spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvað er Bellator að gera?

Hvað er Bellator að gera?

bellator logoÁ föstudaginn fer fram eitt furðulegasta bardagakvöld síðari tíma. Á Bellator 149 mætast þeir hundgömlu Royce Gracie og Ken Shamrock í aðalbardaganum og tveir fyrrum götuslagsmálamenn fá að útkljá málin í næstsíðasta bardaga kvöldsins.

Það er ótrúlegt að Bellator skuli fara þessa leið. Royce Gracie er 49 ára gamall og hefur ekki barist í tæp átta ár. Ken Shamrock er 52 ára og snéri aftur í MMA í fyrra eftir fimm ára hlé. Fyrri bardagi þeirra var áhugaverður enda fór hann fram á UFC 1 þegar MMA íþróttin var allt önnur. Seinni bardaginn var hins vegar einn sá versti í sögu UFC.

Það er lítill sem enginn áhugi á bardaganum meðal harðkjarna bardagaaðdáanda og ótrúlegt að hugsa til þess að nokkur maður hafi áhuga á að sjá þessa gömlu kalla berjast.

Því miður segja tölurnar annað. 2,5 milljónir manna horfðu á Kimbo Slice rota Ken Shamrock fyrr í sumar. Bellator fær aldrei þessar tölur með heimsklassa bardagamenn á borð við Will Brooks og Michael Chandler en Ken Shamrock, Royce Gracie, Kimbo Slice og Dada 5000 gætu tryggt slíkar tölur. Enginn af þessum mönnum er heimsklassa bardagamaður í dag en þeir virðast vekja áhuga almennings.

Næstsíðasti bardagi kvöldsins er jafn slæmur og aðalbardaginn. Þar mætast þeir Dhafir Harris og Kevin Ferguson, betur þekktir sem Dada 5000 og Kimbo Slice. Báðir urðu þeir frægir fyrir götuslagsmál og eru óvinir í dag af ástæðum sem öllum er sama um. Þeir eru líka báðir á þeim aldri að maður myndi halda að svona menn væru vaxnir upp úr götuslagsmálum. Þess má geta að Harris er 2-0 í MMA en andstæðingar hans eru með samanlagt einn sigur og 16 töp á MMA ferlum sínum.

Kimbo Slice er gríðarlega vinsæll og mun kannski trekkja mest að á föstudaginn. Það er því dálítið skrítið að Bellator skuli ekki nota tækifærið og setja sína hæfileikaríkustu bardagamenn á kvöldið til að kynna þá betur. Á kvöldinu eru ágætis bardagamenn en ekki þessar stjörnur sem Bellator þarf að koma meira í sviðsljósið. Emmanuel Newton mætir Linton Vassell og eru það sennilega tveir bestu bardagamenn kvöldsins. Báðir eru þeir 32 ára og á seinni stigum ferilsins og kannski ekki þessar framtíðarstjörnur sem Bellator ætti að byggja upp.

Bellator virðist æ meira vera á leið í einhvern sirkús. Nýlega lýsti Pat Miletich því yfir að hann hefði áhuga á að mæta jafnvel sigurvegara föstudagsins (Gracie eða Shamrock). Miletich er 49 ára gamall, barðist síðast árið 2008 og var upp á sitt besta árið 2001. Scott Coker, forseti Bellator, virtist spenntur fyrir þeirri hugmynd. Er þetta grín? Hvað eru þeir að gera?

Kannski eru þetta bara Viacom, eigendur Bellator, sem eru svona æstir í áhorfstölur að þeir pressi á Scott Coker að setja saman svona öldungardeildarbardaga. Það má ekki gleyma að Scott Coker gerði frábæra hluti með Strikeforce á sínum tíma og fann bardagamenn eins og Daniel Cormier, Luke Rockhold og Rondu Rousey. Hann hefur sýnt að hann hefur vit á þessu en kannski erum við ekki að sjá heildarmyndina. Kimbo Slice er afar þekktur meðal almennings og það er kannski skiljanlegt að Bellator vilji notfæra sér nafn hans og gera vörumerkið sitt þekktara. Bardagi Gracie og Shamrock er hins vegar óskiljanlegur bardagi sem gæti endað mjög illa.

bellator 149

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular