Tuesday, April 23, 2024
HomeForsíðaBjörn Lúkas: Allur kvíði við að keppa er löngu farinn

Björn Lúkas: Allur kvíði við að keppa er löngu farinn

Björn Lúkas Haraldsson berst á laugardaginn í Færeyjum. Björn hefur mikla reynslu úr öðrum bardagaíþróttum en berst nú sinn fyrsta MMA bardaga á laugardaginn.

Björn Lúkas er svart belti í júdó og er fjórfaldur Íslandsmeistari unglinga og tvöfaldur Norðurlandameistari unglinga. Hann er einnig með svart belti í taekwondo þar sem hann var Íslandsmeistari unglinga í bardaga og í hópformum fullorðinna. Þá er hann með fjólublátt belti í brasilísku jiu-jitsu þar sem hann er fimmfaldur Íslandsmeistari unglinga og einu sinni unnið Íslandsmeistaratitil fullorðinna. Að auki tók hann sinn fyrsta box bardaga í fyrra sem hann sigraði með tæknilegu rothöggi.

Núna tekur hann skrefið í MMA sem hann hefur stefnt lengi að. „Þegar ég var 13 ára gamall var ég á leið til Akureyrar á taekwondo mót og man eftir því að hafa séð Tyson Griffin gegn Clay Guida í UFC á DVD í rútunni. Ég hugsaði að þetta væri eitthvað sem ég vildi gera þar sem ég var búinn að æfa júdó síðan ég var 6 ára og var þá búinn að vera í taekwondo í eitt ár,“ segir Björn Lúkas.

Björn Lúkas er 22 ára gamall og flutti til Reykjavíkur í fyrra eftir að hafa búið í Grindavík allt sitt líf. „Ég var löngu búinn að ákveða að flytja í bæinn til að geta æft MMA í Mjölni – það var það eina sem kom til greina ef ég ætlaði að geta gert þetta. Ég stefni alla leið og ætla að fara með þetta eins langt og ég get og svo enn lengra.“

„Ég vildi fyrst klára framhaldsskólann í Keflavík og vera kominn með svart belti bæði í júdó og taekwondo áður en ég myndi flytja í bæinn. Tveimur mánuðum eftir að ég kláraði skólann flutti ég til Reykjavikur og elska það hérna! Það er stutt í allt sem maður þarf og svo er ég í 10 mínútna göngufæri frá Mjölni þar sem ég bý núna. Ég vinn í hlutastarfi hjá Póstdreifingu en Mjölnir og æfingarnar eru númer 1, 2 og 3 hjá mér.“

Björn hefur mikla keppnisreynslu úr öðrum bardagaíþróttum en tekur nú skrefið í MMA heiminn. En er tilhugsunin um að keppa í MMA öðruvísi en að keppa í öðrum bardagaíþróttum?

„Ég er auðvitað mjög spenntur fyrir þessu þar sem þetta er búið að vera á stefnuskránni hjá mér í langan tíma en myndi ekki segja að þetta sé eitthvað öðruvísi. Ég er vanur að keppa margar helgar í röð eða jafnvel tvö eða þrjú mót sömu helgi. Þannig að allur kvíði við að keppa er löngu farinn.“

„Ég held að tilfinningin verði svipuð og þegar ég keppti í hnefaleikum þar sem það er bara einn bardagi í gangi og allir eru að horfa á þessa einu viðureign. Í taekwondo og júdó eru margir vellir í gangi og maður keppir kannski marga bardaga í röð þannig að þetta var aðeins öðruvísi. Mér leið mjög vel þegar ég labbaði í hnefaleikahringinn og gruna að það verði mjög líkt því þegar ég stíg í búrið um helgina.“

Líkt og flestir Íslendingarnir á bardagakvöldinu í Færeyjum hefur verið nokkuð flakk á andstæðingum. „Ég hef ekkert verið að spá í andstæðingnum þar sem það hafa þrír andstæðingar hætt við að keppa við mig áður en þessi kom. Maður veit aldrei hver mætir fyrr en maður stígur í búrið. En það skiptir ekki máli hvað hann ætlar að gera því ég ætla bara að gera mitt og gangi honum vel að stoppa það!“

Það verður spennandi að fylgjast með Birni keppa sinn fyrsta MMA bardaga á laugardaginn en hvernig fer bardaginn?

„Það er ágætis spurning. Ég ætla bara að taka mér minn tíma og ekkert vera að flýta mér. En ég sé fyrir mér að þetta klárist með höfuðsparki eða með armlás þegar hann er búinn að fá nóg af því sem ég hef upp á að bjóða,“ segir Björn að lokum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular