Tuesday, March 19, 2024
HomeForsíðaBirgir Örn: Sá að hann var galopinn þarna niðri og ég nýtti...

Birgir Örn: Sá að hann var galopinn þarna niðri og ég nýtti mér það

Mynd: Snorri Björns.

Birgir Örn Tómasson átti frábæra frammistöðu þegar hann kláraði Stelios Theo með tæknilegu rothöggi í 1. lotu síðasta laugardag. Birgir ætlar að hamra járnið á meðan það er heitt og stefnir á að komast sem fyrst aftur í búrið.

Bardaginn fór fram á Fightstar kvöldinu í London en þetta var þriðji atvinnubardagi Birgis. Hann er núna 3-0 sem atvinnumaður – allt rothögg í 1. lotu.

Bardaginn stóð yfir í rúmar þrjár mínútur og kemur Birgir vel úr bardaganum. „Ég er bara í toppstandi, líður bara eins og ég hafi varla fengið högg á mig. Ég hef bara sjaldan verið eins góður eftir bardaga. Hann var eitthvað að hnjáa mig í skrokkinn þegar ég stóð upp en fann ekkert fyrir því og náði að verjast þeim eitthvað með höndunum,“ segir Birgir.

Birgir var tekinn niður í bardaganum en náði að standa upp. Birgir og Theo voru í smá baráttu upp við búrið en þá bakkaði Theo frá búrinu þrátt fyrir að vera í ágætri stöðu.

„Um leið og ég komst á fætur var ég að vinna með hnén sjálfur í hann. Mig grunaði að hann hafi ekki viljað fá fleiri og þess vegna bakkað. Ég held ég hafi hitt hann alveg einu sinni eða tvisvar ágætlega fast. En ég var að hitta hann, er ekki viss um að hann væri að fara að gera eitthvað mikið meira við mig þarna, var kominn í ágætis stöðu þegar ég stóð upp.“

Birgir viðurkennir að gólfglíman sé hans veikasti hlekkur en var ánægður með hvernig honum tókst að standa upp eftir að hann var tekinn niður. „Ég var ánægður með hvernig ég náði að bjarga mér eftir að þetta var komið í gólfið. Þar reyndi aðeins á gólfglímustandið. En ég var hins vegar ósáttur með hvað hann náði mér auðveldlega niður til að byrja með.“

„Ég tek helling með mér úr bardaganum, bæði standandi og í glímunni. Ég var til að mynda hreyfanlegri en oft áður, höfuðhreyfingarnar voru meiri en er búinn að vera að taka það fyrir í boxinu. Var líka duglegur að verjast höggum, var ekki að éta eins mikið af höggum í fésið eins og ég á til að gera. Meðal annars varðist ég svaka olnboga frá honum sem kom upp úr þurru. Það hefði verið dýrt að fá hann í andlitið. En ég átti alveg von á að lenda í þessari stöðu í gólfinu en var búinn að undirbúa mig fyrir það og vissi alveg hvað ég átti að gera.“

Þegar bardaginn komst aftur á lappir þjarmaði Birgir að honum en eftir þungt skrokkhögg féll Theo niður og bardaginn var stöðvaður.

„Ég var svolítið að ganga frá honum standandi. Mér fannst ég vera að vinna í að klára bardagann þarna og náði m.a. einum vinstri olnboga í andlitið á honum. Svo var ég að negla svolítið fast en þó hann væri að verjast krókunum þá held ég að þetta hafi samt verið að hitta í gegn, það var kraftur í þessu. Svo náði ég haussparki sem hann varði að einhverju leyti en sýndist það hafa vankað hann aðeins. Þá var ég kominn í að klára. Sá að hann var galopinn þarna niðri og ég nýtti mér það.“

Birgir er 36 ára gamall og er tími hans sem íþróttamaður að renna út. En hvert er markmiðið í MMA hjá honum verandi á þessum aldri? „Bara eins og það hefur alltaf verið, gera sem mest með þann tíma sem ég hef. Ég veit að tíminn er ekki að vinna með mér en ætla að komast eins langt og ég kemst með þann tíma sem ég hef. Bara reyna að vera eins aktífur og ég get. Það hefur svolítið vantað að fá bardaga en núna er ég búinn með tvo á þessu ári og er kannski kominn í betri mál með því að vera með 3-0 feril og þá fara kannski fleiri að banka á dyrnar við tækifæri.“

Birgir barðist í Litháen í lok febrúar og hefur fengið boð um að berjast aftur þar í maí. Allt utanumhald í kringum bardagakvöldið var sérstakt og er Birgir opinn fyrir því að taka bardagann en mun ákveða það í vikunni.

Eins og áður segir kemur Birgir nánast óskaddaður úr bardaganum og stefnir á annan bardaga sem fyrst. „Núna þarf ég bara að halda mér við, fara beint aftur á æfingu á meðan ég finn út hvort ég taki þennan bardaga í Litháen eða ekki. Maður verður að halda sér heitum. Ég er að gera ráð fyrir að ég fari í bardaga eftir mánuð þannig að ég held áfram á mínu striki, halda mér í formi og bæta það sem ég þarf að bæta.“

Mynd: Fightstar.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular