Monday, June 24, 2024
spot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: Topp 5 vinabardagar sem við fáum líklegast aldrei að sjá

Föstudagstopplistinn: Topp 5 vinabardagar sem við fáum líklegast aldrei að sjá

Það kemst enginn MMA kappi einn á toppinn. Það þurfa allir æfingafélaga og eðlilega æfa margir af bestu bardagamönnum heims saman daglega. Milli slíkra æfingafélaga kviknar oft vinskapur en fæstir myndu vilja mæta æfingafélaga sínum í alvöru bardaga. Hér eru topp fimm bardagar sem við fáum líklegast aldrei að sjá vegna vinskapar.

tj og faber
Chad Mendes, Anthony Pettis, Urijah FAber og TJ Dillashaw.

5. T.J Dillashaw gegn Urijah Faber

Af öllum bardögum á þessum lista þá er þessi líklegastur til að ske. Faber er óhræddur við að hitta vini sína í hringnum. Sem dæmi má nefna Scott Jorgenson og Brian Bowles, en báðir æfðu þeir með Faber og vinum hans. Faber hefur samt komið fram og sagt að það séu aðeins tvær leiðir til að þessi bardagi verði að veruleika. Önnur væri ef Dillashaw myndi sérstaklega biðja hann um að keppa gegn sér. Svo bætti hann við í gríni að hin leiðin væri ef UFC myndi borga honum milljarð Bandaríkjadollara, sem er augljóslega ekki að fara að gerast. Samt sem áður er Urijah Faber stimplaður númer tvö í þyngdarflokkinum og forvitnilegt er að sjá hvað skyldi gerast ef Dillashaw ver titil sinn gegn Renan Barao, því þá væri Faber næstur í röðinni.

nate diaz gilbert melendez
Gilbert Melendez, Jake Shields og Nate Diaz.

4. Nate Diaz gegn Gilbert Melendez

Nate Diaz er ávallt skemmtilegt að horfa á, sama á móti hverjum hann keppir. Reyndar er allt sem leiðir að bardaganum og eftirköstin einnig góð skemmtun þegar um er að ræða Diaz bræðurna. Eftir að Melendez byrjaði að æfa í æfingabúðum þeirra hefur skapast mikill vinskapur á milli Diaz bræðranna og Melendez. Melendez er að fara að keppa um titilinn gegn Anthony Pettis en hann er um þessar mundir að þjálfa gegn Anthony Pettis í 20. seríu The Ultimate Fighter. Með honum er enginn annar en Nate Diaz sem aðstoðarþjálfari. Ólíklegt er að þessir tveir kappar muni hittast í búrinu enda má segja að Diaz bræðurnir hafi ættleitt hann í bræðrahópinn. Ef slíkur bardagi skildi ske væri um þrumur og eldingar að ræða. Líklega væri bardaginn svipaður bardaga Melendez og Diego Sanchez. Þar var ekkert gefið eftir og bara látið vaða á það án þess að hugsa um nokkurs konar vörn.

renan barao jose aldo
Jose Aldo, Andre Pederneiras (yfirþjálfari Nova Uniao) og Renan Barao.

3. Jose Aldo gegn Renan Barao

Það voru margir sem óskuðu eftir að sjá stórbardaga á milli þessa tveggja vina. Um tíma voru þeir báðir með belti og litu út fyrir að vera óstöðvandi. En það ríkir mikil virðing á milli þessara tveggja og hvorugur hefur sýnt mikinn áhuga á þessum stórbardaga. Barao hefur verið í vandræðum undanfarið við að skera niður í 135 punda flokkinn, og ef hann skyldi tapa aftur gegn Dillashaw gæti hann fært sig upp í flokkinn hans Aldo. Að sögn Barao eru hann og Aldo ekki ósvipaðir að stærð. Hver veit – kannski fáum við einhvern tímann að sjá þessa eitursnöggu vini keppa.

lyoto machida anderson silva
Lyoto Machida og Anderson Silva.

2. Lyoto Machida gegn Anderson Silva

Vegna vinskapar síns við Anderson Silva keppti Lyoto Machida mestallan feril sinn hjá UFC í léttþungarvigt þrátt fyrir að hafa auðveldlega getað keppt í millivigt. Þar keppti hann á móti þyngri mótherjum en átti þrátt fyrir það glæstan feril og hélt meira að segja um beltið í smá tíma. Gaman væri að sjá þá keppa þar sem báðir vilja standa og hafa tvo mjög ólíka bardagastíla. Myndi Muay Thai stíll hans Silva vinna eða karatestíll hans Machida? Ólíklegt er þó að við fáum að sjá þennan stórbardaga, þar sem þeir hafa báðir komið fram og sagst ekki vilja keppa gegn hvor öðrum.

cain velasquez daniel cormier
Cain Velasquez (til vinstri) og Daniel Cormier (til hægri) á góðri stundu.

1. Daniel Cormier gegn Cain Velasquez

Cormier og Velasquez hafa æft saman í San Jose í Kaliforníu í mörg ár. Þegar Cormier kom fyrst þangað til að æfa tók Velasquez á móti honum með opnum örmum og byrjaði að kenna honum box. Á móti hjálpaði Cormier honum að bæta glímuna sína. Yfirþjálfari þeirra beggja hefur sagt að þegar þessir tveir kappar æfa saman er ekkert gefið eftir og allir í æfingabúðunum hætta því sem þeir eru að gera og horfa á þá keppa. Cormier hefur sagt að erfiðustu bardagar ferils síns gerist ekki í búrinu, heldur á slíkum æfingum gegn Velasquez. Það kom líka tímabil þar sem varla var hægt að finna viðtal við Cormier þar sem ekki var spurt út í mögulegan bardaga við æfingarfélaga hans. Margir biðu þess bardaga spenntir, enda voru hér á ferð tveir af bestu þungarvigtarköppum plánetunnar. Slíkar vonir hafa nú hætt eftir að Cormier tók stökkið yfir í léttþungarvigt og beinast nú öll augu á bardaga hans við Jon Jones.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular