spot_img
Thursday, January 9, 2025
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHamilton Ash: Var of hræddur við að gera það eina sem mig...

Hamilton Ash: Var of hræddur við að gera það eina sem mig langaði að gera

Mynd: Dave Mandel/Sherdog.

Hamilton Ash er 26 ára bandarískur bardagamaður sem bjó á Íslandi í fjögur ár. Bardagaferillinn hans hefur verið á góðu skriði og heyrðum við í honum á dögunum frá heimili hans í Bandaríkjunum. Hamilton var ekki hann sjálfur er hann bjó klakanum en blómstrar nú.

Hamilton býr í Whitefish í Montana sem er um 6.000 manna bær norðarlega í Bandaríkjunum. Whitefish er skíðabær sem er að sögn Hamilton ekki ósvipaður og Reykjavík. Hamilton er giftur íslenskri konu, Rebekku Ás Halldórsdóttur, og bjó með henni hér áður en þau fluttu til Bandaríkjanna árið 2014.

„Mér var boðið starf sem yfirþjálfari í SBG bardagaklúbbi hér í Whitefish. Ég tók því boði en hér kenni ég og berst. Þetta er fullkomið, þetta er það sem ég vil gera,“ segir Hamilton en hann er 6-2 sem atvinnumaður í MMA og berst í fjaðurvigt.

„Ég var fastur í sömu hjólförunum á Íslandi svo þetta heppnaðist vel fyrir alla. Hér ganga hlutirnir mjög vel fyrir sig. Ég byrja alla morgna á morgunhlaupi á fastandi maga þar sem ég hleyp með stelpu með einhverfu og hundinum mínum. Eftir það kenni ég hádegistíma, barnatíma klukkan fjögur, stundum á kvöldin og einkatíma þess á milli.“

MMA ferillinn gengur nokkuð vel núna þó Sherdog eigi oft erfitt með að ná bardagaskorinu hans réttu að sögn Hamilton. Hann er svart belti í brasilísku jiu-jitsu undir Matt Thornton og er með fimm sigra eftir uppgjafartök og einn eftir rothögg. Töpin hans tvö stinga þó aðeins þar sem það eru bardagar sem honum fannst hann hefði átt að vinna.

Seinna tapið fór fram í Bellator í maí en þar mætti hann manni að nafni Vincent Morales. „Ég hefði átt að f**king vinna,“ segir Hamilton og hlær. „Ég var að berja hann sundur og saman í tvær og hálfa lotu, standandi, í clinchinu, á gólfinu. Ég var orðinn of rólegur og farinn að sparra við hann eins og á æfingu, farinn að prófa nýja hluti og ný spörk. En svo allt í einu fékk ég högg í gagnaugað og þá var það búið,“ segir Hamilton og hlær aftur.

Hann tekur sjálfan sig þó ekki of alvarlega og segir við þessu: „Shit happens. Þetta var erfið lexía en það var betra að þetta gerðist núna snemma á ferlinum en ekki síðar á þessu ferðalagi sem ég er á.“

Það var aðeins um einn bardaga að ræða í Bellator og þó hann hefði unnið hefði Hamilton sennilega ekki fengið áframhaldandi samning við Bellator. „Það sem Bellator gerir er að þegar þeir mæta á svona staði eins og Idaho fá þeir bardagasamtök á nærsvæðinu til að setja saman bardaga fyrir þá með bardagamönnum úr næsta nágrenni. Bellator hendir þeim svo í upphitunarbardagana til að fylla bardagakvöldið en svo er aðalhluti bardagakvöldsins allt annar.“

„Þeim er skítsama um gæjana í upphitunarbardögunum. Þú ert bara þarna til að gera þitt, sem var klárlega frábært fyrir mig, en ég veit ekki hvað þarf til að fá samning hjá þeim. Margir af liðsfélögum mínum börðust sama kvöld og unnu eftir rothögg eða uppgjafartak í 1. lotu, með gott bardagaskor en þeir fengu ekki einu sinni samning. Ég veit ekki hvað þarf til. Þú þarft örugglega að hafa fullt af fylgjendum á Twitter og þekkja rétta fólkið,“ segir Hamilton en hann er ekki með umboðsmann og annað hvort bókar bardagana sjálfur eða þjálfarinn hans Travis Davison sér um það.

Skæru ljósin voru ekkert bjartari í Bellator og leið honum afskaplega vel þar.  „Það er skrítið en svona þegar ég hugsa um það fannst mér stærsti munurinn á Bellator og öðrum bardagasamböndum hve afslappaður ég var. Mér leið frábærlega og því algjört buzzkill að tapa. Ég var í fyrsta bardaga kvöldsins og það var mjög skrítið að vita nákvæmlega hvenær ég myndi berjast en vanalega hefur maður ekki hugmynd um það. Það var ekkert inngöngulag, mér var bara hent fljótt í búrið, gæjinn kynnir mig og svo bara af stað! Það var samt frekar svalt og mér leið mjög vel. Svo vaknaði ég bara í sturtunni fimm bardögum seinna og hugsaði hvað í fjandanum hefði gerst,“ segir Hamilton og hlær.

„Eitt það mikilvægasta sem ég lærði af þessu var að vera með leikáætlun. Ég hef aldrei verið með neitt plan og áttaði mig á því hve asnalegt það er. Núna hef ég verið að vinna í því og líka í sparkboxinu mínu með Chris Connelly í Spartan Fitness. Ég hef oft bara verið að kenna mér sjálfur standandi en núna er ég að fá alvöru leiðbeiningar. Ég hef líka áttað mig á því eftir tvo síðustu bardagana mína hvers konar bardagamaður ég vil vera. Ég vil bara taka þá niður og klára þá með uppgjafartaki eins og Demian Maia og Gunni. Það er besta leiðin, enginn skaði og bara skynsamlegt. Eins frábær og Conor McGregor er standandi, þá fær hann samt högg í sig. Ef þú ert standandi muntu fá högg í þig.“

Hræddur á Íslandi

Eins og áður segir bjó Hamilton hér á landi í fjögur ár og æfði á meðan í Mjölni. Áður en hann kom hingað átti hann góðan feril sem áhugamaður (7-2) en um tíma virtist sem hann myndi aldrei taka skrefið í atvinnumennskuna. Nokkrum mánuðum áður en Hamilton flutti til Íslands kjálkabrotnaði hann illa í bardaga og þurfti að vera á fljótandi fæði í þrjá mánuði. Það var reynsla sem hann vildi aldrei upplifa aftur og þegar hann var hér á landi virtist hann hafa engan áhuga á að snúa sér aftur að MMA. En hvað breyttist?

„Mig langaði alltaf að fara aftur í MMA. Ég var bara á slæmum stað. Ég var of hræddur við að gera það eina sem mig langaði að gera. Það eina sem ég hugsaði um allan daginn alla daga var MMA. En ég var of mikil skræfa til að gera það.“

„Ég var meira að segja skíthræddur við lítil innanhús glímumót í Mjölni. Ég gat varla keppt þar, það var stórmál fyrir mig. Ég var ekki að hugsa vel um sjálfan mig en að koma hingað til Whitefish gaf mér tækifæri á að endurstilla sjálfan mig.“

„Hér er ég með frábært lið og þjálfara sem hjálpa mér mikið. Og Rebekka konan mín er auðvitað aðalástæðan fyrir því hvers vegna við fluttum. Ég var að gera hana bilaða, ég þurfti að gera mitt, annars hefði ég misst vitið. Margir sem ég þekkti þegar ég var á Íslandi átta sig örugglega ekki á því hversu mikið MMA skipti mig máli. Þess vegna hvatti hún mig til að leggja rækt við það sem gerir mig hamingjusaman.“

Hamilton var bara 18 ára þegar hann kjálkabrotnaði og hafði hann ekkert stuðningsnet í kringum sig til að koma sér í gegnum erfiðleikana sem fylgdu. „Ég féll af hestinum og kom mér aldrei aftur á hann. Ég þróaði með mér mikinn frammistöðukvíða og það var hluti af því hvers vegna ég æfði ekki eins mikið. Ég hugsaði um MMA alla daga, allan daginn en fékk mig ekki til að mæta á æfingar. Ég reyndi að sannfæra mig um að ég þyrfti þess ekki í lífið mitt en staðreyndin var sú að það var það eina sem ég hugsaði um. Mér leið ömurlega og gerði alla í kringum mig vansæla.“

Hamilton verður ennþá mjög stressaður fyrir bardaga en áhyggjurnar tífölduðust eftir tapið hans sem áhugamaður. Hann höndlar taugarnar mun betur í dag og var brattur eftir rothöggið í Bellator.

„Eftir tapið í Bellator var ég með þetta dökka ský í kringum mig. Fólk var að efast um hvort ég myndi hætta og hvernig ég hefði það eftir að hafa rotast og svona. En sannleikurinn er sá að um leið og ég vaknaði eftir rothöggið hugsaði ég að ég þyrfti að drífa mig aftur af stað.“

„Áhuginn varð ekkert minni þar sem ég hef áður farið í gegnum þetta. Á Íslandi var ég bara skugginn af sjálfum mér því ég var of hræddur við að gera það sem mig langaði að gera en ég mun aldrei láta það gerast aftur. Tapaði ég illa, hvað með það? Ég hef farið í gegnum verra og mun halda áfram.“

Hamilton vildi í fyrstu fá annað tækifæri í Bellator en núna er honum sama hvar hann berst. Langtíma markmiðið er að komast í UFC en þangað til er hann tilbúinn að berjast hvar sem er.

Hægt og rólega fær hann meira borgað fyrir hvern bardaga og vill í dag helst fá 1000 dollara fyrir að mæta og aðra 1000 dollara fyrir að sigra. Fyrir bardagann í Bellator fékk hann 800 dollara en hann hefði fengið aðra 800 dollara fyrir sigur.

„Þetta er ekki mikið en hjálpar mér að borga reikningana. Ég er þó með góða styrktaraðila sem hjálpa mér mikið. Það er vinna að fá styrktaraðila og sérstaklega ef þú ert ekki hluti af samfélaginu. Í dag eru flestir styrktaraðilar mínir fólk sem ég kenni eða ég kenni krökkunum þeirra. Þetta eru að mestu vinir mínr og það er frábært að fá styrki frá fólki sem styður mig.“

Hamilton á bardaga framundan þann 15. mars í Calgary í Kanada. Áhugasamir geta fylgst með Hamilton á opinberri Facebook-síðu hans hér.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Mest Lesið