Monday, May 20, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on FOX: Poirier vs. Gaethje

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on FOX: Poirier vs. Gaethje

Mynd: Mark J. Rebilas-USA TODAY Sports

UFC bardagakvöldið í Arizona á laugardaginn var einfaldlega frábært. Við fengum einn besta bardaga ársins og einfaldlega mögnuð tilþrif en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Dustin Poirier kláraði Justin Gaethje með tæknilegu rothöggi í 4. lotu í frábærum aðalbardaga kvöldsins. Bardaginn er strax líklegur kandídát sem besti bardagi ársins og stóð heldur betur undir háum væntingum aðdáenda.

Það er líka eitthvað bilaðslega svalt við það sem Justin Gaethje sagði eftir bardagann. Hann myndi ekki óska sínum versta óvin að ganga í gegnum það sem hann gekk í gegnum, en hann segist vera fæddur til að gera akkúrat þetta. Hann veit hve hættulegt og heimskulegt það er að berjast eins og hann gerir, en svona langar honum að berjast. Hann elskar að vera í svona bardögum sem eru ekkert annað en stríð.

Fæstir munu skilja þessa löngun hans til að vera stöðugt í svona stríðum – sérstaklega með tilliti til þess að hann þarf ekki að berjast svona, hann er með frábærar fellur og gæti verið mun skynsamari. Hann kýs að berjast svona þar sem honum finnst það gaman. Hann vill fara í stríð og brjóta andstæðinginn niður hægt og rólega þar til sársaukinn verður of mikill. Viljan og harkan í báðum á laugardaginn var hreinlega ólýsanleg og sýndi gífurlegan andlegan styrk beggja. Vissulega hjálpar adrenalínið en það þarf ansi mikið hugrekki til að halda áfram að slást þrátt fyrir að upplifa mikil óþægindi og sársauka.

Justin Gaethje naut þess að vera í svona stríði og það sama gerði Rory MacDonald þegar hann barðist við Robbie Lawler á UFC 189. Rory sagði meira að segja að þetta hefði verið besta kvöld lífs síns en samt tapaði hann og var með mölbrotið nef. Það er óhætt að fullyrða að þessir menn eru ólíkir okkur hinum sem viljum bara horfa á bardagana enda setja þeir sig viljandi í aðstæður sem 99% af mannfólkinu myndu forðast.

Dustin Poirier óskaði eftir titilbardaga gegn Khabib Nurmagomedov eftir sigurinn. Það er svo sem ekki ósanngjörn krafa enda er hann 7-1 (og 1 bardagi dæmdur ógildur) í léttvigtinni. Hann er ekki að leitast eftir að fá einhverja hefnd gegn Conor McGregor eða Eddie Alvarez – hann vill bara fá tækifæri til að verða heimsmeistari.

Dustin var einlægur í viðtölum eftir bardagann og talaði um hve mikið hann langar að verða bestur í heimi, þó það væri ekki nema í einn dag. Það væri bara smá þakklæti til eiginkonunnar sinnar fyrir það að standa alltaf með honum yfir ferilinn. Áður en hann kom í UFC var hún að keyra hann í bardaga í einhverju krummaskuði þar sem þau gistu á misgóðum vegamótelum. Dustin á henni mikið að þakka og langar að ná stærsta markmiði ferilsins – heimsmeistaratitlinum. Því miður fyrir hann er enn ákveðin óvissa í léttvigtinni með Conor McGregor og Tony Ferguson á hliðarlínunni.

Alex Oliveira sigraði Carlos Condit með uppgjafartaki í 2. lotu í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Condit hefur þar með tapað fjórum bardögum í röð og er núna 2-7 í síðustu níu bardögum sínum. Hann er klárlega ekki meðal topp 15 bestu í veltivigtinni í dag en var þó betri núna en að undanförnu. Það má líka ekki gleyma því að Condit var sjálfur ansi nálægt því að klára bardagann í 1. lotu áður en lotan kláraðist.

Israel Adesanya er núna 2-0 í UFC eftir sigur sinn á Marvin Vettori. Þetta var ekkert sérstakur bardagi og í fyrsta sinn sem Adesanya fer allar þrjár loturnar. Það tekur hann yfirleitt góðan tíma að detta í gang og er kannski óþarfi að henda honum strax í stóru hundana í millivigtinni miðað við þessa frammistöðu. Gefum honum aðeins lengri tíma til að þróast áður en hann fer í þá bestu í millivigtinni.

Bardagi Michelle Waterson og Courtney Casey var frábær og gríðarlega jafn. Dómararnir voru greinilega frekar að horfa á toppstöðu Waterson en ekki uppgjafartökin hjá Casey. Casey var mun nær því að klára bardagann heldur en Waterson og var talsvert meira ógnandi af bakinu heldur en Waterson á toppnum. Vanalega hefði þessi frammistaða skilað báðum bónus fyrir besta bardaga kvöldsins en því miður fyrir þær var aðalbardaginn aðeins of fjörugur. Þær hafa nú samt örugglega fengið smá bónus fyrir þessa frammistöðu.

Næsta UFC er núna á laugardaginn þegar þeir Kevin Lee og Edson Barboza mætast í aðalbardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í Atlantic City.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular