Evrópumeistaramót áhugamanna í MMA fer fram í Birmingham í nóvember. Átta Íslendingar munu taka þátt í mótinu og keppa fyrir hönd Íslands.
Þetta er í fyrsta sinna sem IMMAF, International MMA Federation, heldur slíkt Evrópumót. IMMAF hefur tvívegis haldið heimsmeistaramót áhugamanna, síðast í júlí í Las Vegas í sömu viku og International Fight Week UFC fór fram.
Mótið fer fram 19-22. nóvember í Birmingham og geta þeir sem hafa tekið þátt í atvinnumannabardögum ekki keppt. Íslendingarnir átta koma öll úr röðum Mjölnis en þetta eru þau Bjartur Guðlaugsson, Bjarki Ómarsson, Bjarki Þór Pálsson, Hrólfur Ólafsson, Pétur Jóhannes Óskarsson, Inga Birna Ársælsdóttir, Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Þórir Örn Sigurðsson. Bjartur, Pétur og Inga eru að fara að keppa sína fyrstu MMA bardaga.
Mótið fer fram á nokkrum dögum og geta þeir sem fara alla leið búist við að berjast nokkra bardaga á þessum þremur dögum. Vigtun fer fram fyrir hvern bardaga svo flestir munu eflaust keppa einum flokki ofar en venjulega er gert.
IMMAF er í samstarfi við UFC og verða bardagarnir sýndir á Fight Pass rás UFC.