Þegar stór bardagasamtök á borð við UFC, Pride og Strikeforce hafa tilkynnt risabardaga verða aðdáendur umsvifalaust gríðarlega spenntir. Einhverjir af þessum bardögum hafa ekki náð að standa undir væntingum eins og þriðji bardaginn milli Tim Sylvia og Andrei Arlovski, Jon Jones gegn Rashad Evans og fleiri en í dag ætlum við hins vegar að líta á þá bardaga sem stóðu undir væntingum aðdáenda.
5. Ronda Rousey gegn Miesha Tate 2 – UFC 168
Fyrri bardagi þeirra endaði eftir að Rousey braut höndina á Tate og kom þessi bardagi í kjölfarið á TUF 18 þar sem Rousey og Tate þjálfuðu andspænis hvor annarri. Það voru gríðarleg illindi milli þeirra í TUF seríunni og var bardagans beðið með mikilli eftirvæntingu. Rousey sigraði eftir “armbar” í 3. lotu en eftir bardagann neitaði Rousey að taka í hönd Tate og hlaut mikið last fyrir mikið. Bardaginn var frábær skemmtun og gaman að sjá smá drama eftir bardagann.
4. Robbie Lawler gegn Johny Hendricks – UFC 171
Endurkoma Lawler árið 2013 var ótrúleg og mætti hann Johny Hendricks um veltivigtartitilinn í mars á þessu ári. Bardagans var beðið með mikilli eftirvæntingu og má segja að bardaginn hafi farið fram úr væntingum manna. Hendricks sigraði eftir dómaraákvörðun í einum jafnasta og mest spennandi titilbardaga allra tíma. Þeir munu nú endurtaka leikinn í desember og berjast aftur um titilinn á UFC 181.
3. Chuck Liddell gegn Tito Ortiz 2 – UFC 66
Liddell og Ortiz elduðu lengi saman grátt silfur og mættust þeir tvisvar á ferlinum. Í seinna skiptið börðust þeir um léttvigtartitil UFC þann 30. desember 2006. Báðir voru á hátindi ferils síns og keyptu yfir milljón heimili UFC 66 bardagakvöldið. Liddell sigraði eftir tæknilegt rothögg í 3. lotu og náði bardaginn fyllilega að standa undir væntingum aðdáenda.
2. Cro Cop gegn Fedor Emelianenko – Pride Final Conflict 2005
Þarna mættust tveir af bestu þungavigtarmönnum sögunnar á hátindi ferils síns. Aðdáendur höfðu lengi beðið eftir að fá að sjá þessa tvo kappa mætast í hringnum. Það leit út fyrir að þeir myndu mætast árið 2004 í Pride Heavyweight Grand Prix en Cro Cop var óvænt rotaður af Kevin Randleman í fyrstu umferð. Randleman mætti því Emelianenko og sigraði Rússinn þar þrátt fyrir að Randleman hafi kastað Emelianenko á hausinn snemma í bardaganum. Eftir vonbrigðin árið 2004 mættust þeir árið 2005 í titilbardaga í þungavigtinni. Bardaginn reyndist frábær og var valinn bardagi ársins 2005. Emelianenko stóð uppi sem sigurvegari og vakti það mikla athygli að Emelianenko hafi staðið allan tíman með sparkboxaranum Cro Cop og haft betur.
1. Chuck Liddell gegn Wanderlei Silva – UFC 79
Þegar Chuck Liddell fór frá UFC til Pride árið 2003 var það nánast einungis til að berjast við einn mann, Wanderlei Silva. Þeir voru báðir í 8-manna útsláttarkeppni Pride árið 2003 og hefðu getað mæst í úrslitum. Því miður fyrir bardagaaðdáendur mætti Liddell Rampage Jackson og tapaði í undanúrslitunum. Ekkert varð úr bardaganum fyrr en árið 2007 þegar Wanderlei Silva kom í UFC. Þrátt fyrir að báðir hafi verið farnir að dala á þeim tíma breytti það ekki eftirvæntingu aðdáenda. Bardaginn stóð algjörlega undir væntingum og var besti bardagi ársins 2007. Þetta var stórkostlegt þriggja lotu stríð milli tveggja goðsagnarkenndra bardagamanna. Liddell sigraði eftir dómaraákvörðun og var það síðasti sigur hans á ferlinum.
Jones vs Gustafsson á klárlega heima þarna