spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHvað vitum við um andstæðinga strákanna?

Hvað vitum við um andstæðinga strákanna?

Þeir Bjarki Þór Pálsson, Bjarki Ómarsson og Egill Øydvin Hjördísarson berjast í MMA í Liverpool annað kvöld. Bardagarnir fara fram á Shinobi War 8 bardagakvöldinu en hvaða gæjum eru þeir að fara að mæta?

Mjölnisstrákarnir hafa allir náð tilsettri þyngd og tekur nú við afslöppun, og át, fram að bardaga. Bardagaaðdáendur geta fylgst með strákunum hér annað kvöld en útsendingin hefst kl 16:30 á íslenskum tíma. Kíkjum aðeins á andstæðingana.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Andstæðingur Bjarka Þórs

Bjarki Þór Pálsson (11-1 sem áhugamaður) berst sinn fyrsta atvinnubardaga á morgun. Hann mætir hinum pólsk ættaða Breta, Adam Szczepaniak.

Við vitum ekki mikið um Szczepaniak enda sagði Bjarki Þór við undirritaðan að hann ætlaði bara að gera sitt og er ekki mikið að spá í andstæðingnum. Það sem við höfum þó séð með smá Google leit er heldur ekki mikið.

Samkvæmt gagnabankanum Tapology hefur hann barist tvo áhugamannabardaga og tapað þeim báðum í fyrstu lotu eftir tæknilegt rothögg. Bardaginn á morgun verður hans fyrsti sem atvinnumaður rétt eins og hjá Bjarka Þór. Athugið þó að ekki eru allir áhugamannabardagar alls staðar skráðir og gæti hann þess vegna verið með fleiri bardaga að baki sem ekki er vitað um.

Það er einnig athyglisvert að báðir skráðu bardagarnir komu með stuttu millibili á þessu ári. Hans fyrsti skráði bardagi fór fram þann 30. apríl á Shinobi War 7 bardagakvöldinu. Seinni skráði bardaginn hans fór svo fram 7. maí eða viku síðar.

Þess má til gamans geta að Adam Szczepaniak á alnafna sem er doktor í kjarneðlisfræði.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Andstæðingur Bjarka Ómarssonar

Bjarki Ómarsson (6-4) mætir Rob Zabitis og er barist upp á fjaðurvigtarbelti Shinobi. Samkvæmt vefsíðu Shinobi er Zabitis 5-1 sem áhugamaður en Sherdog er með hann 4-0 og Tapology 2-0. Það er því ekki alltaf að marka þessa gagnabanka.

Zabitis er hávaxinn, grannur og virkar nokkuð liðugur. Af bakinu er hann ógnandi og tókst honum að sigra Steven Duke með „triangle“ hengingu í 1. lotu eftir að hafa verið tekinn snemma niður.

Þegar hann var kýldur niður af Jay Moogan var hann fljótur að jafna sig af bakinu og náði aftur „triangle“ hengingu af bakinu. Hann er greinilega góður í „triangle“ hengingunni því gegn Alex Buchowski sigraði hann með „armbar“ úr „triangle“ stöðunni.

Hann æfir hjá Team Elite í Southport á Englandi og er með reynslu úr Muay Thai einnig. Af Muay Thai bardaga hans að dæma er hann harður af sér og er því nokkuð ljóst að þetta verður hörku bardagi.

https://www.youtube.com/watch?v=DL0Ibp8bo5w

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Andstæðingur Egils

Egill Hjördísarson (4-1) mætir Will Jones í millivigt. Jones er 3-2 samkvæmt gagnabanka Tapology en Shinobi skráir hann sem 3-1.

Af myndböndunum að dæma virkar þetta hraustur strákur sem er sterkur glímumaður. Það virðist ekki vera neitt leyndarmál hvað hann ætlar að gera – hann fer strax í felluna. Það verður áhugavert að sjá hvort honum tekst það á morgun enda hefur undirritaður séð Egil með afskaplega góða felluvörn á undanförnum vikum.

Þegar Jones kemst ofan á veitir hann þung högg en er á sama tíma mjög villtur. Jones er greinilega harður af sér og lætur finna vel fyrir sér. Í einu af töpunum hans (eða hans eina tap) náði hann aldrei fellunni og virðist honum ekki líða neitt alltof vel þegar hann nær ekki fellunni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvort skeggjaði Bretinn nái fellunni snemma gegn Agli.

https://www.youtube.com/watch?v=tfjP2zClhc0

https://www.youtube.com/watch?v=SW6k0hyThWg

https://www.youtube.com/watch?v=WQo4FUcN-aY

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular