Tuesday, April 23, 2024
HomeErlentBellator 206: Gegard Mousasi kláraði Rory MacDonald í 2. lotu

Bellator 206: Gegard Mousasi kláraði Rory MacDonald í 2. lotu

Bellator 206 fór fram í gærkvöldi í San Jose í Kaliforníu. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Gegard Mousasi og Rory MacDonald.

Millivigtarmeistarinn Gegard Mousasi reyndist vera of stór fyrir veltivigtarmeistarann Rory MacDonald. Mousasi, sem á að baki titla í léttþungavigt, var ekki í miklum erfiðleikum með MacDonald. Mousasi kláraði veltivigtarmeistarann með tæknilegu rothöggi í gólfinu.

Bellator hefur reynt að hasla sér völl á Bretlandseyjum en það gekk ekki vel í gær. Bardagakvöldið var sýnt á Channel 5 og fór aðeins yfir áætlaðan tíma. Aðalbardagi kvöldsins á milli Mousasi og MacDonald var því ekki sýndur þar sem klukkan var orðin 6 um morgun á Englandi þegar þeir áttu að berjast en bannað er að sýna efni bannað börnum á þeim tíma. Þess í stað var teiknimyndin Peppa the Pig sýnd á meðan MacDonald og Mousasi börðust. Ekki skemmtilegt fyrir þá sem voru búnir að vaka til kl. 6 um morgun til að sjá þennan ofurbardaga.

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mættust þeir Quinton ‘Rampage’ Jackson og Wanderlei Silva. Þetta var í fjórða sinn sem þeir mættust en í þetta sinn fór bardaginn fram í þungavigt. Rampage rotaði Wanderlei í 2. lotu en Rampage var um það bil 13 kg þyngri en Wanderlei.

Fyrsti bardaginn í 8-manna útsláttarmóti Bellator í veltivigtinni fór svo fram í gær þegar Andrey Koreshkov mætti Douglas Lima. Bardaginn var fremur tilþrifalítill framan af en í 4. og 5. lotu bætti Lima í. Lima kláraði svo bardagann með því að svæfa Koreshkov í 5. lotu.

Hinn efnilegi Aaron Pico kláraði svo Leandro Higo með tæknilegu rothöggi í 1. lotu í gær. Hann hefur núna unnið fjóra bardaga í röð og klárað þá alla í 1. lotu.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular