Brynjar Örn Ellertsson úr Mjölni nældi sér í fern verðlaun á Berlin Open í brasilísku jiu-jitsu í gær.
Brynjar keppti í +100,5 kg flokki, 30-35 ára fjólublábeltinga. Keppt var bæði í galla (gi) og án galla (nogi) í gær.
Í galla nældi Brynjar sér í tvöfalt gull. Hann fékk sjálfkrafa gull í sínum flokki þar sem hann var sá eini sem skráður var í flokknum en fékk þrjár glímur í opna flokki fjólublábeltinga og tók gullið þar.
Í nogi hluta mótsins fékk hann tvöfalt silfur. Hann tapaði glímunni sinni í sínum þyngdarflokki og fékk svo fjórar glímur í opna flokkinum þar sem hann fór alla leið í úrslit. Í úrslitum mátti hann sætta sig við tap en getur vel við unað eftir helgina eftir átta glímur og fern verðlaun á einum degi.