spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: Fimm mest spennandi bardagamenn ársins 2014 í UFC

Föstudagstopplistinn: Fimm mest spennandi bardagamenn ársins 2014 í UFC

Það eru margir ungir, efnilegir og spennandi bardagamenn í UFC sem eru líklegir til stórræða í MMA á næstu árum. Nokkrir þeirra eru þó alveg á mörkum þess að sanna sig, eru við hápunkt ferilsins eða munu blanda sér í toppbaráttuna í sínum þyngdarflokki á árinu. Það er ómögulegt að segja hvað verður en það verður spennandi að fylgjast með eftirtöldum bardagamönnum á nýju ári.

Vitor-Belfort

5. Vitor Belfort (24-10)

Þó Belfort sé gamalreyndur keppandi hefur ferill hans stökkbreyst á síðustu árum. Þó TRT-meðferðin hafi án vafa gert mikið fyrir líkamlegt atgervi hans hefur Belfort greinilega líka haldið áfram að bæta sig og bæta nýjum vopnum í vopnabúrið. Síðan 2007 hefur hann bara tapað fyrir Anderson Silva og Jon Jones og í síðustu þremur bardögum hefur hann verið algjörlega óstöðvandi og gjörsigrað öfluga andstæðinga með spörkum í höfuðið.

Belfort keppir við Chris Weidman um millivigtartitilinn á árinu og margir spá því að Weidman gæti lent í meiri vandræðum með nýju útgáfuna af Belfort en Anderson Silva.

gunni og gsp

4. Gunnar Nelson (11-0-1)

Eftir langt hlé frá búrinu vegna meiðsla snýr hinn ósigraði íslenski glímusnillingur aftur 8. mars næstkomandi. Það eru margir spenntir fyrir ferli þessa unga og ótrúlega efnilega bardagamanns og tveir sigrar í UFC hafa ekki dregið úr spennunni.

Gunnar mætir Omari Akhmedov í næsta bardaga og það verður erfið prófraun gegn öflugum glímumanni með þunga hnefa. Ef Gunnari tekst að sigra Akhmedov ættu dyrnar að öflugri og þekktari mótherjum að opnast og vonandi nær Gunnar sigri eða tveimur gegn þekktum UFC-kempum á árinu svo hann geti farið að stefna á toppbaráttuna 2015.

3. Ronaldo „Jacare“ Souza (19-3)

Jacare Souza er áttfaldur heimsmeistari í BJJ og fyrrverandi millivigtarmeistari í Strikeforce. Það tók hann tíma að ná höggtækninni sinni nógu góðri til að geta keppt með þeim bestu en nú er þessi stórhættulegi glímukappi líka orðinn hættulegur standandi. Í fyrstu tveimur UFC-bardögum sínum hefur hann sýnt færni sína og unnið einu sinni með uppgjafartaki og einu sinni með tæknilegu rothöggi. Í bæði skiptin var hann að berjast við öfluga bardagamenn en kláraði þá báða í fyrstu lotu.

Jacare kom frá Strikeforce árið 2013 og það verður mjög spennandi að fylgjast með þessum manni tæta í sig millivigtarmenn á nýju ári. Margir telja að Souza sé jafnvel enn meiri ógn við millivigtartitil Weidman heldur en Belfort. Souza mætir Francis Carmont í febrúar, en Carmont hefur unnið 11 bardaga í röð, þar af 6 í UFC.

2. Jimi Manuwa (14-0)

Jimi Manuwa er ósigraður eftir þrjá bardaga í UFC en í tveimur þeirra meiddust andstæðingar hans á fæti. Þrátt fyrir að hann hafi tvisvar sigrað vegna meiðsla hafa allar frammistöður hans verið sannfærandi og hann virðist afar hættulegur. Næsti bardagi hans er stórt skref upp á við, en þar mætir hann Alexander Gustafsson í aðalbardaga kvöldsins á UFC í London, 8. mars.

Ef Manuwa sigrar Gustafsson verður hann skyndilega einn af aðalkeppinautunum í léttþungavigt. Svo lengi sem Manuwa veitir góða mótspyrnu mun hann læra mikið, vekja athygli og eignast marga nýja aðdáendur.

1. Travis Browne (16-1-1)

Travis Browne er með bardagaskorið 7-1-1 í UFC. Eina tapið hans kom eftir að hann slasaðist á fæti í fyrstu lotu gegn Antonio „Bigfoot“ Silva. Fyrir vikið gat Browne ekki verið eins hreyfanlegur og hann er vanur og þess vegna náði Silva honum og vann með tæknilegu rothöggi. Tapið kveikti bál innra með Browne og hann sagði einbeittur og alvarlegur í viðtölum eftir það að hann myndi aldrei aftur leyfa öðrum að byggja feril sinn á sigri gegn sér. Síðan þá hefur Browne sigrað þrjá stórhættulega andstæðinga í fyrstu lotu og sýnt ótrúlega hörku þegar hann hefur lent í vandræðum.

Margir hafa efast um hæfni hans fyrirfram en þegar hann rústaði Josh Barnett á u.þ.b. mínútu á UFC 168 þögnuðu flestar efasemdarraddir. Með sigrinum festi Browne sig í sessi sem einn hættulegasti keppinautur í þungavigt. Að öllum líkindum berst hann næst við Fabricio Werdum um hver fær næsta titilbardaga í þungavigt.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular