Tuesday, March 19, 2024
HomeForsíðaAron Kevinsson: Ef ég gæti barist á Íslandi myndi ég berjast meira

Aron Kevinsson: Ef ég gæti barist á Íslandi myndi ég berjast meira

Aron Kevinsson er einn af þremur keppendum frá Reykjavík MMA sem keppir á Caged Steel bardagakvöldinu á laugardaginn. Aron berst um léttvigtartitil Caged Steel gegn sterkum andstæðingi.

Aron er 22 ára gamall og er 3-1 sem áhugamaður í MMA. Hann hefur verið á fullu í MMA síðan árið 2018 en var búinn að fikta í íþróttinni aðeins á undan. Áhuginn kviknaði eftir að Aron sá myndbönd af Jose Aldo.

„Fyrsta minningin mín um MMA er ég á Youtube að skoða Jose Aldo. Ég sá hvernig hann hreyfði sig og ég trúði því að ég gæti gert sömu hluti og hann. En á þeim tíma var ég í fótbolta og ætlaði ég mér að komast langt í boltanum. Eftir að ég sá Youtube myndböndin af Aldo fór ég af og til á bardaga námskeið eins og til dæmis Kickbox námskeið hjá Jimmy í Pumping Iron og unglinganámskeið uppí Mjölni. Vinir mínir höfðu lengi sagt við mig að byrja að æfa MMA því ég stóð mig alltaf vel í gamnislögum á móti þeim. 2017 hafði ég samband við Magnús Inga, æfingafélagi minn og þjálfari í dag, því ég vildi koma í einkaþjálfun til hans. Ég var búinn að sjá hraðann árangur hjá vini mínum Bjarka Eyþórssyni en hann var einmitt búinn að vera mikið í þjálfun hjá Magnúsi og það var eiginlega það sem ýtti mér endanlega út í MMA. Síðan snemma á árinu 2018 byrjaði ég í RVK MMA,“ segir Aron.

Aron hefur verið duglegur að berjast síðasta árið en bardaginn á laugardaginn verður hans fimmti á 364 dögum.

„Ég hef verið að taka bardaga að meðaltali á 2,5 mánaða fresti. Vegna þess að það hefur verið stutt á milli bardaga hef ég verið í nokkuð góðu formi síðasta árið. Að berjast oft heldur mér klárlega gangandi og hungruðum.“

Líkt og allir bardagamenn á Íslandi þarf Aron að ferðast erlendis til að keppa í sinni íþrótt og hefur það sín áhrif á fjöldi tækifæra. „Ef ég gæti barist á Íslandi væri ég pottþétt búinn að berjast meira, kannski myndi ég berjast í hverjum mánuði. Ég held að ég yrði samt hrifnari af því að ferðast erlendis til þess að berjast því það er alltaf ákveðin stemning en ég væri kannski ekki að segja þetta ef ég væri búinn að berjast á Íslandi.“

Núna er Aron 3-1 sem áhugamaður og segir hann tilfinninguna að stíga inn í búrið magnaða. Tilfinningin er nokkurs kona blanda af ótta og tilhlökkun.

„Ég held að flestir bardagamenn koma með svipuð svör þegar það er spurt þá út í tilfinninguna fyrir bardaga en ég finn alltaf fyrir ótta og tilhlökkun á sama tíma. Óttinn kemur ekki upp hjá mér því ég er hræddur við að meiða mig eins og þeir sem æfa ekki eða þekkja ekki til MMA myndu halda – ég óttast að uppfylla ekki mínar eigin kröfur í búrinu. Ég væri ekki að keppa í MMA ef ég væri hræddur við það að fá hnefa í andlitið. Ég er alltaf stressaður fyrir bardaga, í undirbúning fyrir bardaga getur stressið gert þetta erfitt fyrir mig en mér finnst líka fínt að finna fyrir stressi því það heldur mér einbeittum. En þegar það er búið að loka búrinu og dómarinn spyr mig hvort að ég sé tilbúinn og lotan fer af stað þá hverfur allur ótti og stress og ég reyni að njóta mín eins og ég get.“

Aron Kevinsson. Mynd: Rúnar ‘Hroði’

Aron fer gegn öflugum andstæðingi, Tom Mullen. Bretinn er 7-0 sem áhugamaður og hefur klárað alla bardaga sína með uppgjafartaki í 1. lotu. Þetta verður því alvöru andstæðingur sem Aron fær.

„Hann er bara nokkuð góður alls staðar. Þó að hann hafi unnið alla bardagana sína með uppgjafartaki þá er hann nokkuð góður striker líka, hann er einnig góður upp við búrið. Inni á síðunni Tapology er hann númer 4 af 800 léttvigtar áhugamönnum á Bretlandseyjum þannig þetta er topp andstæðingur. Hingað til er þetta stærsta áskorunin mín í MMA og ég get ekki beðið eftir að fá þetta belti utan um mig eftir að hafa unnið slíkan andstæðing.“

Mullen er þekktur fyrir að byrja af krafti enda klárað alla bardagana í 1. lotu. Aron þarf því að vera vel með á nótunum á fyrstu mínútum bardagans. „Fyrst og fremst ætla ég að gera mitt en ef það gefst tækifæri þá nýti ég mér veikleika hans sem ég hef séð hjá honum í fyrri bardögum. Ég veit síðan hvernig ég vil byrja og hvar ég vil hafa bardagann þannig að ég er með smá plan fyrir hvernig ég ætla að byrja bardagann.“

Aron byrjaði í flugnámi haustið 2017 og átti að byrja í atvinnuflugmannsnámi haustið 2018 en hætti við það þar sem hann var kominn á fullt í MMA og einbeitingin öll þar.

„Ég stefni alla leið í MMA. Ég ætla mér að verða atvinnumaður fyrir 25 ára aldurinn og ég vil komast í UFC, ONE eða Bellator. Ég vil lifa á því að berjast í framtíðinni.“

Ívar og Aron. Mynd: Reykjavík MMA
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular