Það var mikið um breytingar á styrkleikalista UFC eftir helgina. 36 bardagar fóru fram og var mikið um sætaskipti.
Kelvin Gastelum sigraði Johny Hendricks á UFC 200 eftir dómaraákvörðun. Eftir sigurinn stökk hann upp um sex sæti og í það sjötta og var því nokkur breyting á listanum í veltivigtinni. Gunnar dettur úr 11. sæti og niður í það 12. en hann var ekki sá eini sem datt niður um sæti í veltivigtinni. Johny Hendricks, Matt Brown, Rick Story og Dong Hyun Kim fóru allir niður um sæti eftir hástökk Kelvin Gastelum.
Jon Jones féll niður um tvö sæti á pund fyrir pund listanum og er Demetrious Johnson nú talinn vera besti bardagamaður heims, pund fyrir pund. Nýkrýndi léttvigtarmeistarinn Eddie Alvarez kemur nýr á listann og sömu leiðis T.J. Dillashaw.
Það var einnig nokkuð um breytingar á styrkleikalistanum í þungavigtinni enda kom Brock Lesnar nýr inn á listann og beint í 8. sæti. Mark Hunt var áður í 8. sæti og tekur Lesnar hans stað á listanum.
Listinn er uppfærður u.þ.b. 36 klukkustundum eftir hvert bardagakvöld og er samansettur af fjölmiðlamönnum víðs vegar um heiminn. Á listanum raða fjölmiðlamenn 15 efstu áskorendunum á eftir meistaranum í hverjum flokki fyrir sig. Listann í heild sinni má sjá hér.