spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Thor og Forynja afhjúpa inngöngubolinn fyrir FightStar

Bjarki Thor og Forynja afhjúpa inngöngubolinn fyrir FightStar

Sara María (Forynja) og Bjarki Thor. Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Bjarki Thor Palsson berst í næstu viku sinn þriðja atvinnubardaga. Hann hefur nú afhjúpað nýjan bol sem hann mun klæðast á leið sinni í búrið en bolurinn er hannaður af Forynju.

Bjarki Thor Pálsson (2-0) mætir Alan Proctor laugardaginn 29. apríl í FightStar bardagasamtökunum. Hefð ríkir fyrir því að bardagafólk gangi í búrið í sérstökum bolum eða „walk-in t-shirt“. Nú er bolurinn hans Bjarka kominn en hann er hannaður af fatahönnuðinum Söru Maríu Júlíusdóttur sem starfar undir merkinu Forynja.

Rúmlega 50 Íslendingar munu fylgjast með Bjarka berjast á FightStar bardagakvöldinu. Það má því reikna með að þó nokkrir bolnir verði í salnum.

„Ástæðan fyrir því að ég vildi kýla á þetta var sú að það voru svo margir sem voru að segja mér að þeir ætluðu að koma út og öskra mig áfram. Það er enginn landsliðsbúningur í MMA þannig að ég tók einhliða ákvörðun um að minn fyrsti bolur fengi þá bara að vera staðgengill hans, í það minnsta í þetta skiptið,“ segir Bjarki Thor og hlær.

„Það verður ekkert smá gaman að horfa út úr búrinu og sjá nokkra grjótharða víkinga í bolnum. Ég er nokkuð viss um að það eigi eftir að kveikja vel í mér og það á hárréttu augnabliki.”

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Hönnuðurinn Sara María og Bjarki Thor hafa þekkst í nokkur ár. Sara hefur æft í Mjölni um nokkurt skeið og hefur verið í einkaþjálfun hjá Bjarka eftir að hafa búið erlendis í tvö ár.

„Þegar Sara kom aftur heim þá hafði hún samband við mig upp á að koma í þjálfun til mín og það var nú auðsótt. Ég var kominn á flug með þessi bolamál en var alveg tómur á það hver gæti unnið þetta með mér. Ég bar þetta undir umboðsmanninn minn og hann var ekki lengi að benda mér á að ég væri nú í daglegu sambandi við ansi heppilegan samstarfsaðila. Stundum leitar maður langt yfir lækinn til að finna vatnið,” segir Bjarki og hlær.

Sara María er flestum hérlendum áhugamönnum um fatahönnun að góðu kunn. Hún hefur hannað flíkur undir merkinu Forynja um talsvert skeið og hefur myndað sér ákveðna sérstöðu í að þrykkja grafík á flíkur.

„Ég varð strax svakalega spennt þegar Bjarki bar þessa hugmynd undir mig. Fyrir það fyrsta þá hef ég afar hátt álit á honum sem vin, sem bardagamanni, sem þjálfara og bara sem manneskju. Og svo hefur mig lengi langað til að hanna walk-in bol. Það var mér því heiður að hann skyldi vilja vinna þetta með mér. Við köstuðum hugmyndunum aðeins á milli og ég fór síðan bara af stað. Ég fékk hann Geira (Sig Vicious) vin minn til að vinna leturframsetninguna og þaðan fór ég bara í að gera tilraunir með að þrykkja á bolina. Ég sá strax að þetta var að virka,” segir Sara María.

Bjarki Thor var strax mjög hrifinn af bolnum er hann sá hann fyrst. „Ég hefði ekki getað gert þetta betur sjálfur. Ég er að grínast – ég hefði náttúrulega bara ekkert getað gert þetta sjálfur. Sara er alveg fáránlega fær í sínu fagi og henni tókst að gera eitthvað sem er svo miklu flottara en ég hefði nokkurn tímann getað látið mig dreyma um. Þetta er verkefni sem við getum bæði verið stolt af langt fram veginn og vonandi er þetta bara upphafið að samstarfi til langs tíma,” segir hann.

Eins og áður segir eru bolirnir handþrykktir og eru því engir tveir alveg eins. Bolirnir verða til í bæði svörtum og hvítum lit en takmarkað upplag er í boði. Áhugasamir ættu því að hafa hraðar hendur en bolinn er hægt að kaupa í gegnum vefsíðu Bjarka Thors, www.thorpalsson.is. Pantanir er svo hægt að sækja á Reykjavík Hair, Borgartúni 6.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular