Monday, May 6, 2024
HomeForsíðaBenedikt Gabríel tapaði eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu

Benedikt Gabríel tapaði eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu

Fjórir Íslendingar keppa á Caged Steel FC 21 bardagakvöldinu nú í kvöld. Benedikt Gabríel tapaði eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu.

Þetta var fyrsti MMA bardagi Benedikts en bardaginn fór fram í veltivigt. Benedikt Gabríel mætti James Power en nokkuð var um skítkast á milli þeirra í aðdraganda bardagans.

Fyrsta lota var nokkuð einhliða en Power náði nokkrum ágætis spörkum í Benedikt. Svo virtist sem potað hefði verið í auga Benedikts en dómarinn Neil Hall sá ekkert augnpot og gerði því ekki hlé á bardaganum. Bardaginn hélt því áfram og varð sóknarþunginn meiri frá Power þegar leið á. Benedikt reyndi fellu en lenti sjálfur undir og kláraðist lotan þar sem Power var ofan á.

Í 2. lotu náði Power góðu hásparki sem virtist vanka Benedikt og fylgdi hann því eftir með fleiri spörkum og höggum þar til Benedikt féll niður. Power lét þá höggin dynja á Benedikt en þegar dómarinn stöðvaði bardagann hætti Power ekki að kýla. Hann fylgdi ekki fyrirmælum dómarans og náði nokkrum höggum til viðbótar í Benedikt eftir að dómarinn var búinn að stöðva bardagann. Framkoma Power hreinlega til skammar. Dómarinn lét Power heyra það og stökk Bjarki Þór Pálsson, þjálfari Benedikts, yfir búrið til að skamma Power. Power var í raun heppinn að vera ekki dæmdur úr leik fyrir að hlýða ekki fyrirmælum dómara.

Power sigraði því með tæknilegu rothöggi í 2. lotu en framkoma hans í lok bardagans var honum ekki til framdráttar. Power var þó betri bardagamaðurinn og verðskuldaður sigurvegari.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular