Diego Björn Valencia er óvænt kominn með bardaga í Færeyjum á laugardaginn. Bardaginn verður aðalbardagi kvöldsins en andstæðingur hans er með 90 bardaga að baki!
Diego Björn Valencia (1-1) hefur ekkert barist síðan í maí í fyrra. Þá tapaði hann í sínum öðrum atvinnubardaga eftir klofna dómaraákvörðun í Danmörku.
Bardaginn á laugardaginn fer fram á North Atlantic Fight Night kvöldinu í Færeyjum. Upphaflega átti heimamaðurinn Fróði Hanson að mæta Shaun Lomas í aðalbardaga kvöldsins en nú hefur hann þurft að draga sig úr bardaganum. Diego kemur því inn með tæplega tveggja daga fyrirvara.
Andstæðingur hans, Shaun Lomas (22-68), er gífurlega reyndur. Hann er breskur og hefur barist við UFC bardagamenn á borð við Jimi Manuwa, Claudio Henrique da Silva, Jack Marshman, Jimmy Wallhead og Danny Roberts. Þá eru þekkt nöfn á borð við Liam McGeary (fyrrum léttþungavigtarmeistari Bellator), Scott Askham (var nýlega í UFC) og Danny Mitchell (var í UFC og mætti Gunnari Nelson 2010) á ferilskránni hans en ekki hefur honum vegnað vel gegn þessum köppum.
Bardaginn fer fram í léttþungavigt (93 kg) en Lomas er afar duglegur að berjast. Í fyrra tók hann 15 bardaga og sjö bardaga árið 2015.
Það verða því fjórir Íslendingar á bardagakvöldinu í Færeyjum eftir allt. Þeir Björn Lúkas Haraldsson, Þorgrímur Þórarinsson og Bjartur Guðlaugsson berjast einnig í Færeyjum á sama kvöldi á laugardaginn en bardagi Björns Þorleifs datt út á dögunum.