Wednesday, April 17, 2024
HomeForsíðaÁ diskinn minn: Bjarki Þór Pálsson

Á diskinn minn: Bjarki Þór Pálsson

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Bjarki Þór Pálsson er 28 ára bardagamaður úr Mjölni. Hann stefnir á að taka sinn fyrsta atvinnumannabardaga í haust en við fengum að skyggnast inn í mataræðið hans.

Á diskinn minn er nýr liður hjá okkur en þar fáum við að forvitnast um mataræðið hjá bardagafólkinu okkar. Bardagafólkið okkar leggur gríðarlega hart að sér á æfingum og til þess að hægt sé að æfa svo mikið þarf mataræðið að vera í lagi.

Bjarki Þór Pálsson (6-1) mun berjast sinn fyrsta atvinnumannabardaga í haust en hann hefur barist sjö áhugamannabardaga.

„Ég er kominn með pláss á bardagakvöldi sem heitir FCC. Þetta verður fyrsti atvinnumannabardaginn minn og fer fram þann 17. október. Ég á eftir að fá andstæðing en ég er byrjaður að létta mig og koma mér í hrikalegt form. Ég ætla bara að vera tilbúinn í það sem mér býðst og vonandi gengur það eftir.“ segir Bjarki um sinn næsta bardaga.

Hvernig er mataræðið þitt svona dags daglega?

Ég byrja morgnana á tveimur stórum vatnsglösum, tek vítamínin mín og BCAA amínósýrur. Svo borða ég hafragraut með kókosolíu, kanil, möndlumjólk og stundum banana eða bláber. Stundum fæ ég mér bara Cheerios eða Weetabix. Klukkan 10 fæ ég mér tvö egg eða próteinshake og banana eða einhvern ávöxt. Eftir hádegisæfinguna fer ég á Gló þar sem ég fæ mér yfirleitt kjúkling, hrísgrjón og vel af grænmeti en tek líka skot af ólífuolíu. Klukkan 14 fæ ég mér próteinstykki eða epli og um 16 leitið vil ég oft fá mér hafragrautinn aftur fyrir æfingu þar sem mér finnst hann svo góður. Í kvöldmat fæ ég mér bara hvað sem er en reyni að hafa kolvetnin í lágmarki. Svo áður en ég fer að sofa fæ ég mér Casein prótein frá USN, magnesíum og sink og stundum melatónín ef ég vil rotast eftir erfiðan dag.

Hvað reyniru að borða mikið af?

Ég reyni að borða mikið af hollum mat og drekka mikið af vatni. Það er mjög mikilvægt fyrir þá sem æfa mikið enda mikið power í vatninu.

Hvernig breytist mataræðið þegar þú ert kominn með bardaga?

Ég byrja á því að minnka skammtana og fæ mér bara einu sinni á diskinn í hvert sinn. Svo minnka ég kolvetnin og borða bara kolvetni fyrir æfingu en allar aðrar máltíðir samanstanda af próteini og fitu. Svo passa ég að borða á tveggja tíma fresti og borða snemma á morgnana til að koma brennslunni í gang.

Hvar finnst þér best að borða þegar þú borðar ekki heima hjá þér?

Gló! Og hjá pabba Hörpu [kærasta Bjarka], hann er ítalskur og gerir svo góðan mat. Svo finnst mér einnig pizzurnar á Gullöldinni rosalega góðar, margir vilja meina að þær séu þær bestu í heimi.

pizza
Einn af uppáhalds réttunum hans Bjarka.

Uppáhalds rétturinn hans Bjarka er svo kölluð heilsupizza. Kíkjum á uppskriftina.

Spelt pizza – uppskrift fyrir fjóra

 250 g gróft spelthveiti

3 teskeiðar lyftiduft

Dass af salti

2 matskeiðar ólífu olía

140 ml heitt vatn

1/2 dl graskersfræ

1/2 dl sesamfræ

1/2 dl sólblómafræ

Pizzusósa

1 dós af niðurskornum tómötum (mæli með frá Euroshopper, mjög góðir)

Salt

Pizzakrydd

Aðferð

Blandið þurrefnunum í skál

Bætið við olíu og vatni

Hrærið deigið saman og hnoðið smá en alls ekki of lengi því þá verður það of seigt. Fletjið það svo út með kökukefli svo það verði ca 5 mm á þykkt.

Bakið svo botninn í 5 mínútur á 200° áður en áleggið og osturinn er sett á

Svo má setja hvaða álegg sem maður vill á pizzuna en mér finnst gott að setja kjúkling og grænmeti. Svo þegar áleggin eru komin á þá er pizzan sett aftur inn í ofn þangað til osturinn er bráðnaður.

Er þetta réttur sem þú myndir borða ef þú værir að undirbúa þig fyrir bardaga?

Já ég myndi leyfa mér að borða hann á laugardögum. Mjög einfalt og fljótlegt að gera þetta.

Eitthvað að lokum?

Mig langar að þakka styrktaraðilum mínum: Lögmenn Sundagörðum, Lögmannsstofa Sævars Þórs Jónssonar, USN Iceland, Gló, Óðinsbúð, Kraftafl, Gullöldin, Jarðtækni og Rvkhair. Án þeirra væri þetta mun erfiðara.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular