spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2017

Nú fer að styttast í hátíð ljóss og friðar sem þýðir auðvitað bardagaveisla fyrir MMA aðdáendur. Það er rík hefð fyrir góðri MMA dagskrá í desember og þó svo að það vanti risabardaga í árslok eins og stefnt var að er enginn skortur á spennandi viðureignum. Vindum okkur í þetta.

10. UFC Fight Night 123,  9. desember – Cub Swanson gegn Brian Ortega (fjaðurvigt)

Þessi frábæri bardagi í fjaðurvigt verður aðalbardagi kvöldins í Kaliforníu og þar af leiðandi fimm lotur. Hér mætist reynslan og æskan. Cub Swanson hefur ýmsa fjöruna sopið og hefur nú unnið fjóra bardaga í röð og komið sér í góða stöðu í þyngdarflokknum. Brian Ortega er unga ósgraða jiu-jitsu ljónið.

Spá: Eftir standandi fyrstu lotu fer bardaginn í gólfið í annarri lotu sem endar með sigri Ortega með „triangle“ hengingu.

9. UFC 219, 30. desember – Carlos Condit gegn Neil Magny (veltivigt)

Carlos Condit hefur ekki barist í rúmt ár en síðast þegar við sáum hann var hann kyrktur af Demian Maia á innan við tveimur mínútum. Þar áður átti hann frábæra viðureign við Robbie Lawler en um tvö ár eru liðin frá þeim bardaga. Neil Magny átti álíka slæman bardaga síðast, gegn Rafael dos Anjos, en sigraði þar áður Johny Hendricks. Þessi bardagi virðist snúast um hvaða útgáfu af Condit við fáum á þessu kvöldi. Hveru mikið á hann eftir?

Spá: Carlos Condit mætir dýrvitlaus til baka og spænir upp Magny í tveimur lotum, TKO.

8. UFC 218, 2. desember – Henry Cejudo gegn Sergio Pettis (fluguvigt)

Ef Demetrious Johnson berst ekki við T.J. Dillashaw næst verður sigurvergarinn í þessum bardaga næstur, það virðist vera nokkuð ljóst. Báðir þessi menn hafa litið vel út upp á síðkastið en Cejudo kom sérstaklega á óvart með frammistöðu sinni gegn Wilson Reis í september.

Spá: Cejudo tekur Pettis í gegn með fléttum og fellum og sigrar örugglega á stigum.

7. UFC of Fox 26, 16. desember – Santiago Ponzinibbio gegn Mike Perry (veltivigt)

Margir Íslendingar bíða spenntir eftir þessum bardaga. Fáum við að sjá Mike Perry hefna fyrir augnpotin eða verður það Santiago Ponzinibbio sem slekkur á hrokagikknum? Hvernig sem þetta fer þá er þetta spennandi bardagi í veltivigt og mikilvægur upp á framhaldið.

Spá: Ponzinibbio er tæknilega betri boxari en Perry, hann mun sigra sannfærandi á stigum.

6. UFC 218, 2. desember – Max Holloway  gegn José Aldo (fjaðurvigt)

Það var leiðinlegt að sjá Frankie Edgar detta út úr þessum bardaga og annar bardagi við José Aldo virtist tilgangslaus í fyrstu. Eftir að hafa hugsað þetta betur, séð viðtölin og upphitunina er ekki ananð hægt ena að vera nokkuð spenntur. Aldo hefur áður sýnt að hann getur aðlagast og unnið með breyttri bardagaáætlun (seinni Edgar bardaginn). Ef hann sparkar meira, hreyfir höfuðið meira og notar jafnvel fellur gæti hann hugsanlega komið öllum á óvart og sigrað.

Spá: Aldo mun byrja vel (aftur) en niðurstaðan verður sú sama. Holloway kemur sterkur inn um miðjan bardagann og afgreiðir Aldo með höggum í þriðju eða fjórðu lotu.

5. UFC 219, 30. desember – Cris Cyborg gegn Holly Holm (fjaðurvigt kvenna)

Nú þegar Cyborg er loksins komin með belti um mittið í UFC er kominn tími til að sjá hvað hún getur gert á móti stærstu nöfnunum. Holly Holm tapaði þremur bardögum í röð áður en hún sigraði Bethe Correia í júní. Það er hins vegar alveg bannað að vanmeta hana þar sem hún er tæknilega góð og með Greg Jackson í horninu. Cyborg hefur í gegnum tíðina verið árásargjörn sem gæti virkað vel fyrir Holm. Reyndar var Cyborg óvenju þolinmóð í hennar síðasta bardaga svo þetta gæti orðið meiri skák en fólk á von á.

Spá: Cyborg verður sennilega talin líklegri en ég hef á tilfinningunni að Holm muni ná að halda henni frá sér, taka þetta á hraðanum og úthaldinu og sigra á stigum.

4. UFC 218, 2. desember – Justin Gaethje gegn Eddie Alvarez (léttvigt)

Það kæmi talsvert á óvart ef þessi bardagi verður ekki einn af bestu bardögum ársins. Báðir þessir vígamenn eru þekktir fyrir stríðsátök. Sprengjum verður varpað, blóð mun renna og einhver mun liggja í valnum en hvorugur er þekktur fyrir að taka fanga.

Spá: Meðbyrinn er með Gaethje en ég ætla að taka séns á Eddie Alvarez. Alvarez rotar Gaethje í þriðju lotu og minnir hressilega á sig.

3. UFC of Fox 26, 16. desember – Robbie Lawler gegn Rafael dos Anjos (veltivigt)

Sigurvegarinn úr þessum bardaga á að fá titilbardaga gegn Tyron Woodley svo það er mikið í húfi. Báðir þessir kappar eru skemmtilegir á að horfa og það má búast við flugeldasýningu þegar þeir bíta í munnstykkið og stíga í búrið. Báðir þessir menn eru af gamla skólanum en virðast þó eiga nóg eftir.

Spá: Þó svo að Lawler hafi létt sig niður í veltivigt og RDA þyngt sig upp verður dos Anjos að teljast líklegri til sigurs. RDA sigrar á tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu.

2. UFC 219, 30. desember – Edson Barboza gegn Khabib Nurmagomedov (léttvigt)

Það elska allir Khabib Nurmagomedov en líkt og Cain Velasquez berst kappinn allt of sjaldan vegna meiðsla. Eftir að hafa barist þrisvar árið 2013 hefur hann barist samtals þrisvar árin 2014, 2015, 2016 og 2017. Hann er enn ósigraður og réttu megin við þrítugt en þú þarf hann að gefa í. Hér mætir hann Edson Barboza sem ekki þarf að kynna. Khabib hefur sýnt veikleika standandi og nái hann Barboza ekki í gólfið með hraði gæti þetta hæglega orðið hans fyrsta tap.

Spá: Fyrstu sekúndur í hverri lotu verða vafasamar en Khabib nær svo bardaganum í gólfið, stjórnar Barboza og sigrar á stigum.

1. UFC 218, 2. desember – Francis Ngannou gegn Alistair Overeem (þungavigt)

Stjórnendur UFC virðast hafa mikla trú á tröllinu Francis Ngannou og ætla að gera hann að stjörnu. Nái hann að sigra Alistair Overeem er nánast öruggt að hann fari beint í titilbardaga gegn Stipe Miocic. En er hann tilbúinn? Ngannou er með 11 bardaga á ferilskránni og hefur aldrei farið í 3. lotu. Overeem er einn reyndasti MMA bardagamaður í heimi með 59 bardaga að baki og hefur unnið titla í mörgum samböndum. Verður þetta of erfitt verkefni fyrir „The Predator“?

Spá: Overeem gæti hæglega unnið þennan en við skulum spá Ngannou sigri í annarri lotu, rothögg.

Bónus bardagi! 9. desember – Bjarki Þór Pálsson gegn Stephen O’Keeffe (léttvigt)

Desember er ansi þéttur og skemmtilegur mánuður og því setjum við inn einn bónus bardaga í lokin sem er sennilega áhugaverðasti bardaginn fyrir marga Íslendinga. Bjarki Þór Pálsson (4-0) mun verja léttvigtartitil sinn í FightStar í fyrsta sinn þann 9. desember. Hann mætir þá öflugum Íra með góða ferilskrá og svart belti í brasilísku jiu-jitsu.

Spá: Þetta verður erfiðasti bardagi Bjarka Þórs til þessa. Bardaginn verður jafn og skemmtilegur en Bjarki vinnur tvær lotur og sigrar því eftir dómaraákvörðun.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular