Fjórir bardagamenn frá Mjölni keppa í MMA á Golden Ticket 20 bardagakvöldinu í Wolverhampton á Englandi núna á laugardaginn, 3. september. Allir keppa þeir áhugamannabardaga.
Venet Banushi mætir Wes Tully í léttivigt. Venet er 3-0 sem áhugamaður en hann kláraði sinn síðasta bardaga með tæknilegu rothöggi í 1. lotu. Tully barðist um léttvigtartitil Golden Ticket fyrr á árinu og mun Venet að öllum líkindum fá titilbardaga með sigri. Wez Tully er 5-2 sem áhugamaður og má búast við hörku bardaga.
Aron Franz Bergmann mætir Scott Wells í fjaðurvigt. Aron barðist líka á síðasta bardagakvöldi Golden Ticket þar sem hann nældi sér í sinn fyrsta sigur. Aron er 1-3 sem áhugamaður en Wells 3-3.
Viktor Gunnarsson mætir Michael Jones í bantamvigt. Þetta verður þriðji bardagi Viktors (1-1) á ferlinum en fjórði hjá Michael Jones (2-1). Jones hefur áður mætt Íslendingi en hann tapaði fyrir Sigursteini Óla Ingólfssyni árið 2019.
Síðast en ekki síst mætir Julius Bernsdorf (2-3) Tyler Adams (0-1) í léttþungavigt. Julius barðist á síðasta bardagakvöldi Golden Ticket sem var hans fyrsti bardagi í þrjú ár. Þar mátti Julius sætta sig við tap í titilbardaga eftir umdeilda dómaraákvörðun í hnífjöfnum bardaga.
Hinn 17 ára Björgvin Snær átti að berjast sinn fyrsta MMA bardaga en ekkert verður af bardaganum. Björgvin átti að mæta Kenny Le (2-0) í léttvigt. Le tók bardagann með rúmlega tveggja vikna fyrirvara en var hins vegar rúm 74,6 kg í vigtuninni fyrir 70 kg léttvigtarbardagann og gat ekki létt sig meira. Bardaginn var því blásinn af í gær og fær Björgvin ekki bardaga.
Eins og áður segir fara bardagarnir fram á Englandi á laugardaginn og hægt er að kaupa beint streymi á keppnina á Live MMA hér. Fyrsti bardagi hefst kl. 16:45 en uppröðun bardaga má sjá á myndunum hér að neðan. Aðalbardagi kvöldsins er bardagi James Dixon og Milan Silva.