Vitor Belfort berst um millivigtartitil UFC annað kvöld gegn Chris Weidman. Þetta verður fimmti titilbardagi Vitor Belfort í UFC en á löngum ferli hans hefur hann gengið í gegnum ýmislegt. Hér förum við yfir hans helstu tímamót og augnablik.
Það er kannski erfitt að raða þessu í einhverja sérstaka röð og erfitt að segja hver hápunkturinn er á hans 19 ára ferli. Þessi fimm atriði standa upp úr að okkar mati á ferlinum hans.
5. Nýliðinn Belfort
Hinn 19 ára Vitor Belfort háði frumraun sína í UFC í febrúar 1997. Þar mætti 19 ára steraður strákur sem gjörsamlega pakkaði mótherjunum saman með sprengikraft og hraða sem aldrei áður hafði sést í UFC. Belfort sigraði sína fyrstu fjóra bardaga á rúmum þremur mínútum samanlagt – allt eftir rothögg. Á þessum tíma voru engir þyngdarflokkar og var Belfort því að rota stóra en óíþróttamannslega menn á borð við Tank Abbott og Scott Ferrozzo. Belfort mætti helskorinn og steinrotaði kallana og hrópaði svo “JIU JITSU! JIU JITSU” eftir bardagana. Þarna var á ferð íþróttamaður sem var á allt öðru getustigi en aðrir enda með gott box og gott jiu-jitsu.
Fyrsti UFC titill Belfort kom í raun á UFC 12 þegar hann sigraði einnar nætur útsláttarkeppni. Ef við miðum við núverandi fyrirkomulag UFC kom hans fyrsti (og eini) titill ekki fyrr en sjö árum síðar á UFC 46. Þann 31. janúar 2004 mætti Belfort Bandaríkjamanninum Randy Couture. Eftir að Couture fékk skurð á augað ákvað læknir að stöðva bardagann. Belfort varð léttþungavigtarmeistari.
3. TRT Belfort
Eftir að hinn 35 ára Belfort tapaði fyrir Jon Jones í september 2012 töldu flestir að þetta yrði hans síðasti titilbardagi. Á þeim tíma var Belfort búinn að berjast í 15 ár og nánast ómögulegt að halda sér á toppnum svo lengi. Með hjálp TRT tókst Belfort að endurlífga ferilinn sinn. TRT getur samt ekki fengið allan heiðurinn. Fáir, ef einhverjir, hafa bætt leikinn sinn jafn mikið og Belfort hefur gert svo seint á ferlinum. Belfort var alltaf þekktur fyrir góðar hendur en skyndilega var hann með stórhættuleg spörk. Hann kláraði þrjá bardaga í röð með haussparki en fram að því hafði hann aldrei sigrað eftir hausspark. Hann sigraði þrjá sterka andstæðinga, Michael Bisping, Luke Rockhold og Dan Henderson og það gaf honum hans fimmta titilbardaga á ferlinum sem fram fer annað kvöld.
2. Systir hans rænd
Skömmu fyrir titilbardagann gegn Randy Couture hvarf systir hans. Belfort ákvað samt að berjast og tryggði sér titilinn. Systir hans fannst aldrei aftur og er líklegt að henni hafi verið rænt og svo myrt. Málið er enn óleyst.
Þetta hafði áhrif á Belfort og hans feril. Eftir að hann vann titilinn tapaði hann fimm af næstu sjö bardögum og voru margir á því að dagar Belfort sem einn af þeim bestu væri liðnir.
1. Endurkoman í UFC
Belfort sýndi og sannaði að hann var langt í frá búinn. Eftir fjóra sigra í röð í Cage Rage og Affliction bardagasamtökunum snéri hann aftur í UFC. Sigur á Rich Franklin gaf honum titilbardaga gegn Anderson Silva. Sá bardagi endaði með sigri Silva eftir framspark í andlitið eins og frægt er orðið. 18 mánuðum síðar fékk hann annan titilbardaga en í þetta sinn gegn Jon Jones. Jones sigraði en Belfort var nálægt því að klára Jones með „armbar“ af bakinu í fyrstu lotu. Endurkoma hans í UFC hefur ekki verið slæm – sex sigrar og tvö töp en bæði töpin komu gegn tveimur af þeim bestu í sögunni.
Vitor Belfort mætir Chris Weidman á UFC 187 annað kvöld um millivigtartitilinn. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.