spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÆvintýri Sunnu í Tristar

Ævintýri Sunnu í Tristar

Sunna Rannveig Davíðsdóttir
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir dvaldi á dögunum í Tristar bardagaklúbbnum í Kanada. Þar æfði hún hjá einum virtasta þjálfara heims, tók æfingu með Georges St. Pierre og neitaði að taka lotu með Rory MacDonald.

Tristar bardagaklúbburinn er staddur í Montreal í Kanada. Firas Zahabi er yfirþjálfarinn þar og er einn virtasti þjálfarinn í bransanum. Fyrrum veltivigtarmeistarinn Georges St. Pierre æfði nánast allan sinn feril í Tristar og gerir enn. Í Tristar má að auki finna heimsklassa bardagamenn eins og Rory MacDonald, Joseph Duffy, Tarec Saffiedine og Joanne Calderwood.

Joanne Calderwood, eða Jojo eins og hún er gjarnan kölluð, hefur tvívegis æft hér á landi í Mjölni. Jojo og Sunna náðu vel saman er sú skoska dvaldi hér og fór Sunna til Tristar á dögunum til að æfa með Jojo. Jojo berst á laugardaginn stóran bardaga gegn Valérie Létourneau og aðstoðaði Sunna hana við undirbúninginn.

Sunna hélt til Montreal á miðvikudegi og kom til borgarinnar seint á miðvikudagskvöldi. Jojo tók á móti henni og sýndi henni heimavistina þar sem margir bardagamenn búa á. Þar dvaldi Sunna ásamt mörgum bardagamönnum en heimavistin er í aðeins 30 sekúndna göngufjarlægð frá Tristar bardagaklúbbnum.

„Heimavistin er mjög spes en þetta er gamalt hóruhús,“ segir Sunna.

„Þarna upplifir maður lífstíl bardagamannsins eins og í Tælandi. Ég var ein flesta dagana í frekar stóru herbergi en þarna er allt mjög hrátt. Það eru leðurhurðir með svona hnöppum í, mjög hórulegt,“ segir Sunna og hlær.

„Veggirnir voru mjög þunnur og náðu ekki alveg til lofts og var því stórt bil á milli efst uppi. Maður heyrði því bókstaflega allt sem gekk á í hinum herbergjunum. Eitt kvöldið kom einn gaurinn heim með skvísu og það heyrðu allir allt. Hann var ekki vinsæll daginn eftir og var allan daginn að biðjast afsökunar og þurfti að borga morgunmatinn.“

sunna dorm

Planið var að vera vel útsofin fyrir fyrsta daginn í Tristar en óhætt að segja að það plan hafi ekki gengið eftir. „Ég reyndi að fara snemma að sofa en það gekk erfiðlega. Klukkan var tíu um kvöldið þarna en 6 um morgun hér heima. Ég var kannski ekkert mikið sofinn þegar ég vaknaði næsta dag.“

Þær Sunna og Jojo voru búnar að ákveða að fara í morgunjóga hjá Jonathan Brookins á fimmtudagsmorgninum. Bardagaaðdáendur muna kannski eftir Brookins síðan úr 12. seríu The Ultimate Fighter en Brookins stóð uppi sem sigurvegari í seríunni.

„Jojo vekur mig en ég var svo sem ekkert sofandi alla nóttina, svona milli svefns og vöku. Það var síðan enginn jóga tími en Jonathan ákvað að fara út að hlaupa og bauð mér með. Jojo er í sínu prógrammi þannig að hún var ekkert að fara að hlaupa þennan dag en ég var til í hlaup og hitti Jonathan. Hann sagðist ætla að taka mig í ævintýri og ætlaði að sýna mér borgina. Ég var bara til í það.“

„Þegar við svo hlaupum af stað tölum við um allt milli heima og geima og spjöllum heilmikið. Áður en ég fór út var Mount Montreal svona það eina sem mig langaði að sjá þarna fyrir utan æfingarnar. Kvöldið áður var mér sagt að það væri smá langt að komast þangað að fjallinu.“

„Við hlaupum og endum á Mount Montreal og það var alveg geðveikt útsýni. Við hlupum sem sagt hálft maraþon þarna og hann var alltaf að tala um að hann væri að prófa hugann hjá mér, sjá hversu hörð ég væri. Hann var impressed alla leiðina enda var þetta enginn smá spotti.“

„Hann er mjög andlega þenkjandi en eitt kvöldið fannst mér ég var stödd í Joe Rogan podcasti þar sem hann og Elias Theodorou voru á þvílíku spjalli og það var eins og að hlusta á Joe Rogan. Enginn samt að reykja eða neitt,“ tók Sunna skýrt fram enda er Joe Rogan þekktur fyrir að grípa í pípuna í hlaðvarpi sínu.

Eftir að hafa hlaupið hálft maraþon kemur hún aftur í Tristar. Flestir hefðu eflaust tekið góða hvíld eftir svona skokk en ekki Sunna. „Eftir þessa 21 km fór ég beint á hádegisæfingu með Firas Zahabi. Þar var glímt alveg hressilega. Ég kom aðeins of seint og mér fannst það mjög leiðinlegt þar sem þetta var fyrsta æfingin og hann að kenna. Jojo sagði honum samt að ég væri að hlaupa og hann tók vel á móti mér og áttum við gott spjall. Tíminn var mjög góður en ég fann aðeins fyrir hlaupinu. Líka nýbúin að vera í löngu ferðalagi og svona.“

Eftir þennan hressa glímutíma tekur Sunna enn eina æfinguna og fyrsti dagurinn ekki hálfnaður. „Um leið og glímutíminn kláraðist var Jonathan Brookins að fara að kenna hot yoga kl tvö. Ég hafði aldrei farið í þannig tíma og hoppaði í það og tók einn og hálfan klukkutíma. Það var pollur af svita eftir mig og var ég eiginlega að drukkna í eigin svita.“

Smá sviti
Smá sviti

Eftir hot yoga tímann fékk Sunna sér smá að borða og fór svo aftur á æfingu. „Þá var svona amateur sparr. Þá eru atvinnumennirnir paraðir saman við áhugamennina. Það er mjög skemmtilega uppsett og góð reynsla fyrir áhugamennina.“

Þetta var svo sannarlega langur og áhugaverður fyrsti dagur hjá Sunnu í Tristar og fann Sunna strax fyrir þeim góða anda sem ríkir í Tristar. „Við tölum um hér heima að aðstaðan sé svo góð og hvað andinn er góður. Aðstaðan þarna í Tristar er ekki nálægt því eins góð og í Mjölni en andinn er alveg sérstakelga góður. Maður finnur það strax þegar maður labbar inn.“

Neitaði Rory MacDonald

Í Tristar æfa margir UFC bardagamenn á borð við áðurnefndan Rory MacDonald, Joseph Duffy, Elias Theodorou og fleiri. „Ég glímdi aðeins við Elias, sparraði við Joe Duffy en sagði nei við Rory MacDonald alveg óvart!“

„Fyrir hverja pro sparring æfingu er fyrirfram ákveðið hverjir æfa saman. Jojo gleymdi að segja mér það þannig að þegar tíminn byrjaði stóð ég ein og vissi ekkert. Þetta reddaðist þó og ég náði að fylla upp í flestar loturnar en annars horfði ég bara á sem var mjög lærdómsríkt.“

„Það var eyða hjá mér eina lotuna og sá að Rory var laus og spyr hvort hann vildi taka lotu. Hann sagði ‘nei, sorry, ég er með annan félaga’. Ekkert mál og ég fæ annan félaga. Eftir þá lotu pikkaði Rory í mig og spyr hvort ég vilji taka næstu en þá var ég nú þegar með félaga. Það var svekkjandi akkúrat á þeirri stundu.“

Goðsögnin Georges St. Pierre æfir alltaf í klúbbnum en hefur nú auðvitað lagt hanskana á hilluna. „Hann æfir í nokkrum stöðum þarna úti en kemur alltaf á mánudögum og kennir svona MMA nogi wrestling tíma. Þetta voru alveg geggjaðir tímar en hann var ekkert alltaf þarna. Hann kom tvisvar á meðan ég var þarna.“

Sunna náði þó ekki að æfa með honum enda æfir hann ekki með hverjum sem er. „Hann fer bara á móti fyrirfram ákveðnum æfingafélögum. Hann róterar ekki bara með öllum og sérstaklega ekki einhverjum sem er bara að mæta þarna í viku.“

St. Pierre kenndi tímann en hvernig kennari var hann? „Hann minnir mig rosalega mikið á Gunna sem kennari. Hann er alltaf brosandi og með rosalega góða og rólega nærveru. Manni líður vel í kringum hann. Tæknin sem hann kennir er auðvitað rosalega góð og byggir hann þetta mjög þægilega upp.“

„Ég er feimin að eðlisfari og tekur mig yfirleitt smá tíma að kynnast fólkinu þarna og maður er smá til baka. En hann hjálpar rosalega mikið þeim sem leita til hans, gefur góð ráð og alltaf til í að miðla af reynslunni. Hann var mjög opinn við fólk og auðvelt að nálgast hann. Bara down to earth og nice gæji – brosandi og léttur.“

sunna tristar

Joanne Calderwood á stóran bardaga í vændum á laugardaginn og segir Sunna að hún sé gríðarlega ákveðin fyrir bardagann. „Jojo var bara í beast mode. Ég hef aldrei séð hana svona áður. Hún var allt öðruvísi en þegar hún var að æfa hér heima. Ég sá að hún var rosalega ákveðin.“

„Stundum tókum við gott flæði í sparrinu en stundum komu lotur þar sem maður þurfti að hafa allan varann á. Hún er með killer olnboga enda með Muay Thai grunn og losar sig oft út úr erfiðum stöðum með olnbogum. Maður þarf að passa sig þegar hún er í þessum ham þó hún sé með olnbogahlífar,“ segir Sunna og hlær.

„Hún var bara í killer mode ég var að fíla það í tætlur. Þetta er það sem ég þarf. Þess vegna fór ég þangað og hefði gjarnan viljað vera lengur. Mig langar að fara aftur en hún ætlar að koma hingað í Mjölni til að hjálpa mér fyrir minn fyrsta bardaga í Invicta. Þá ætla ég að kaupa mér olnbogahlífar og refsa henni,“ segir Sunna og hlær aftur.

Sunna og Sandro.
Sunna og Sandro Ferr.

Sunna tók nokkra tíma með þjálfaranum Sandro Ferr og náðu þau vel saman á púðunum. Sandro hefur mikla reynslu úr Muay Thai og var einn af æfingafélögum Georges St. Pierre er hann var að undirbúa sig fyrir bardaga.

„Við náðum rosalega vel saman og ég var að fíla tæknina hans í tætlur. Ég er búinn að vera í sambandi við hann eftir að ég kom heim og bað hann mig um að senda sér myndefni af mér að æfa hér heima svo hann geti kíkt á það. Þegar ég verð komin með andstæðing fyrir fyrsta bardagann minn í Invicta á ég að senda honum myndbönd af henni og hann ætlar að greina hana fyrir mig og skoða loturnar mínar á æfingum.“

Yfir það heila var þetta frábær reynsla fyrir Sunnu og fékk hún mjög jákvæða umsögn frá þjálfurunum. „Maður er alltaf að testa sjálfa sig og sjá hvar maður stendur. Þarna var ég aðeins að skoða það. Ég fór á móti mönnum eins og Joe Duffy sem er ekkert alltof stór en mjög góður og tæknilegur, glímdi við mjög góða glímukappa þarna og ég fann alveg að ég átti heima þarna. Núna eftir að ég kom heim er ég full af eldmóði og mikill kraftur í mér. Að sjá hvernig þetta fólk lifir og æfir, hvernig það er að hvíla sig og borðar. Þau gera ekkert annað en að æfa, borða, sofa og repeat. Ég fíla þennan lífstíl.“

Áður en Sunna yfirgaf Tristar til að halda heim á leið átti hún að skila kveðju til Gunnars Nelson. „Allir báðu að heilsa Gunna. Firas og Georges og voru alltaf að tala um þegar þeir voru með honum í New York. Þeir sögðu að Gunni ætti að drífa sig í heimsókn og heimtaði Firas það. Þeir eru alltaf að bíða eftir símtali frá Gunna og átti ég að gefa honum bol frá þeim sem ég afhenti í gær [í síðustu viku].“

sunna tristar 2

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular