Tuesday, May 21, 2024
HomeForsíðaBjörn Lúkas: Geng frá þessu sáttur

Björn Lúkas: Geng frá þessu sáttur

Björn Lúkas Haraldsson hafnaði í 2. sæti á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA. Björn barðist fimm bardaga á mótinu en er þrátt fyrir það bara nokkuð ferskur og mjög sáttur með reynsluna.

Björn Lúkas kláraði fyrstu fjóra bardaga sína í fyrstu lotu á HM en tapaði svo eftir dómaraákvörðun í úrslitunum í gær fyrir Svíanum Khaled Laallam. Björn hefur nú dvalið í Barein í viku ásamt Hrólfi Ólafssyni (þjálfara) en strákarnir leggja af stað heim í kvöld.

Þegar við heyrðum í Birni voru þeir að skoða sig um í Barein. Þrátt fyrir fimm bardaga á sex dögum var Björn Lúkas í mjög góðu standi.

„Skrokkurinn er bara mjög góður. Ég er smá aumur í kjálkanum, get alveg borðað og talað en finn fyrir smá eymslum, annars er ég bara mjög góður. Það hafa gaurar komið mun verr úr þessu,“ segir Björn Lúkas og hlær.

Eftir úrslitabardagann í gær var Björn Lúkas sendur upp á spítala í frekari skoðun þar sem hann fór í sneiðmyndatöku. „Ég var ekki með neinn hausverk eða neitt, þetta er bara standard. Allir fengu að fara í þetta bara til öryggis. Hvað kostar þetta heima? Maður segir ekki nei ef manni er boðið upp á svona frítt.“

Björn Lúkas hafði aðeins eytt sjö og hálfri mínútu í búrinu á HM fram að úrslitabardaganum. Hann fann því ekki fyrir mikilli þreytu fyrir úrslitabardagann og leið vel. „Ég var fullur af sjálfstrausti og leið bara mjög vel. Upphitunin var mjög góð, ég var með John Kavanagh í horninu hjá okkur og hefðum eiginlega ekki getað gert þetta betur. Það var bara flott að vera með John í horninu. Mér skilst að hann hafi kallað í Hrólf  að segja eitthvað við mig þannig að ég heyrði aldrei í honum. Ég fékk samt mjög góðar leiðbeiningar frá Hrólfi, það var bara mjög fínt.“

Björn Lúkas kláraði þrjá bardaga á mótinu með armlás og var ekki langt frá því að ná lásnum nokkrum sinnum í bardaganum. „Mér fannst ég ná honum í hverri einustu lotu næstum því í armbar, allavegna í 2. eða 1. lotu. Mér fannst ég vera svona 99% með þetta. Ég talaði líka við hann [Khaled Laallam] eftir bardagann og hann sagði að ég hefði verið mjög nálægt því að klára enda sagði hann að olnboginn sinn væri að bólgna upp. En hann var bara seigur og flottur náungi,“ segir Björn en þeir áttu gott spjall eftir bardagann.

Tap í úrslitum hjá Birni Lúkasi í dag eftir harðan bardaga. Björn Lúkas barðist eins og hetja í bardaganum, reyndi að finna armbarinn en það tókst ekki í þetta sinn. Hann átti einfaldlega magnaða frammistöðu á mótinu, kláraði fjóra bardaga í fyrstu lotu og kemur heim reynslunni ríkari með silfur í farteskinu. Fór líka í fyrsta sinn allar þrjár loturnar og það verður dýrmæt reynsla. Hérna sjáum við hann ásamt andstæðingnum sínum skömmu eftir bardagann, ekkert nema virðing á milli þeirra! Til hamingju Björn Lúkas og til hamingju Khaled Laallam! / Björn Lúkas with his silver medal at the IMMAF Worlds Championships. Björn Lúkas fought bravely at the finals today but couldn’t get the finish like he has done in all of his fights so far. This whole tournament was without a doubt a massive learning experience for Björn Lúkas and he will continue to improve like a true martial artist. Nothing but respect between the two competitors in the finals. Khaled Laallam fought brilliantly today and deserved the gold. Congrats! #immaf #immafworldchampionships #immafworldchampionship2017 #mma

A post shared by Mjölnir (@mjolnirmma) on

Björn er núna 6-1 sem áhugamaður en fram að úrslitabardaganum hafði hann klárað alla bardaga sína í fyrstu lotu. Björn fór því allar þrjár loturnar í fyrsta sinn í MMA í gær. „Þetta var bara eins og við var að búast. Ég hef keppt mikið í taekwondo og þar eru líka 3 x 3 mínútur og upplifunin var í raun bara sú sama. Mér fannst ég ekki vera búinn á því eftir 1. lotuna og var alveg með góða orku í þetta. Þetta fer bara í reynslubankann.“

IMMAF (International MMA Federation) stóð að mótinu og var Björn Lúkas afar ánægður með allt í kringum mótið en Birni var boðið út á mótið af Ólympíuráði Barein og MMA sambandi landsins. Mótshaldarar vildu fá Íslending á mótið og var þetta einstök upplifun fyrir Suðurnesjastrákinn.

„Þetta var bara æðislegt, séð rosalega vel um okkur, tekið á móti okkur upp á flugvelli og svona. Fimm stjörnu hótel, maður hefði ekki getað giskað á að þetta væri áhugamannamót. Bardagarnir sjálfir, þótt ég hafi ekki endað á að vinna í úrslitum er ég mjög ánægður með frammistöðuna mína og maður sér að maður á alveg heima hérna með þeim bestu. Ég geng frá þessu sáttur.“

„Landið kom líka á óvart. Maður var að búast við að þetta yrði mjög strangt og kannski smá fordómafullt. En það eru allir búnir að vera svo góðir og indælir við okkur. Hitinn kannski nokkrum gráðum of heitt fyrir mann en þetta er æðislegt að vera hérna. Fólkið hérna líka, þetta er ekkert eins strangt og var verið að vara mann við. Maður sér alveg konur í venjulegum fötum og ekki í þessum búrkum, allir að heilsa okkur og fíflast í okkur líka og bara mjög almennilegir við okkur.“

Björn Lúkas hefur horft á úrslitabardagann aftur líkt og hann gerði með alla bardagana á mótinu. „Ég horfði á hann strax eftir bardagann eins og ég gerði með alla hina bardagana mína. Hann var ákveðnari í þessu. Mér fannst ég alveg standa í honum. Þetta var ekkert rúst, ég náði honum niður, ég næ höfuðsparki og átti mín augnablik. Hann var samt klárlega sigurvegari bardagans en mér fannst ég vinna 1. lotuna en hann var bara ákveðnari og betri þennan dag.“

Íslenskir bardagamenn sem hafa áður keppt á þessum IMMAF mótum hafa talað um hve erfitt það er að keyra sig í gang í næsta bardaga eftir að hafa tekið nokkra bardaga á nokkrum dögum. Björn fann hins vegar ekki fyrir þessari andlegu þreytu sem búið var að vara hann við.

„Það var eiginlega ekkert mál að keyra sig upp í næsta bardaga. Ég var búinn að heyra viðvaranir frá öðrum sem voru búnir að fara í gegnum svona mót að þetta væri voðalega erfitt andlega en mér í rauninni fannst það ekki. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af þyngdinni, ég og Hrólfur vorum bara í góðum gír mikið að fíflast og ekki að stressa okkur upp við þetta. Vorum komnir með ágætis rútínu á þetta og vorum aldrei að spá mikið í bardögunum nema rétt fyrir svefn en þá skoðuðum við andstæðinginn.“

Á hótelinu í Barein var glæsilegt kökuhlaðborð sem Björn Lúkas þurfti að láta sér nægja að horfa á. Hrólfur Ólafsson sá þó um að borða kökurnar á meðan Björn Lúkas horfði á með öfund. Eftir keppnina stóð til að ganga í kökublaðborðið en það gekk því miður ekki eftir.

„Eftir úrslitin seinkaði rútunni okkar og biðum við heillengi í kyrrstæðri rútu. Ég sofnaði samt en þegar ég vaknaði voru allir brjálaðir og ég skil ekkert hvað var í gangi. Rútubílstjórinn vissi ekkert hvert hann átti að fara, talaði enga ensku og það tók okkur tvöfalt eða þrefalt lengur að komast aftur upp á hótel. Þegar við komum svo loks upp á hótel voru allar kökurnar búnar þannig að ég fæ bara einhverja afgangs bita. En jú, það var mjög gott að fá sér köku þó ég hafi ekki fengið þessar góðu kökur sem Hrólfur var með, þær voru búnar. Það var eiginlega mesta svekkelsið í ferðinni,“ segir Björn Lúkas að lokum.

Strákarnir halda nú í tæplega sólarhrings ferðalag heim til Íslands og lenda um 17 leytið á morgun. Hinn 22 ára Björn Lúkas getur vel við unað eftir frábæra frammistöðu á mótinu. Hann á bjarta framtíð fyrir sér í MMA og hefur hann nú stimplað sig inn sem eitt af nöfnunum sem íslenskir bardagaáhugamenn verða að fylgjast með.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular