrir neðan) en fær þess í stað algjöran „killer“ andstæðing.

Spá: Þetta verður erfitt en Jędrzejczyk sigrar tvær lotur af þremur og vinnur á dómaraúrskurði.

8. UFC Fight Night 133, 14. júlí – Junior dos Santos gegn Blagoy Ivanov (þungavigt)

Junior dos Santos var álitinn ein af þeim allra bestu í þungavigt fyrir ekki svo löngu síðan. Nú er hann hálf gleymdur og þarf heldur betur að minna á sig. Ef þið kannist ekki við andstæðinginn, Blagoy Ivanov, er það ekkert skrítið. Ivanov hefur aldrei fyrr barist í UFC en hann er 31 árs gamall og með fínasta MMA feril á bakinu. Ekki láta andlitsmyndina hér að ofan blekkja ykkur en Í 17 bardögum hefur Ivanov aðeins tapað einu sinni og það var árið 2014 gegn Alexander Volkov sem flestir ættu að þekkja. Á ferlinum hefur hann sigrað Ricco Rodriguez, Lavar Johnson og Shawn Jordan og komst í úrslitin í þungavigtarmóti Bellator.

Spá: JDS ætti að sigra, segjum að hann geri það eftir tæknilegt rothögg í fjórðu lotu.

7. UFC Fight Night 134, 22. júlí – Volkan Oezdemir gegn Maurício ‘Shogun’ Rua (léttþungavigt)

Volkan Oezdemir var á rosalegri siglingu þar til hann mætti Daniel Cormier í janúar síðastliðinn. Nú er spurningin hvort hann geti náð sér aftur á strik, hvort hann komi aftur brotinn eða sterkari? Shogun Rua ætti að geta svarað þeirri spurningu þrátt fyrir að vera ansi nálægt sinni endastöð.

Spá: Þetta verður skemmtilegt en stutt. Oezdemir rotar Rua í fyrstu lotu.

6. UFC on Fox 30, 28. júlí – José Aldo gegn Jeremy Stephens (fjaðurvigt)

Goðsögnin José Aldo snýr aftur eftir tvö hræðileg töp gegn Max Holloway. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að kappinn sé bara 31 árs en hann er talsvert eldri í bardagaárum. Jeremy Stephens hefði sennilega ekki átt mikla möguleika fyrir fimm árum en núna ætti þetta að vera jafn bardagi.

Spá: Stephens er harðari, hann étur högg Aldo en á meðan Aldo dvínar. Stephens klárar svo bardagann með rothöggi í þriðju lotu.

5. UFC 226, 7. júlí – Michael Chiesa gegn Anthony Pettis (léttvigt)

Þessi bardagi átti að fara fram í apríl á UFC 223 kvöldinu en einu brjálæðiskasti frá Conor McGregor síðar og bardaginn frestaðist þar til nú. En gleymum öllu því rugli og munum hversu frábær bardagi þetta er. Chiesa vill sanna sig sem einn af þeim bestu í léttvigt og Pettis vill koma sér aftur á toppinn. Þetta eru mjög ólíkir stílar og útkoman ætti að verða fróðleg.

Spá: Chiesa dregur Pettis í gólfið og gengur vel þar til Pettis kemur honum á óvart og afgreiðir Chiesa með „guillotine” hengingu í annarri lotu.

4. UFC 226, 7. júlí – Francis Ngannou gegn Derrick Lewis (þungavigt)

Búrið mun nötra þegar þessi tröll stíga á stokk í Las Vegas og láta höggin dynja á hvor öðrum. Þrátt fyrir að vera komnir yfir þrítugt eru báðir þessir kappar hluti af ungu kynslóðinni í þungavigt og sigurvegarinn hér tekur stórt skref upp á við.

Spá: Ngannou mun berja á Lewis sem fer allar þrjár lotur á hörkunni. Ngannou á stigum.

3. UFC on Fox 30, 28. júlí – Eddie Alvarez gegn Dustin Poirier (léttvigt)

Þökkum MMA guðunum fyrir þessa gjöf. Þessir herramenn mættust í maí í fyrra og gáfu okkur góða sýningu þar til ólöglegt hné gerði út um bardagann og bardaginn dæmdur ógildur. Nú fáum við endurat og útkoman getur ekki orðið neitt annað en veisla.

Spá: Blóðugt stríð og eftir tvær lotur verður það Poirier sem stendur uppi sem sigurvegari eftir rothögg.

2. UFC 226, 7. júlí – Max Holloway gegn Brian Ortega (fjaðurvigt)

Þvílíkur bardagi í fjaðurvigt. Max Holloway er búinn að festa sig vel í sessi með afgerandi sigrum gegn Ricardo Lamas, Anthony Pettis og José Aldo (í tvígang). Enginn er hins vegar ósigrandi og ósigraður stuðbolti með súper-svart belti í Jiu-Jitsu (lesist Brian Ortega) gæti verið maðurinn til að stöðva hann.

Spá: Holloway heldur bardaganum standandi og út spark-boxar Ortega. Holloway á stigum.

1. UFC 226, 7. júlí – Stipe Miocic gegn Daniel Cormier (þungavigt)

Það er ekki oft sem við fáum alvöru súperbardaga, meistara gegn ríkjandi meistara, en það er nákvæmlega það sem er í boði hér. Stipe Miocic er smá saman búinn að byggja sig upp sem einn besta þungavigtarbardagamann allra tíma, ef ekki þann besta. Á sama tíma hefur DC komið sér vel fyrir í léttþungavigt í fjarveru Jon Jones og ekki má gleyma að hann vann þungavigtarmótið í Strikeforce hér um árið.

Spá: Miocic reynist of stór og bakgrunnur hans í glímu gerir honum kleift að verjast glímuárás DC. Miocic sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular