spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÞrumuræða frá Conor McGregor fékk Þorgrím til að vilja keppa í MMA

Þrumuræða frá Conor McGregor fékk Þorgrím til að vilja keppa í MMA

Þorgrímur Þórarinsson
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Þorgrímur Þórarinsson mun keppa sinn fyrsta MMA bardaga í Færeyjum á laugardaginn. Við spjölluðum við hann um bardagann, hvers vegna hann vill keppa í MMA og fleira.

Bardaginn fer fram í veltivigt og mætir Þorgrímur Ola Jacobsson (2-2). Þorgrímur hefur æft í Mjölni í nokkur ár en var áður í handbolta og hefur í raun ekki ennþá hætt í handboltanum þrátt fyrir að hafa ekki mætt á æfingu lengi.

„Ég var alltaf í öðrum íþróttum þegar ég var yngri og gekk mjög vel í þeim svo bardagaíþróttir voru aldrei neitt sem ég spáði mikið í. Ég var heldur ekki mikill slagsmálahundur sem krakki svo ég sá aldrei þörfina. Það var ekki fyrr en ég var svona 16-17 ára og sá Youtube klippu af Fedor [Emelianenko] sem ég vissi hvað MMA yfir höfuð var,“ segir Þorgrímur.

„Mér fannst strax eitthvað ótrúlega sexy við þetta sport en hélt bara að þetta væru einhverjir brjálaðir Rússar að murka hvern annan. Svo fór ég að heyra af einhverjum íslenskum strákum eins og Árna Ísaks og Gunna Nelson sem væru að keppa í þessu úti og að gera góða hluti. Ég fór að fylgjast með þeim en var samt sjálfur á fullu í handbolta á þessum tíma og var ekkert að spá í að byrja að æfa aðra íþrótt.“

„Haustið 2012 eða 2013 var ég búinn að vera í stanslausu meiðslaveseni og gat ekkert spilað handbolta svo ég prufaði að mæta á boxæfingu hjá Skúla Ármanns í gamla Jakabóli. Mér fannst það geggjað og ákvað að prufa að æfa MMA líka, fyrst ég gæti hvort eð er ekkert verið með á handboltaæfingum. Ég bjó steinsnar frá Mjölni svo það kom ekkert annað til greina en að byrja þar, fyrst í þrekinu, svo í BJJ og svo koll af kolli. Þegar ég var orðinn góður af þessum meiðslum fann ég mér alltaf afsakanir til að fresta því að mæta aftur á handboltaæfingu. Ég hætti eiginlega aldrei í handbolta, ég er bara ekki ennþá búinn að mæta aftur á æfingu eftir þessa pásu.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Eins og áður segir verður þetta fyrsti MMA bardagi Þorgríms. Hann er blátt belti i brasilísku jiu-jitsu og fyrir utan nokkur glímumót hefur hann litla keppnisreynslu úr bardagaíþróttum. En hvað er það við MMA sem heillar?

„Síðan ég sá fyrstu Youtube-klippuna af Fedor hefur mig langað í þetta. Fyrir mér er MMA konungur allra íþrótta. Ég elska íþróttir og hef stundað þær frá blautu barnsbeini en það er eitthvað við MMA sem aðrar íþróttir hafa ekki. Þetta hittir á eitthvað eðli sem ég held að sé í okkur öllum – okkur er bara kennt að bæla það niður. Ég er mikill keppnismaður og elska að keppa, svo það var í raun eðlileg þróun á þessu ferðalagi hjá mér.“

Conor McGregor hefur nokkrum sinnum dvalið hér á landi við æfingar og gerði það áður en hann komst í UFC. Conor er mörgum mikil hvatning og má segja að hann hafi haft mikil áhrif á Þorgrím.

„Það var eiginlega Conor McGregor sem olli því að ég ákvað að elta þetta. Þegar ég var nýbyrjaður að æfa var hann hérna á Íslandi að undirbúa sig fyrir sinn síðasta bardaga í Cage Warriors og var að þjálfa Kickbox 201 tíma í Mjölni. Í lok tímans hélt hann ástríðufulla ræðu um að allt sé undir sjálfum manni komið og að það sé ekkert annað en maður sjálfur sem stöðvi mann frá því að ná markmiðum sínum, sama hver þau séu. Á þessum tíma vissi enginn hver hann var en það var einhver orka í honum sem hreif mig. Mér fannst hann horfa á mig þegar hann var að tala og ég tók þetta sérstaklega til mín. Það var stundin sem ég ákvað að kýla á þetta. Hann man sennilega ekkert eftir þessu en ég gleymi þessu seint.“

Það er afar sérstök reynsla að margra mati að keppa sinn fyrsta MMA bardaga. Sumir segja að tilfinningarnar séu ólýsanlegar en Þorgrímur er afar spenntur fyrir því að taka þetta skref.

„Þetta verður risastór áfangi fyrir mig, ákveðin tímamót og smá fjarstæðukennt þegar ég spái í því. Þegar ég byrjaði í þessu man ég að mér fannst þetta mjög óraunhæft markmið að keppa í MMA. Það kennir mér að óraunhæf markmið eru raunhæf ef ég legg allt í þau. Annars er ég fullur tilhlökkunnar og mjög spenntur.“

Upphaflega áttu fjórir Íslendingar að keppa á bardagakvöldinu í Færeyjum á laugardaginn. Andstæðingur Björns Þorleifs datt út og er óhætt að segja að mikið bras hafi verið á bardögum strákanna enda allir fengið nýjan andstæðing.

„Ég held að menn séu smá smeykir við að keppa við okkur úr Mjölni því enginn okkar er að fara að berjast við upprunalega andstæðinginn sinn. Ég ákvað að vera ekkert að skoða andstæðinginn minn fyrir þetta og hef bara einbeitt mér að mínum æfingum svo það hafði í raun engin áhrif á mig að fá nýjan andstæðing. Æfingarnar hafa gengið mjög vel. Ég er mjög sáttur með hvernig mér hefur tekist að tækla þau vandamál sem komið hafa upp og kem inn í þetta verkefni ferskur og klár. Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt ferli.“

Þorgrímur var að eigin sögn aðeins of þungur þegar hann fékk bardagann en hefur tekið af sér 10 kg jafnt og þétt á sex vikum. Hann er ekki með neitt sérstaka leikætlun fyrir bardagann og ætlar að spila þetta eftir eyranu.

„Minn helsti styrkleiki er hausinn. Ef ég vil fara í gólfið, förum við í gólfið. Ef ég vil standa, þá erum við að fara að standa. Ég ætla að spila þetta eftir hendinni og láta honum líða illa með mér í búrinu. Ég ætla ekki að spá of mikið í hlutunum og sleppa af mér beislinu þegar við erum komnir í búrið. Ég vona að hann sé góður fighter og að hann mæti jafn tilbúinn og ég, þá verður þetta veisla,“ segir Þorgrímur að lokum.

Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular