Vandræði Johny Hendricks halda enn á ný áfram. Í dag mistókst honum að ná vigt fyrir sinn annan bardaga í millivigt.
Johny Hendricks mætir Tim Boetsch á UFC bardagakvöldinu í Oklahoma annað kvöld. Formlega vigtunin fór fram í morgun og þar var Johny Hendricks enn á ný of þungur. Hendricks var 188 pund á vigtinni (hámarkið í millivigtinni eru 186 pund) og er þetta í fjórða sinn sem Hendricks mistekst að ná tilsettri þyngd í UFC.
Fyrrum veltivigtarmeistarinn Johny Hendricks var í miklu basli með að ná veltivigtartakmarkinu og eftir tvær misheppnaðar tilraunir til að ná 170 pundunum ákvað hann að fara upp í millivigt. Þar leit hann ágætlega út þegar hann sigraði Hector Lombard í febrúar.
Hveitibrauðsdagarnir eru greinilega liðnir enda var Hendricks of þungur áðan. Hendricks fer í þann vafasama heiður að vera einn af fjórum bardagamönnum sem nær ekki þyngd í tveimur mismunandi þyngdarflokkum. Áður höfðu þeir John Lineker, Charles Oliveira og Anthony Johnson náð því afreki.
Johny Hendricks joins John Lineker and Charles Oliveira as UFC fighters to miss weight in two different divisions. Congratulations.
— Mike Bohn (@MikeBohnMMA) June 24, 2017
Þetta lítur ekki vel út fyrir Hendricks en hann hefur íhugað að leggja hanskana á hilluna. Spurning hvert framhaldið hjá honum verði eftir bardagann annað kvöld.