spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaEinn sigur og þrjú töp á Ambition Fight Series

Einn sigur og þrjú töp á Ambition Fight Series

Ambition Fight Series fór fram í London fyrr í kvöld. Þar voru fjórir keppendur frá Reykjavík MMA og Mjölni að keppa.

Jhoan Salinas (0-0 fyrir bardagann) úr Reykjavík MMA var fyrstur af fjórmenningunum en hann mætti Bernardo Lopez (0-1 fyrir bardagann) í millivigt. Lopez var hærri og með töluvert lengri faðm en Jhoan. Jhoan náði samt að komast inn fyrir faðminn og í fellu þar sem faðmlengdin skipti ekki eins miklu máli. Í gólfinu var Jhoan ofan á með þung högg og tók klárlega 1. lotuna.

Snemma í 2. lotu kýldi Jhoan andstæðinginn niður með flottum hægri krók beint á kjammann sem felldi Lopez. Jhoan fylgdi Lopez eftir í gólfið með tveimur höggum en dómarinn stöðvaði bardagann og sigraði Jhoan því sinn fyrsta MMA bardaga með rothöggi í21. lotu. Virkilega vel gert hjá Jhoan Salinas.

Dagmar Hrund Sigurleifsdóttir (2-2 fyrir bardagann) mætti Melissa Mullins (4-3 fyrir bardagann) í áhugamannabardaga. Mullins byrjaði af miklum krafti og var strax farin að lenda höggum. Mullins hélt áfram að lenda góðum höggum og bakkaði Dagmar að búrinu. Þar lét Mullins allt vaða og kýldi Dagmar niður að lokum og stöðvaði dómarinn bardagann eftir 1:15 í 1. lotu.

Jón Ingi Ástþrúðarson (1-1 fyrir bardagann) mætti Ethan Charlton (1-0 fyrir bardagann) í veltivigt. Það var hátt tempó í bardaganum frá fyrstu sekúndu og sótti Jón Ingi meira. Jón Ingi var að hitta vel en það voru einnig mörg högga hans sem voru ekki að hitta. Jón Ingi náði fellu og þar var Charlton hársbreidd frá því að ná armlás af bakinu en 1. lotan kláraðist þegar Charlton virtist vera með armlásinn.

Í 2. lotu hélt Jón Ingi sama hraða en Charlton svaraði betur fyrir sig standandi. Charlton náði nokkrum skrokkhöggum og þar á meðal góðu framsparki í skrokkinn. Jón Ingi virkaði þreyttur á þessum tímapunkti en Charlton gaf enn betur í og stöðvaði dómarinn bardagann eftir 1:25 í 2. lotu. Skemmtilegur og sveiflukenndur bardagi en Jón Ingi er aðeins 18 ára gamall.

Kári Jóhannesson (1-1 fyrir bardagann) var síðastur af fjórmenningunum en hann mætti Jonas Grace (3-2 fyrir bardagann) í veltivigt. Grace var töluvert hærri en Kári og pressaði Kára upp að búrinu snemma. Þar lét hann nokkur góð hné vaða í skrokkinn á Kára en Kári snéri stöðunni við og ýtti Grace upp að búrinu. Þar virtist Kári fara á hnén til að reyna fellu en Grace greip um hálsinn með löngum handleggjum sínum og læsti „guillotine“ hengingu. Kári barðist eins og hann gat til að losna undan hengingunni en Grace skipti yfir í D’Arce hengingu og þurfti Kári að lokum að tappa út eftir 1:24 í 1. lotu.

Fyrr í kvöld unnu þeir Magnús ‘Loki’ Ingvarsson og Aron Leó Jóhannsson sína bardaga á Vision MMA Combat.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular