Það verða átta íslenskir keppendur sem keppa á Evrópumótinu í MMA í ár. Mótið fer að þessu sinni fram í Prag í Tékklandi og stendur yfir dagana 22.-26. nóvember.
Ísland sendi líka átta keppendur á mótið í fyrra og komu þau Bjarki Þór Pálsson og Sunna Rannveig með gull heim. Þá fór mótið fram í Birmingham og verður athyglisvert að fylgjast með íslensku keppendunum í ár.
Líkt og í fyrra koma allir íslensku keppendurnir frá Mjölni en hér er keppendalistinn:
Dagmar Hrund Sigurleifsdóttir – Fluguvigt kvenna (56,7 kg)
Bjartur Guðlaugsson – Fjaðurvigt (65,8 kg)
Magnús Ingi Ingvarsson – Veltivigt (77,1 kg)
Birgir Örn Tómasson – Veltivigt (77,1 kg)
Björn Þorleifsson – Millivigt (83,9 kg)
Hrólfur Ólafsson – Millivigt (83,9 kg)
Egill Øydvin Hjördísarson – Léttþungavigt (93 kg)
Bjarni Kristjánsson – Léttþungavigt (93 kg)
Bjarki Ómarsson ætlaði að keppa í ár líkt og í fyrra en þurfti að hætta við vegna meiðsla.
Í veltivigt, millivigt og léttþungavigt eru tveir íslenskir keppendur og gætu þeir átt í hættu á að mætast. Líklegast munu þeir þó vera sitt hvoru megin í þyngdarflokknum og ekki geta mæst nema í úrslitum.
Hér er hægt að sjá keppendalistann í heild sinni en 180 keppendur frá 30 löndum eru skráðir til leiks. Í léttþungavigt er Búlgarinn Tencho Karaenev skráður til leiks en hann vann Egil á EM í fyrra og Bjarna á HM í sumar. Þeir Egill og Bjarni gætu því fengið tækifæri til að hefna fyrir töpin.