Friday, March 29, 2024
HomeErlentFöstudagstopplistinn: 5 stærstu stjörnuhröp áratugarins

Föstudagstopplistinn: 5 stærstu stjörnuhröp áratugarins

Leiðin á toppin er löng og ströng en svo virðist sem fallið sé stundum stutt og hratt. Í þessum Föstudagstopplista skoðum við fimm stærstu stjörnuhröpin í MMA.

Á þessum lista einblínum við helst á áratuginn frá 2010 til 2019. Auðvelt væri að bæta við mönnum eins og Chuck Liddell, Miguel Torres og Rashad Evans á listann en hér skoðum við þá sem fallið hafa mest á síðustu 10 árum.

5. Luke Rockhold

Rockhold var millivigtarmeistari eftir sigur á Chris Weidman 2015 og töldu margir að hann myndi ríkja lengi yfir millivigtinni. Hann átti að mæta Weidman aftur í hans fyrstu titilvörn en tveimur vikum fyrir bardagann meiðist Weidman. Inn kemur Michael Bisping sem Rockhold hafði sigrað auðveldlega 18 mánuðum fyrr. Bisping tókst hið ótrúlega og rotaði Rockhold í 1. lotu. Einhver óvæntustu úrslit í sögu MMA. Síðan þá hefur Rockhold verið skugginn af sjálfum sér. Hann náði sigri gegn David Branch en tvö töp í röð eftir rothögg gegn Yoel Romero og Jan Blachowicz virðist hafa sett naglann í kistuna hjá Rockhold. Nýr þyngdarflokkur breytti litlu og er hann líklegast hættur í MMA.

Chris weidman luke rockhold
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

4. Chris Weidman

Millivigtarmeistari 2015 en síðan þá tapað fimm af sex síðustu bardögum sínum – allt eftir rothögg. Líkt og Rockhold hefur Weidman fallið hratt niður. Eftir þrjár titilvarnir í millivigtinni veltu bardagaaðdáendur því fyrir sér hvort Weidman gæti orðið einn sá besti í sögunni ef hann myndi vinna næstu þrjá áskorendur; Luke Rockhold, Yoel Romero og Jacare Souza. Það gerðist ekki enda hefur hann tapað fyrir þeim öllum. Væri Weidman á sama stað í dag ef hann hefði ekki tekið þetta misheppnaða snúningsspark í titilbardaganum gegn Luke Rockhold?

Johny Hendricks ekki í toppformi.

3. Johny Hendricks

Ævintýri Johny Hendricks á seinni árum ferilsins voru kostuleg. Hendricks var hársbreidd frá því að vinna Georges St. Pierre á sínum tíma og má vel færa rök fyrir því að hann hafi unnið þann bardaga. Hendricks nældi sér síðan í titilinn með sigri á Robbie Lawler en tapaði honum svo til Lawler. Síðan hann tapaði titlinum vann hann bara tvo bardaga en tapaði fimm. Auk þess virtist hann eiga erfitt með mataræðið og náði ekki vigt tvisvar í veltivigtinni. Það varð til þess að hann fór upp í millivigt þar sem honum mistókst aftur að ná vigt! Hendricks var alltaf í vandræðum með mataræðið hjá sér – alveg frá dögum hans í háskólaglímunni. Sagan segir að þjálfarar hans í glímunni hafi oft rúntað um bæinn á kvöldin á helstu skyndibitastaði bæjarins til að gá hvort Hendricks væri nokkuð að svindla í mataræðinu. Eftir að hafa tapað fyrir Paulo Costa lagði hann hanskana á hilluna en tók einn Bareknuckle box bardaga sem hann tapaði. Sumir segja að USADA hafi leikið hann grátt en aðrir vilja meina að hann hafi bara verið saddur of snemma.

2. Renan Barao

Skrímslið í bantamvigtinni sem fór taplaus í gegnum 33 bardaga í röð. Renan Barao var á sínum tíma sagður einn sá besti pund fyrir pund í MMA. Hann var bantamvigtarmeistari og ríkti yfir flokknum í fjarveru Dominick Cruz. Ríkjandi meistarinn mætti efnilegum en hráum bardagamanni, T.J. Dillashaw, í maí 2014. Barao var mun sigurstranglegri hjá veðbönkum og töldu flestir að Dillashaw væri ekki tilbúinn í titilbardaga strax. Dillashaw lék sér að Barao og voru það einhver óvæntustu úrslit síðari ári. Síðan þá hefur Barao bara unnið tvo bardaga en tapað sjö! Þar af eru núna fimm töp í röð. Það er spurning hvort dagar Barao í UFC séu taldir en Barao er samt bara 32 ára gamall. Hvað gerðist eiginlega hjá Barao?

1. BJ. Penn

Léttvigtar- og veltivigtarmeistari á sínum tíma (þó ekki á sama tíma), með flestar titilvarnir í léttvigtinni og flest töp í röð í UFC. Penn hefur skrifað nafn sitt í sögubækurnar fyrir afrek sín en á líka vafasöm met. Hinn fertugi Penn hefur tapað sjö bardögum í röð og nú virðist tími hans hjá UFC loksins vera á enda. Penn átti að fá bardaga gegn Nik Lentz síðar á árinu en þegar myndbönd birtust af Penn í annarlegu ástandi í götuslagsmálum sagði Dana White hingað og ekki lengra. Penn virðist vera á mjög slæmum stað í dag en á sínum tíma var hann einn besti bardagamaður heims. Sjö töp í röð í UFC hjá Penn er eitthvað sem fáir bjuggust við að sjá þegar hann var upp á sitt besta.

Aðrir sem hefðu getað komist á listann: Gray Maynard, Josh Koscheck, Hector Lombard.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular