spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaEinn sigur og tvö töp í Liverpool

Einn sigur og tvö töp í Liverpool

Mynd: Af Instagram reikningi Mjölnis. Bjarki Ómarsson ánægður með sigurinn í gær.
Mynd: Af Instagram reikningi Mjölnis. Bjarki Ómarsson ánægður með sigurinn í gær.

Þeir Bjarki Ómarsson, Magnús Ingi Ingvarsson og Birgir Örn Tómasson börðust í gær á Shinobi War 4 bardagakvöldinu í Liverpool. Einn sigur og tvö töp er niðurstaða gærkvöldsins.

Allt voru þetta harðir bardagar og finna kapparnir fyrir smá eymslum í dag eftir átök gærkvöldsins. MMA Fréttir sló á þráðinn til Jóns Viðars Arnþórssonar, formann Mjölnis, sem með var í för og fékk ítarlega lýsingu á bardögunum.

Bjarki Ómarsson fór gegn hinum reynda Danny Randolph en þetta var 13. bardaginn hans Randolph. Randolph var nautsterkur, mjög höggþungur og mjög árásargjarn. Bjarki átti hins vegar frábæra frammistöðu og vann allar loturnar. Bjarki var sérstaklega öflugur þegar hann náði að halda fjarlægðinni en náði sjálfur tveimur mjög öflugum fellum þar sem hann lyfti Randolph hátt upp og skellti honum fast niður. Í gólfinu hafði Bjarki mikla yfirburði. Randolph sló eins og sleggja og sótti hart en Bjarki hélt ró sinni og nýtti sér yfirburði sína – flott prófraun fyrir þennan tvítuga strák.

Í 3. lotu var Bjarki kominn í virkilega gott flæði, hélt fjarlægðinni vel og kom með góð spörk. Bjarki sigraði allar þrjár loturnar og sigraði eftir einróma dómaraákvörðun. Á myndinni hér að ofan blæðir úr Bjarka en höfuð þeirra skullu saman í fyrstu lotunni og fékk Bjarki skurð á augabrúninni.

maggi og barnett
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson. Magnús Ingi og Tim Barnett.

Næstur inn var Magnús Ingi Ingvarsson en hann mætti hinum ósigraða Tim Barnett. Magnús byrjaði bardagann mjög vel, kom með góð högg í fyrstu lotu og fín lágspörk. Hann náði nokkrum höggum í höfuðið og einni fellu og sigraði fyrstu lotuna örugglega.

Það sama var uppi á teningnum í 2. lotu þangað til Magnús fékk þungt hné í kinnbeinið. Eftir það var Magnús passasamur en reyndi þó að fara í fótalás sem gekk ekki. Barnett kláraði lotuna ofan á Magnúsi þar sem hann náði inn þungum hamarshöggum á sama augað. Magnús var hættur að sjá með öðru auganu og ákvað Magnús og hornið að hætta áður en 3. lotan byrjaði.

Fyrsta tap Magnúsar á áhugamannaferlinum en ljóst að þetta er reynsla sem mun nýtast honum í framtíðinni og mun Magnús koma sterkari til baka.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson. Birgir Örn og Gavin Hughes.

Síðasti bardagi kvöldsins var titilbardagi í léttvigtinni þar sem Birgir Örn Tómasson mætti heimamanninum Gavin Hughes. Birgir stóð sig mjög vel gegn mjög sterkum andstæðingi. Birgir sótt hart fram og átti mörg þung högg í höfuð Hughes, tókst að vanka hann en náði ekki að rota hann. Birgir átti mörg góð högg svo sem upphögg, bein hægri í nokkur skipti, flott hné og fleira en háir smellir heyrðust um salinn eftir þung högg Birgis. Hughes var mjög harður og þarf greinilega mikið til að klára hann.

Í þessum fimm lotu bardaga náði Hughes að taka Birgir niður nokkrum sinnum án þess þó að gera nokkurn skaða. Fellur skoruðu meira en skaði hjá dómurunum og sigraði Gavin Hughes eftir einróma dómaraákvörðun. Hughes leit illa út í andlitinu eftir bardagann á meðan ekkert sást á Birgi. Birgir var einungis með smá verki í höndunum eftir að hafa kýlt andstæðing sinn.

Felluvörn Birgis var mjög góð og náði hann alltaf að standa aftur upp eftir fellur Hughes. Þrátt fyrir fimm lotu bardaga sáust ekki þreytumerki á Birgi og var þetta frábær reynsla fyrir hann.

Á heildina litið var þetta góð helgi fyrir Keppnislið Mjölnis enda voru þetta allt mjög erfiðir bardagar gegn reyndum anstæðingum. Bardagamennirnir þrír geta lært talsvert af bardögum sínum og koma eflaust enn sterkari til leiks næst. Eins og John Kavanagh, yfirþjálfari SBG í Írlandi, hefur oft sagt, „Either you win, or you learn“.

Þess má geta að Mjölnir er komið með Snapchat aðgang undir nafninu mjolnirmma, en þar geta bardagaaðdáendur fylgst með því sem gerist bakvið tjöldin.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular