spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHaraldur Nelson: Kom ekki til greina að setja Gunnar á ofvirknilyf (1....

Haraldur Nelson: Kom ekki til greina að setja Gunnar á ofvirknilyf (1. hluti)

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Á dögunum áttum við langt og gott spjall við Harald Dean Nelson. Spjallið náði allt frá upphafi ferils Gunnars til sigursins gegn Albert Tumenov og allt þar á milli. Í fyrsta hluta viðtalsins förum við yfir upphafið á ferli Gunnars.

Haraldur Dean Nelson er faðir og umboðsmaður Gunnars Nelson. Haraldur er einnig framkvæmdastjóri Mjölnis en fáir þekkja íþróttina jafn vel hér á landi líkt og Haraldur.

Gunnar Nelson ákvað að hætta í menntaskóla til að einbeita sér að fullu að bardagaferlinum. Hann var að hefja vorönn á þriðja ári við Menntaskólann við Sund þegar hann ákvað að hætta í skólanum. Haraldur var staddur í Miami þegar Gunnar tók þessa ákvörðun.

„Ég átti von á því að hann myndi ekki klára skólann. Þó honum gengi mjög vel þá var hugurinn hans kominn annað. Ég hafði svo sem alveg gert mér hugmynd um að hann myndi vilja fara eitthvert síðasta árið, taka sér pásu. Hann átti alltaf auðvelt með að læra,“ segir Haraldur.

„Ég vildi eiginlega að hann myndi klára þennan 3. bekk. Hann sagðist hins vegar ekki hafa áhuga á þessu og þetta væri ekki sín leið. Ég vil meina að hann hafi notað tækifærið á meðan ég var úti svo hann þyrfti ekki að taka þessa umræðu of mikið.“

„Ég samþykkti þetta bara en honum var svo sem ekki snúið um það. Hann var ákveðinn í að fara sína leið í þessu og ég virti það. Ég hef svo sem farið mínar eigin leiðir sjálfur þegar ég var yngri og gat svo sem voða lítið sagt við þessu þegar maður hugsar til baka.“

Leið Gunnars hefur svo sannarlega verið farsæl en hvað væri Gunnar að gera í dag ef hann hefði ekki farið þessa leið og jafnvel farið menntaveginn? „Hann var sterkur raungreinamaður en lesfögin áttu síður við hann og honum leiddist þau. Honum fannst gaman að eiga við þrautir og svona. Ef ég ætti að skjóta á eitthvað gæti ég séð hann fyrir mér í einhverjum raungreinum en maður veit svo sem ekkert. Hann hefði getað farið í eitthvað tengt heilsugeiranum eins og læknisfræði eða sjúkraþjálfun. Eða byggingarverkfræði eða tæknifræði.“

haraldur nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar er þekktur sem rólyndismaður í dag en hann var ekki alltaf svona rólegur. Þegar hann var krakki þurfti hann alltaf að hafa mikið fyrir stafni og vildi hafa eitthvað að gera. „Við vorum tvisvar kölluð á skólastjóraskrifstofu þar sem einhver hjúkka sagði að hann væri ofvirkur og vildi setja hann á ofvirknilyf. Það kom ekki til greina. Það þurfti bara að hafa ofan fyrir honum. Hann var alltaf mjög rólegur og þægilegur heima en svo gat hann verið mjög atorkusamur þegar hann var kominn út fyrir heimilið.“

„Gunnar vildi hafa nóg að gera og það kom alveg í ljós að hann var strax mjög góður íþróttamaður. Maður setti hann bara í fótbolta en mér fannst hans orka þurfa meiri hlaup og læti á þeim tíma. Hann hafði svo sem takmarkaðan áhuga á fótbolta og við nenntum ekki að eltast við þessi mót á sumrin og endaði hann í hokkí þar sem það var bara á veturna. Það féll honum mjög vel enda mikil hreyfing og mikið contact sport. Hann varð snemma mjög góður í því.“

Gunnar hafði alltaf mikinn áhuga á karate en Haraldur hélt honum frá því fyrst um sinn. „Þegar hann var 13-14 ára gamall hleypti ég honum loksins í karate eins og hann segir. Hann varð líka mjög snemma góður í því og þá sérstaklega í kumite, bardagahlutanum. Minnir að hann hafi orðið Íslandsmeistari í sínum flokki unglinga innan við ári eftir að hann byrjaði eða um það bil ári. Hann vann þann titil öll árin eftir það og var kjörinn efnilegasti karatemaðurinn og svona.“

Gunnari gekk vel í karatenu og var í landsliðinu þar sem hann kynntist Jóni Viðari Arnþórssyni, forseta Mjölnis. Það var Haraldur sem kynnti þá en Haraldur hafði kennt Jóni Viðari í grunnskóla. Rétt áður en Gunnar ákvað að hætta í karate fékk hann hæsta styrk sem veittur hafði verið karate manni á sínum tíma. Gunnar ákvað hins vegar að hafna styrknum þar sem hann ætlaði ekki að halda áfram í karate að neinu viti. „Við deildum aðeins um það hvort hann ætti að halda áfram í karatenu með en þá var hann alveg ákveðinn í að snúa sér að brasilísku jiu-jitsu.“

Það er augljóst að Gunnar var alltaf góður íþróttamaður. En hvenær sá Haraldur að Gunnar gæti orðið virkilega góður í MMA?

„Maður sá það frekar fljótt að honum fór hratt fram. Menn voru að koma til mín og segja að hann væri algjört fyrirbæri í BJJ eða svona phenom. En svo veit maður aldrei þar sem ég er pabbi hans og maður veit ekki hvort þjálfararnir voru að segja þetta við mig af því ég er pabbi hans eða vegna þess að hann væri svona góður. En það virtist vera þannig. Honum fór gríðarlega ört fram og þetta átti vel við hann.“

„Þegar Renzo Gracie kemur hingað 2008 heillast hann alveg að Gunna. Hann tók mig á eintal og sagðist endilega vilja fá Gunna út til New York til að æfa þar. Hann fer til Renzo og þar fór jitsið hans alveg upp á aðrar hæðir enda um 30 svört belti á dýnunum þar á hverjum degi.“

Gunnar ferðaðist mikið á þessum árum en auk þess að vera hjá Renzo Gracie í New York dvaldi hann mikið í Manchester og Dublin við æfingar. Gunnar æfði einnig hjá B.J. Penn á Havaí þar em honum gekk mjög vel. „Við skröpuðum saman í þessa ferð, æfingagjöld, flug, gisting og svona sem kostaði sitt. Hann var þar í þrjá mánuði og honum gekk mjög vel þar. Þeir felldu niður æfingagjöldin hans síðustu tvo mánuðina af því þeir vildi hafa hann áfram og fannst hann það góður.“ Þá var Gunnar bara 19 ára og búinn með fimm bardaga.

Síðan þá hefur Gunnar svo sannarlega farið lengra í MMA. Þetta er aðeins fyrsti hluti viðtalsins af þremur en á morgun munum við birta annan hluta viðtalsins. Í þeim hluta fer Haraldur yfir nokkra af bardögum Gunnars út frá sínu sjónarhorni og þar á meðal er bardaginn gegn Demian Maia.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular