Friday, April 26, 2024
HomeErlentGoðsögnin: Michael Bisping

Goðsögnin: Michael Bisping

Embed from Getty Images

Hinn ótrúlega þrjóski Michael Bisping lagði hanskana formlega á hilluna á dögunum. Þessi 39 ára gamli bardagamaður átti ótrúlegan feril en hér förum við aðeins yfir ferilinn hjá þessum umdeilda bardagamanni.

Michael Bisping var oft vanmetinn en það er ekki hægt að neita því að hann hafi átt ótrúlegan feril. Hann varð óvænt millivigtarmeistari UFC eftir sigur á Luke Rockhold í júní 2016 og hélt beltinu í u.þ.b. 18 mánuði. Hann komst langt á eigin dugnaði og var lengi vel andlit MMA á Englandi. Hann mótaði í raun brautina fyrir bardagamenn á borð við Dan Hardy, Ross Pearson og Brad Pickett sem komu í kjölfarið. Bisping sýndi að það væri hægt að skapa sér stórt nafn í UFC.

Bisping var lengi nálægt toppnum, oft mjög óvinsæll og umdeildur, en virtist ekki taka sjálfan sig of alvarlega enda stutt í grínið. Þá var hann líka ömurlegur meistari enda varði hann bara beltið gegn eldgömlum Dan Henderson í stað þess að berjast við réttmæta áskorendur. Hann hagaði sér líka stundum mjög bjánalega eins og þegar hann hrækti í hornið hjá Jorge Rivera eftir sigur gegn honum.

Þá má líka taka fram að Bisping barðist við ansi marga sem höfðu eða áttu síðar eftir að falla á lyfjaprófum eða misnotuðu TRT eins og Vitor Belfort, Wanderlei Silva, Cung Le, Chael Sonnen, Chris Leben og Anderson Silva.

Uppruni

Michael Bisping byrjaði 8 ára gamall að læra hefðbundið jiu-jitsu en 15 ára tók hann sinn fyrsta bardaga. Það var ekki beint MMA bardagi heldur bardagi þar sem nánast allt var leyfilegt en síðar keppti hann í sparkboxi með fínum árangri.

Á þeim tíma var nánast ekkert um að vera í MMA á Englandi og hætti hann nokkrum sinnum að æfa þar sem hann sá ekki mikla framtíð í þessu. Hann fékk sér nokkrum sinnum alvöru vinnu svo sem í sláturhúsi, sem póstmaður eða í verksmiðju. En hann gafst ekki upp svo auðveldlega og byrjaði aftur að æfa og berjast. Um tíma hafði hann það svo slæmt að hann bjó í bílnum sínum, hafði varla efni á því að leigja sér húsnæði og það var erfitt að útskýra fyrir tengdaforeldrunum að hann ætlaði sér að berjast í búri að atvinnu á meðan hann var húsnæðislaus. En Bisping hélt áfram og komst ansi langt.

Bisping gat sér gott orð á Englandi og komst í 3. seríu The Ultimate Fighter. Þar fór hann alla leið og var einstaklega óþolandi í seríunni eins og honum einum er lagið. Síðan þá hefur hann verið með stærri nöfnunum í UFC enda umdeildur og alltaf með kjaft.

Einkenni

Kjafturinn á honum er eitt af hans einkennum. Hann er einn af þeim sem gæti stofnað til rifrilda í tómu húsi og lét menn heyra það – oft þó bara til að vekja athygli á bardaganum og hefur það virkað ansi vel. Kjafturinn hefur hjálpað honum að komast langt og skilað honum stórum bardögum. Bisping hefur oft verið lýst sem vinalegum fávita.

Þá var hann aldrei besti íþróttamaðurinn en var gríðarlega vinnusamur. Hann var ekki með mesta höggþungann, stundum sagður vera með mjúka hnefa, en sótti geyst og var með stöðuga pressu en það er nokkuð sem er alltaf erfitt að eiga við.

Embed from Getty Images

Að baki þessum dugnaði var óbilandi sjálfstrú. Hann var sennilega eini maðurinn í heiminum sem trúði því að hann gæti orðið meistari í UFC. Um tíma leit út fyrir að hann yrði einn af þeim bestu sem aldrei tókst að vinna titil í UFC en það breyttist í júní 2016. Þó Bisping hafi um tíma verið sagður vera með glerkjálka hefur hann sýnt að hann getur tekið barsmíðum en samt haldið áfram eins og í bardögunum gegn Dan Henderson (seinni bardaginn) og Anderson Silva.

Bisping notaði nánast alltaf sama inngöngulag, Song 2 með Blur, og var það einkennandi fyrir inngöngu hans í búrið. Bisping notaði lagið fyrir alla nema fimm bardaga sína í UFC.

Stærstu sigrar

Stærsti sigurinn er án nokkurs vafa sigurinn á Luke Rockhold. Bisping kom inn með tveggja vikna fyrirvara í sinn fyrsta titilbardaga, ekki búinn að æfa mikið enda var hann upptekinn við tökur á kvikmynd, hafði þegar tapað sannfærandi gegn Rockhold og átti einfaldlega sáralitla möguleika á sigri. Bisping sýndi þó að hann skyldi aldrei vanmeta og rotaði Rockhold í 1. lotu sem eru einhver óvæntustu úrslit í sögu UFC. Algjört Rocky augnablik sem var ógleymanlegt.

michael-bisping

Sigurinn á Anderson Silva var líka flottur enda þurfti hann að hafa mikið fyrir því og nafn Anderson mun alltaf bera vægi þegar litið er á ferilskrá þó Anderson hafi verið gamall þegar bardaginn fór fram. Sigurinn á Dan Henderson var líka kærkominn enda hans fyrsta (og eina) titilvörn gegn andstæðingnum sem hafði steinrotað hann nokkrum árum áður.

Verstu töpin

Hans frægasta tap var rothöggið gegn Dan Henderson í fyrri bardaga þeirra. Bisping var steinrotaður á UFC 100 fyrir framan milljónir áhorfenda og hefur myndskeið af rothögginu verið dreift ótal sinnum.

Síðasta tap ferilsins var líka ansi slæmt, rothögg gegn Kelvin Gastelum. Vitor Belfort rotaði hann líka illa með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegan skaða á sjón sinni.

Fáir vita

Michael Bisping var plötusnúður á sínum tíma áður en hann gat lifað á bardagaferlinum. Hér segir Bisping skemmtilega sögu frá dögum sínum sem plötusnúður.

Bisping hefur verið kallaður „The Count“ allan sinn feril eða greifinn. Forfaðir hans var greifi í Póllandi í kringum 1300.

Bisping er með flesta sigra í sögu UFC þegar þetta er skrifað eða 20 talsins ásamt Georges St. Pierre og Donald Cerrone. Þá er hann með flesta bardaga í sögu UFC, 29 bardaga, ásamt Jim Miller.

Bisping eyddi 6 klukkustundum og 5 mínútum í búrinu í UFC sem er það næst lengsta í sögu UFC á eftir Frankie Edgar.

Þrátt fyrir að vera oft sagður með lítin höggþunga er hann í fjórða sæti yfir flesta sigra með rothöggi í UFC (10 sigrar eftir rothögg).

Enginn hefur verið kýldur eins oft niður í UFC eins og Bisping en Bretinn var 12 sinnum kýldur niður í UFC. 6 sinnum hefur hann sigrað þrátt fyrir að hafa verið kýldur niður og er það met.

Bisping vann aldrei bardaga í UFC með uppgjafartaki en síðasti sigurinn hans með uppgjafartaki var í nóvember 2005!

Hvar er hann í dag?

Á dögum þar sem Tito Ortiz og Chuck Liddell reyna að berjast við hvorn annan er erfitt að trúa því að einhver sé í alvörunni hættur. Það er samt alveg hægt að trúa því að Bisping sé í raun og veru hættur núna. Sjónin hans er ekki sú besta og er alltaf betra að hafa sjónina í lagi í MMA.

Bisping er með hlaðvarp (Believe You Me) sem virðist ganga ansi vel þessa dagana og þá starfar hann á Fox Sports þar sem hann kemur fyrir í hinum ýmsu UFC þáttum.

Bisping hefur komið sér ansi vel fyrir í Kaliforníu og má segja að sjálfstrúin og kjafturinn hafi skilað honum ansi langt. Ekki sá hæfileikaríkasti en hann er svo sannarlega goðsögn í dag.

Heimild: MMA Junkie

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular